Umsóknir barna um alþjóðlega vernd
Í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar alþingismanns, um brottvísun barna sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd, kemur fram að 317 börn hafi þurft að yfirgefa landið í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019.
Talan 317 hefur vakið nokkra athygli og hefur verið gefið í skyn að hún skýrist af annarlegum sjónarmiðum starfsfólks Útlendingastofnunar sem virði ekki þau lög og reglur sem þeim ber að fara eftir. Einföldum skilaboðum og staðhæfingum er alltaf auðveldara að koma á framfæri en ítarlegri upplýsingum í lengra máli. Þær eru hins vegar nauðsynlegar öllum þeim sem vilja taka þátt í upplýstri umræðu. Að gefnu tilefni er því hér að neðan gerð grein fyrir frekari upplýsingum varðandi börn og brottvísanir á síðastliðnum sex árum en þær eru að hluta samhljóða því sem fram kemur í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurnum áðurnefnds þingmanns (sjá svar við fyrirspurn um börn sem vísað hefur verið úr landi og svar við fyrirspurn um brottvísun barna sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd).
Niðurstöður í málum barna í tölum
Af þeim 317 börnum sem þurftu að yfirgefa landið á síðastliðnum sex árum var 62 börnum synjað um efnislega meðferð umsóknar þeirra vegna þess að annað Evrópuríki hafði viðurkennt ábyrgð sína á meðferð umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd eða vegna þess að þeim hafði þegar verið veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn í öðru Evrópuríki. Þessum börnum var í kjölfarið vísað aftur til viðkomandi Evrópuríkis ásamt foreldrum sínum að undangenginni rannsókn á því hvort viðtökuríkið gæti staðið við skuldbindingar sínar til að tryggja umönnun og málsmeðferð þeirra.
255 börnum var synjað um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum í kjölfar efnislegrar meðferðar umsóknar þeirra. Af þeim voru fjögur fylgdarlaus, eitt 15 ára, eitt 16 ára og eitt 17 ára og eitt sem var orðið 18 ára þegar því var fylgt úr landi, en þau voru öll frá öruggum upprunaríkjum. Börnum í fylgd foreldra var vísað aftur til heimalands ásamt foreldrum sínum en langstærstur hluti þeirra var frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki (auk Hvíta Rússlands, Mongólíu og Ísrael).
Örugg upprunaríki eru álitin örugg í samhengi við umsóknir um alþjóðlega vernd vegna þess að þar eru ekki stundaðar kerfisbundnar ofsóknir gegn fólki, grundvallarmannréttindi eru virt og úrræði eru til staðar ef brotið er gegn þeim réttindum, svo sem lögregluvernd og sjálfstæðir dómstólar. Vegna þeirrar forrannsóknar sem farið hefur fram á aðstæðum í öruggum upprunaríkjum er unnt að hraða málsmeðferð slíkra mála verulega en þrátt fyrir það fer fram mat á öllum sömu atriðum og í hefðbundnum efnismeðferðar málum.
Á sama sex ára tímabili hafa íslensk stjórnvöld veitt um 190 börnum alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Málsmeðferð umsókna barna um vernd
Í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2017, segir að við mat á því hvort einstaklingur eigi rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður, í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, skuli það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi.
Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skal Útlendingastofnun líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt grein þessari. Við framkvæmd þessarar greinar skal stofnunin eiga samráð við barnaverndaryfirvöld og þegar um er að ræða fylgdarlaus börn er skylt að leita umsagnar Barnaverndarstofu áður en ákvörðun er tekin.
Fyrir gildistöku nýrra laga um útlendinga var lagt mat á hagsmuni barnsins í samræmi við Barnasáttmálann og ákvæði þágildandi laga um útlendinga. Matið fór fram með öðrum hætti en nú og báru ákvarðanir Útlendingastofnunar ekki eins skýr merki um matið og nú.
Við framkvæmd laga um útlendinga er lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja einingu fjölskyldunnar og almennt hefur verið lagt til grundvallar að hagsmunum barns sé best borgið með því að sú eining sé tryggð. Hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að barn uppfylli ekki skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd hér á landi og að hagsmunum barnsins sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi foreldri eða foreldrum sínum aftur til heimalands þeirra eða annars ríkis sem þau hafa heimild til dvalar er tekin ákvörðun um að vísa barninu frá landinu í fylgd foreldris eða foreldra.
Í samræmi við áðurnefnt ákvæði á Útlendingastofnun samráð við barnaverndaryfirvöld við framkvæmd greinarinnar og er það gert með reglulegum fundum, eða a.m.k. einum fundi í mánuði og oftar ef á þarf að halda. Þegar um fylgdarlaus börn er að ræða er alltaf leitað eftir umsögn Barnaverndarstofu í samræmi við það sem segir í ákvæðinu. Í samráði við Barnaverndarstofu veitti Barnahús starfsfólki Útlendingastofnunar sérstaka fræðslu um hvernig taka skuli rannsóknarviðtöl við börn. Í kjölfarið var viðmiðunaraldur barna sem boðið er í viðtal hjá Útlendingastofnun lækkaður niður í sex ára en áður hafði verið miðað við 15 ára. Í dag er ekki miðað við neinn sérstakan aldur og börnum er boðið viðtal að teknu tilliti til þroska þeirra og getu.
Hjá Útlendingastofnun er lögð áhersla á að innan stofnunarinnar sé til staðar nauðsynleg sérþekking á málefnum barna í leit að alþjóðlegri vernd, bæði hvað varðar þau sem eru í fylgd og þau sem eru fylgdarlaus. Meðal annars hefur starfsmaður stofnunarinnar sótt sér sérstaka fræðslu í málefnum barna hjá EASO, Evrópsku stuðningsskrifstofunni í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Fræðslan fólst fyrst og fremst í viðtalstækni þegar tekin eru rannsóknarviðtöl við börn og þjálfun í að veita öðru starfsfólki stofnunarinnar slíka fræðslu.