Vegna frétta af aðbúnaði í húsnæði Útlendingastofnunar að Grensásvegi
Í búsetuúrræði Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Grensásvegi eru 28 herbergi með eldunaraðstöðu. 42 umsækjendur um vernd dvelja í húsnæðinu um þessar mundir. Tveir einstaklingar deila herbergi í flestum tilvikum en þegar um er að ræða einstaklinga sem glíma við alvarleg veikindi dvelja þeir einir í herbergi. Aldrei búa fleiri en tveir saman í herbergi á Grensásvegi.
Í húsnæðinu eru átta baðherbergi og er verið að endurnýja þau, tvö og tvö í einu. Meðan á endurbótunum stendur eru því sex baðherbergi í notkun hverju sinni. Sápa og handspritt er til staðar á baðherbergjum og íbúar geta fengið grímur eftir þörfum hjá öryggisverði.
Herbergið sem sést á myndum í fjölmiðlum og í myndbandi á samfélagsmiðlum var tekið úr notkun og íbúum þess fengið annað herbergi þegar þeir létu vita af því að vatnskraninn væri bilaður. Þess má geta að herbergið á myndunum er minnsta herbergið í húsinu.