Á undanförnum árum hefur Útlendingastofnun tekist á við mikla fjölgun verkefna samhliða því að þróa og stækka stofnunina. Þar hefur mest munað um fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd og stærra hlutverk stofnunarinnar í þjónustu við umsækjendur sem bíða niðurstöðu. Önnur verkefni sem tilheyra kjarnastarfsemi stofnunarinnar hafa einnig vaxið að umfangi, ekki síst útgáfa dvalarleyfa og vegabréfsáritana til landsins, og ljóst er að fjölgun innflytjenda á Íslandi mun á komandi árum leiða til fjölgunar umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.
Ljóst er að fjöldi útlendinga sem vill heimasækja landið, setjast hér að eða leita skjóls sveiflast og sýnir reynslan að þeim getur bæði fjölgað og fækkað hratt og án fyrirvara. Brýnt er að Útlendingastofnun sé ávallt í stakk búin að bregðast skjótt við skyndilegri fjölgun umsækjenda enda er sú krafa gerð til stofnunarinnar að hún tryggi sanngjarna og skilvirka afgreiðslu umsókna og veiti jafnt einstaklingum og atvinnulífi góða þjónustu. Þetta kallar á sveigjanleika í starfsemi stofnunarinnar án þess að það megi koma niður á starfsumhverfi og samkeppnishæfni stofnunarinnar um vel þjálfað og hæft starfsfólk.
Við mörkun stefnu Útlendingastofnunar til ársins 2023 var mótuð sú framtíðarsýn að stofnunin
afgreiði á skilvirkan og faglegan hátt öll erindi í þágu umsækjenda og samfélagsins. Þannig mun stofnunin veita framúrskarandi þjónustu sem tekur mið af stefnu stjórnvalda og hagsmunum einstaklinga og atvinnulífs. Útlendingastofnun mun vinna gegn hvers kyns misnotkun með öryggi einstaklingsins að leiðarljósi. Stofnunin verður leiðandi í almennri umræðu og þróun tengdri málaflokkum stofnunarinnar.
Með stuðningi dómsmálaráðuneytisins og ráðgjöfum frá KPMG voru haldnir fundir þar sem öllu starfsfólki var boðið að taka þátt og leggja sitt af mörkum til stefnumótunarinnar. Á meðal þess sem kom út úr þeirri vinnu voru gildi stofnunarinnar: Virðing – Jafnræði – Fagmennska
Virðing
Í öllum samskiptum og málsmeðferð stofnunarinnar er einstaklingum og samstarfsaðilum sýnd kurteisi og hlustað á ólík sjónarmið og afstöðu með opnum hug.
Jafnræði
Öllum eru tryggð sömu réttindi og málsmeðferð í samræmi við lög.
Fagmennska
Fagleg og vönduð vinnubrögð sem byggja á upplýstri ákvarðanatöku og skýrum ferlum einkenni alla starfsemi stofnunarinnar. Upplýsingar og ákvarðanir eru settar fram á skýran og skilmerkilegan hátt