Ísland er aðili að Schengen-samstarfinu. Það er samstarf 26 ríkja og miðar að því að tryggja frjálsa för fólks innan Schengen-svæðisins.
Samræmd Schengen-áritun er gefin út af öllum ríkjum Schengen-svæðisins. Þessi áritun gildir um ferðir til allra Schengen-ríkjanna og er því ekki nauðsynlegt að sækja sérstaklega um áritun til Íslands, nema í þeim tilvikum þegar Ísland er aðaláfangastaður.
Allir áritunarskyldir einstaklingar, sem ekki hafa gilda Schengen-áritun í ferðaskilríki sínu, þurfa að sækja um vegabréfsáritun í viðkomandi sendiráði áður en komið er inn á Schengen-svæðið og til landsins. Fimm sendiráð Íslands annast útgáfu Schengen-áritana, það eru sendiráðin í London, Moskvu, Nýju-Delí, Peking og Washington D.C.
Að öðru leyti hefur utanríkisþjónustan falið fyrirsvarið öðrum Schengen-samstarfsríkjum í um 120 borgum víðs vegar um heim. Þau sendiráð sem fara með fyrirsvar fyrir Íslands hönd í áritunarmálum sjá um afgreiðslu umsókna fyrir íslensk stjórnvöld.
Vegabréfsáritun er m.a. gefin út fyrir ferðamenn, fjölskylduheimsóknir, opinber erindi, viðskiptaheimsóknir og námsferðir.