• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
    • Hafa samband
    • COVID-19
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Algengar spurningar
  • Lög og reglugerðir
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Vistráðning / au-pair

Dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar (au pair)

Dvalarleyfi vegna vistráðningar er fyrir einstakling á aldrinum 18 til 25 ára sem vill starfa sem au pair á Íslandi. 

Það athugist að miðað er við afmælisdag umsækjanda. Umsóknum sem eru lagðar inn fyrir 18 ára afmælisdag eða eftir 25 ára afmælisdag umsækjanda verður synjað.

Dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar er veitt samkvæmt 68. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þú gætir átt rétt á au pair leyfi ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt ásamt fleirum

  • Þú ert á aldrinum 18 til 25 ára þegar umsókn er lögð fram,
  • ætlar ekki að setjast að á landinu,
  • hefur gert samning sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru,
  • munt búa hjá fjölskyldu, þar sem a.m.k. einn fullorðinn er með íslenskt ríkisfang eða ótímabundið dvalarleyfi,
  • hefur ekki fjölskyldutengsl við vistfjölskylduna,
  • munt fá vasapening fyrir létt heimilisstörf og barnagæslu, en ekki laun fyrir fullt starf inni á heimilinu,
  • vistfjölskylda hefur sérherbergi fyrir þig,
  • framfærsla þín er trygg á dvalartíma,
  • þú ert sjúkratryggð(ur) hjá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög),
  • hefur ekki afplánað refsingu erlendis á síðustu 5 árum eða verið dæmd(ur) til lengri refsingar en sem samsvarar 3 mánaða fangelsi samkvæmt íslenskum lögum, og
  • átt vegabréf þar sem gildistími er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis.

Þú mátt ekki

  • vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram,
  • sækja um atvinnuleyfi,
  • vinna utan heimilis, hvorki launaða né ólaunaða vinnu,
  • vinna á vistheimilinu meira en 30 klukkustundir á viku eða 5 klukkustundir á dag,
  • hugsa um langveik börn eða aðra einstaklinga í svipaðri stöðu, 
  • endurnýja dvalarleyfið, nema þú hafir fengið leyfi veitt til minna en eins árs og viljir vera í heilt ár, 
  • fá fjölskyldu þína með þér eða til þín, 
  • sækja um dvalarleyfi á öðrum forsendum nema yfirgefa landið, eða
  • sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnu fyrr en eftir 2 ára samfellda dvöl erlendis eftir að dvalarleyfið rann út.

Umsókn um dvalarleyfi, samningur um vistráðningu og önnur fylgigögn skulu lögð fram hjá Útlendingastofnun eða sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins. 

Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og þegar hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram. Slíkri umsókn verður synjað.  

Ef umsækjandi uppfyllir ekki þessi skilyrði og þau skilyrði sem fjallað er um neðar verður dvalarleyfi synjað og umsækjandi þarf að yfirgefa landið. Yfirgefi umsækjandi ekki landið getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Endurkomubann felur í sér bann við endurkomu á Schengen-svæðið um ákveðinn tíma eða að lágmarki 2 ár.


Nánar um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar

Skilgreining á vistráðning og réttindi sem fylgja leyfinu

Au pair og verkefni á vistheimili

Hverjir geta verið vistfjölskylda og hvaða skilyrði þarf að uppfylla? 

Samningur um vistráðningu

Ráðningarslit

Ferðakostnaður

Ástæður fyrir synjun

Umsókn um leyfi

 

Skilgreining á vistráðningu og réttindi sem fylgja leyfinu

Vistráðning er nokkurs konar menningarskipti og er skilgreind í greinargerð með lögum um útlendinga sem:  „tímabundin móttaka fjölskyldna, í skiptum fyrir ákveðna þjónustu, á ungum, erlendum einstaklingum sem koma til þess að auka tungumálakunnáttu sína og jafnvel faglega þekkingu, jafnframt því að víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn með því að öðlast meiri þekkingu á landi því sem þeir koma til“.

 

Réttindi sem fylgja dvalarleyfinu eru eftirfarandi

  • Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og á meðan það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar.
  • Leyfið má veita til 1 árs, en getur aldrei gilt lengur en til loka samnings á milli vistfjölskyldu og au pair.
  • Ekki er heimilt að endurnýja dvalarleyfið, nema það hafi verið gefið út til styttri tíma en 1 árs. Þá er heimilt að endurnýja leyfið svo að samanlagður gildistími leyfis verði 1 ár.
  • Ef samningnum er sagt upp getur au pair gert samning við nýja vistfjölskyldu, en samanlagður dvalartími au pair á Íslandi má ekki vera lengri en 1 ár.
  • Au pair hefur ekki leyfi til að vinna, hvorki launað starf né ólaunað.
  • Ekki er heimilt að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli nema au pair hafi yfirgefið landið.
  • Au pair getur ekki sótt um dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku fyrr en eftir 2 ára dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins.
  • Dvalarleyfið veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar.
  • Dvalarleyfið getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

 

Au pair og verkefni á vistheimili

Dvalarleyfi fyrir au pair er ætlað einstaklingi á aldrinum 18 til 25 ára sem hefur áhuga á að kynnast Íslandi en ætlar sér ekki að setjast að hér á landi. Au pair býr hjá vistfjölskyldu sem umsækjandi hefur ekki fjölskyldutengsl við og sinnir barnagæslu og léttum heimilisstörfum fyrir fjölskylduna í skiptum fyrir vasapeninga.

Verkefni au pair á heimili vistfjölskyldu mega vera barnagæsla, fylgd barna til og frá skóla og í frístundir, og heimilisstörf (þ.e. einföld þrif heimilis, einföld matreiðsla og létt innkaup). Au pair á ekki að sjá um langveik börn eða aðra einstaklinga í svipaðri stöðu.

Vinnutími au pair má að hámarki vera 30 tímar á viku eða 5 tímar á dag. Ekki má semja um lengri vinnutíma og eiga störfin að vera unnin á dagvinnutíma. Au pair á ekki að sinna næturvinnu og telst barnagæsla á nóttunni til næturvinnu.

Au pair á rétt á einum frídegi í viku og minnst einni fríhelgi í mánuði. Eftir 26 vikna vinnu hjá vistfjölskyldu á au pair rétt á vikulöngu fríi og er au pair heimilt að dveljast annarsstaðar en hjá fjölskyldu.

 

Hverjir geta verið vistfjölskylda og hvaða skilyrði þarf að uppfylla? 

Vistfjölskylda þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði

  • Samanstanda af hjónum eða sambúðarmökum með barn eða börn eða einstæðu foreldri með barn eða börn. 
  • Vera íslenskir ríkisborgarar eða að minnsta kosti annað hjóna eða sambúðarmaka hafi ótímabundið dvalarleyfi. Það þýðir að tveir einstaklingar með tímabundin dvalarleyfi geta ekki verið vistfjölskylda. Einstæðir foreldrar án ótímabundins dvalarleyfis geta heldur ekki verið vistfjölskylda. 
  • Má ekki hafa fjölskyldutengsl við au pair, en ef þau eru til staðar verður umsókn synjað.
  • Má aðeins hafa einn einstakling sem au pair í einu.
  • Útvega au pair fæði og læsanlegu sérherbergi með glugga, au pair að kostnaðarlausu.
  • Sýna fram á fullnægjandi framfærslu fyrir au pair.
  • Greiða au pair að lágmarki 15.000 kr. á viku í vasapeninga samkvæmt reglugerð um útlendinga.
Útlendingastofnun má óska eftir upplýsingum um vistfjölskyldu, m.a. um fjárhagsaðstoð og aðra aðstoð frá félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags, og upplýsinga um sakaferil, innan lands og erlendis, ef stofnunin telur ástæðu til. 
 

Samningur um vistráðningu

Umsækjandi og vistfjölskylda þurfa að gera með sér skriflegan samning sem gefinn er út af Útlendingastofnun. 
Samning þarf að leggja fram í þríriti hjá Útlendingastofnun ásamt dvalarleyfisumsókn og öðrum gögnum sem henni fylgja. 
 

Ráðningarslit

Unnt er að segja upp samningi um vistráðningu vegna misferlis samningsaðila eða vegna annarra alvarlegra aðstæðna. Um misferli getur verið að ræða þegar samningsaðilar brjóta í verulegum atriðum gegn ákvæðum samnings um vistráðningu, t.d. misnota starfskrafta hins vistráðna eða hinn vistráðni brýtur af sér í starfi eða sinnir ekki starfsskyldum sínum. Dæmi um alvarlegar aðstæður eru veikindi eða slys þar sem annað hvort hinn vistráðni eða vistfjölskylda er ófær um að efna samningsskuldbindingar sínar.

Samningsaðilum ber að segja samningi um vistráðningu upp skriflega og skal sá sem riftir samningnum tilkynna Útlendingastofnun um þá ráðstöfun á þar til gerðu eyðublaði. Riftun samnings tekur gildi þegar hún hefur verið birt gagnaðila.

Geri hinn vistráðni nýjan samning við aðra vistfjölskyldu skal leggja samninginn, ásamt fylgigögnum, fram hjá Útlendingastofnun.

 

Ferðakostnaður

Vistfjölskylda og au pair skulu semja um greiðslu ferðakostnaðar til og frá Íslandi. Hægt er að semja um að vistfjölskylda borgi allan ferðakostnað eða hluta hans. Vistfjölskyldan á þó að borga að lágmarki helming ferðakostnaðar.

Vistfjölskyldan borgar allan ferðakostnað:

  • Ef fjölskyldan sjálf segir upp samningnum, án vanefnda au pair.
  • Ef au pair getur ekki staðið við samninginn vegna veikinda eða slyss.
  • Ef au pair segir upp samningi vegna vanefnda eða misferils vistfjölskyldu.

Ef au pair fer sjálfur úr vistinni á viðkomandi sjálfur að borga ferðakostnað ef vistaslit verða ekki vegna vanefnda vistfjölskyldu.

Au pair er bent á að leita til Útlendingastofnunar og/eða eftir atvikum lögreglu þurfi viðkomandi á aðstoð að halda. 

Ástæður fyrir synjun

Au pair og vistfjölskylda þurfa að uppfylla öll skilyrði dvalarleyfis. Umsókn sem lögð er fram af umsækjanda yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára verður synjað. Miðað er við 25 ára afmælisdag. 

Skilyrðin fyrir dvalarleyfinu eru almennt ekki matskennd, annað hvort uppfyllir umsækjandi og fjölskylda skilyrðin eða ekki. Ef skilyrðin eru ekki uppfyllt er umsókn synjað. Umsókninni getur líka verið synjað vegna matskenndra ástæðna og metur Útlendingastofnun þau skilyrði í hvert og eitt sinn. Því er ekki hægt að segja til um niðurstöðu afgreiðslu umsóknar fyrirfram.

Matskenndar ástæður eru til dæmis þegar talið er að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið þegar dvalarleyfið rennur út. Í tengslum við þetta mat er kallað eftir upplýsingum um fjölskyldutengsl umsækjanda. Við matið má meðal annars líta til upplýsinga um umsækjanda sjálfan og heimaland hans, og almennrar reynslu af umsækjendum í sömu eða svipaðri stöðu og umsækjandi. Einnig er skoðað hvort umsækjandi hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á öðrum forsendum. 

Þá verður dvalarleyfi synjað ef rökstuddur grunur er um að leyfið sé notað til að fá erlendan ríkisborgara til landsins í þeim tilgangi að misnota starfskrafta hans eða í öðrum ólögmætum tilgangi.

Umsókn um leyfi

Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar.

Með umsókn skulu fylgja öll þau gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt.  

 Gögn sem leggja þarf fram

  1. Greiðslukvittun (ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka). Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið nafn umsækjanda, fæðingardag og fæðingarár í tilvísun.
  2. Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
  3. Frumrit skriflegs samnings milli au pair og vistfjölskyldu. (Athugið að það getur tekið allt að 20 sekúndur að opna skjalið).
  4. Passamynd (35mm x 45mm).
  5. Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
  6. Staðfest frumrit erlends sakavottorðs. Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða. Leggja þarf fram sakavottorð frá öllum þeim löndum þar sem umsækjandi hefur búið síðustu 5 ár. Sakavottorð skal gefið út af æðsta yfirvaldi lands sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð. Athugið að krafist er vottunar sakavottorðs, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
  7. Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á sakavottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
  8. Sjúkrakostnaðartrygging. Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar frá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög). Tryggingin skal gilda í 6 mánuði frá skráningu umsækjanda í þjóðskrá og vera að lágmarki 2.000.000 kr. Skráning í þjóðskrá miðast að öllu jöfnu við þá dagsetningu sem umsækjandi kemur til myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumanni vegna útgáfu dvalarskírteinis, hafi hann dvalið hér á landi samfellt frá því að myndatakan fór fram.
  9. Framfærsla. Vistfjölskylda þarf að sýna fram á fullnægjandi framfærslu á dvalartíma au pair.
 

Gögn sem heimilt er að leggja fram

  • Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.


Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.


Uppfylli umsækjandi öll skilyrði dvalarleyfis verður dvalarleyfið veitt og umsækjanda í framhaldinu send tilkynning um veitinguna. Dvalarleyfið verður þó ekki útgefið fyrr en umsækjandi hefur mætt í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, tilkynnt um dvalarstað til Útlendingastofnunar og gengist undir læknisskoðun. Miðað er við að umsækjandi mæti til myndatöku innan við viku frá komu til landsins, og leggi fram tilkynningu um dvalarstað (t.d. við myndatöku) og gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Útlendingastofnun synjar um útgáfu dvalarleyfis uppfylli umsækjandi ekki ofantalin skilyrði. Það getur leitt til ólögmætrar dvalar og brottvísunar.

 
 
 
  • Hverjir þurfa dvalarleyfi?
  • Ferill umsókna
    • Útgáfustaðir D-áritana
  • Afgreiðslutími og umsóknir í vinnslu
  • Langtímavegabréfsáritun
  • Langtímavegabréfsáritun fyrir fólk í fjarvinnu og aðstandendur þess
  • Fjölskyldusameining
  • - Maki eða sambúðarmaki
  • - Barn
  • - Foreldri 67 ára og eldri
  • - Foreldri barns yngra en 18 ára
  • Atvinnuleyfi
    • Flýtimeðferð
  • Nám
    • Endurnýjun og námsárangur
  • Vistráðning / au-pair
  • Vinnudvöl fyrir ungt fólk
  • Sjálfboðaliðar
  • Trúboðar
  • Lögmætur tilgangur
  • Sérstök tengsl við Ísland
  • Ríkisborgarar EES/EFTA og aðstandendur þeirra
    • EES og EFTA ríkin
  • Ótímabundið dvalarleyfi
  • Réttindi
  • Grunnskilyrði
  • Gagnakröfur
    • FBI sakavottorð
  • Heimild til dvalar
  • Synjun umsóknar um dvalarleyfi
  • Afturköllun dvalarleyfis
  • Algengar spurningar
  • Brottvísun og endurkomubann

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • Rauði krossinn
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

Sími: 444 0900

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hr monitor 2020