Á árinu 2015 sóttu 108 albanskir ríkisborgarar um hæli. Voru þeir fjölmennastir meðal umsækjenda á árinu og töldu rúm 30% allra umsækjenda. Næstfjölmennastir voru Sýrlendingar en 29 manns frá Sýrlandi sóttu um hæli á árinu, rúm 8% allra umsækjenda. Öllum hælisumsóknum albanskra ríkisborgara var synjað árið 2015. Það sem af er árinu 2016 hafa 36 manns sótt um hæli en þar á meðal eru fjórtán Albanir og átta Sýrlendingar.
Sjá einnig Metfjöldi umsókna um vernd árið 2015
Allar ákvarðanir Útlendingastofnunar um hælisumsóknir er unnt að kæra til kærunefndar útlendingamála. Nefndin hefur staðfest synjanir Útlendingastofnunar í öllum málum er varða albanska ríkisborgara, sem hún hefur tekið afstöðu í. Unnt er að fara með mál er varða hælisumsóknir fyrir dómstóla eftir hefðbundnum leiðum.
Í aðildarríkjum Evrópusambandsins var umsóknum Albana um hæli eða vernd synjað í 98% tilfella á árinu 2015. [1]
Vegna hins mikla fjölda umsókna albanskra ríkisborgara hér á landi og ýtarlegrar fjölmiðlaumfjöllunar um mál þeirra birtir Útlendingastofnun þessa samantekt.
Aðstæður í Albaníu
Flóttamanna- og hæliskerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd, því að teljast flóttafólk og eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum, þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans.
Fyrirliggjandi upplýsingar og mannréttindaskýrslur eru samhljóða um að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn. Mannréttindi eru almennt virt og albönsk yfirvöld eru fær um að vernda borgara sína og veita þeim aðstoð. [2]
Af þessum sökum er afar fátítt að albönskum ríkisborgurum sé veitt hæli í Evrópu. Hér á landi hefur stór hluti umsókna albanskra ríkisborgara verið talinn bersýnilega tilhæfulaus, vegna aðstæðna í viðkomandi máli og að virtum almennum aðstæðum í Albaníu. Þá er ríkið á lista yfir þau ríki sem almennt eru talin örugg. Hvert mál er skoðað sérstaklega og metið á grundvelli atvika þess og séu þær aðstæður uppi að albanskur ríkisborgari sé í hættu í heimalandi sínu og eigi ekki möguleika á vernd þar er honum eða henni veitt alþjóðleg vernd hér á landi eins og lög og alþjóðasáttmálar mæla fyrir um.
Sjá einnig Flóttamannahugtakið og aðstæður í Albaníu og Listi yfir örugg ríki
Almennar sjúkratryggingar, ríkisrekið heilbrigðiskerfi og ókeypis þjónusta fyrir börn
Samkvæmt lögum er heimilt að veita fólki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna og ef ekki er unnt að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi. Sé slíkum aðstæðum borið við í málum fyrir Útlendingastofnun eru þau atvik rannsökuð og afstaða tekin til þeirra.
Almennar sjúkratryggingar eru lögbundnar í Albaníu og veita aðgang að allri grundvallarheilbrigðisþjónustu en heilbrigðisþjónusta við börn er foreldrum að kostnaðarlausu. Heilbrigðisþjónusta er að mestu í höndum hins opinbera og lyf eru niðurgreidd af albanska ríkinu. Í landinu er starfrækt sérstök stofnun sem aðstoðar albönsk börn við að tryggja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. [3]
Í ljósi þessa og atvika í hverju máli hefur fólki frá Albaníu sem ber fyrir sig heilbrigðisástæður ekki verið veitt mannúðarleyfi hér á landi á grundvelli heilbrigðisástæðna. Allt bendir til þess að fullnægjandi heilbrigðisþjónusta sé sannarlega í boði í Albaníu og atvik einstakra mála benda ekki til þess að þeim sem hlut eiga að máli sé neitað um þjónustu af ástæðum sem varða þá persónulega.
Séu þær aðstæður uppi að sennilegt sé að albönskum ríkisborgara yrði neitað um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu yrði viðkomandi veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við íslensk lög.
Sjá einnig Heilbrigðiskerfið í Albaníu
Umsóknum Albana um vernd synjað í 98% tilfella í Evrópu
Í Evrópu lauk 98% allra hælisumsókna albanskra ríkisborgara árið 2015 þannig að synjað var um hæli og aðra vernd, þar með talið dvalarleyfi sambærileg við dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt íslenskum lögum. [4]
Í Finnlandi og Noregi var öllum umsóknum albanskra ríkisborgara um hæli eða aðra alþjóðlega vernd synjað árið 2015, rétt eins og hér á landi. Í Noregi sæta mál albanskra ríkisborgara sérstakri tveggja sólarhringa flýtimeðferð. Í Svíþjóð er 99% umsókna albanskra ríkisborgara um alþjóðlega vernd synjað. Samkvæmt upplýsingum Eurostat var öllum hælisumsóknum fólks frá Albaníu synjað í Danmörku á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2015. [5]
Í Þýskalandi, því ríki sem nú tekur við flestum hælisumsóknum í Evrópu, var 99,8% allra umsókna fólks frá Albaníu um alþjóðlega vernd hafnað. Albanía er ennfremur á sérstökum lista þýskra yfirvalda yfir örugg ríki. [6]
Rannsókn Útlendingastofnunar í hælismálum
Þegar Útlendingastofnun og önnur íslensk yfirvöld meta umsóknir um hæli er ávallt haft að leiðarljósi að engum skuli snúið aftur til síns heima, eða annars ríkis þar sem hann hefur heimild til dvalar, sé ástæða til að ætla að þar verði umsækjandi í hættu eða að grundvallarmannréttindi viðkomandi verði ekki virt. Hvert mál er rannsakað sérstaklega og leyst er úr umsóknum á grundvelli atvika í hverju máli.
Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna er ávallt höfð að leiðarljósi við úrlausn mála en henni er ætlað að vera til hagnýtrar leiðbeiningar um flóttamannarétt. Þar er fjallað um málsmeðferð við ákvörðun um réttarstöðu flóttamanna og er henni ætlað að leiðbeina stjórnvöldum sem fjalla um ákvarðanir um réttarstöðu flóttamanna.
Við úrlausn mála er lúta að umsóknum einstaklinga um alþjólega vernd er litið til skýrslna og annarra upplýsinga um aðstæður í heimalandi viðkomandi sem teknar eru saman af alþjóðasamtökum og stofnunum ríkja. Sem dæmi um slíkar skýrslur eru skýrslur bandarísku og bresku utanríkisráðuneytanna um stöðu mannréttindamála í viðkomandi ríki og skýrslur kanadíska landamæraeftirlitsins og norskra stjórnvalda svo eitthvað sé nefnt. Þá liggja einnig fyrir skýrslur alþjóða- og mannréttindastofnana, t.a.m. skýrslur og leiðbeinandi sjónarmið Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, skýrslur Amnesty International, the World Bank o.fl. Liggi fyrir svokallaðar „eligibility guidelines“ frá Flóttamannastofnun um viðkomandi ríki vega þær alla jafna þyngst við úrlausn mála.
Þessar skýrslur og upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðum viðkomandi stofnana eða samtaka en einnig er hægt að nálgast viðamiklar upplýsingar í sérstökum gagnabanka Flóttamannastofnunar, www.refworld.org.
Fyrrnefndar skýrslur og upplýsingar fengnar úr þeim fjalla þó yfirleitt almennt um aðstæður í heimalandi viðkomandi en við úrlausn mála er lúta að umsókn um alþjóðlega vernd er mikilvægt að kanna sérstaklega aðstæður er varða umsækjanda sjálfan. Viðtal við umsækjanda er mikilvægasta gagnið í þessu samhengi en allir umsækjendur um alþjóðlega vernd koma til viðtals hjá Útlendingastofnun og fá þar tækifæri til að segja frá aðstæðum sínum. Umsækjanda er einnig boðið að leggja fram gögn er varða persónulegar aðstæður sínar sem hann ber við og rennt geta stoðum undir frásögn hans.
Ekki er gerð krafa um að fólk færi sönnur á frásögn sína eða persónulega hagi en aðstæður fólks sem sækir um hæli eru oft með þeim hætti að ekki er auðvelt að sanna með óyggjandi hætti atvik mála. Allt að einu verður að meta trúverðugleika hverrar frásagnar og við það mat byggir Útlendingastofnun á skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, frá árinu 2013 og aðferðafræði varðandi trúverðugleikamat sem í henni er að finna. Við úrlausn málsins er aðeins byggt á þeim atriðum sem metin eru trúverðug. Að meginreglu eru frásagnir hælisleitenda taldar trúverðugar og í grófum dráttum lagðar til grundvallar við úrlausn mála.
Heilbrigðisþjónusta könnuð sérstaklega
Þegar heilbrigðisaðstæður í heimalandi umsækjanda um hæli eru kannaðar er, með sama hætti og áður er reifað, litið til skýrslna um aðstæður í heimalandi viðkomandi en þá þeirra skýrslna er fjalla sérstaklega um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfið í viðkomandi ríki.
Slíkar skýrslur og upplýsingar eru sem fyrr segir aðgengilegar á vefsíðum viðkomandi stofnana eða samtaka og í sumum tilfellum í gagnabanka Flóttamannastofnunar. Hvað varðar aðgengi að slíkum upplýsingum um Albaníu má nefna heimasíður World Health Organization (WHO), Child Health International, UN Children´s Fund (UNICEF) og skýrslur bandarísku og bresku utanríkisráðuneytanna ásamt skýrslum the World Bank um heilbrigðiskerfið þar í landi.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar er unnt að kæra
Eins og hefur verið nefnt eru úrlausnir Útlendingastofnunar í hælismálum kæranlegar til sérstakrar nefndar, kærunefndar útlendingamála. Kærunefndin hefur úrskurðarvald yfir Útlendingastofnun og getur endurskoðað niðurstöður hennar. Vilji hælisleitendur ekki una ákvörðun Útlendingastofnunar geta þeir því ávallt leitað endurskoðunar nefndarinnar.
Í þeim tilfellum sem hælisleitendur sætta sig ekki við niðurstöðu kærunefndarinnar er unnt að beina málum til dómstóla eftir hefðbundnum leiðum. Að venjulegum skilyrðum uppfylltum er svo mögulegt að fara með niðurstöður íslenskra dómstóla fyrir mannréttindadómstól Evrópu en á ári hverju tekur dómstóllinn fyrir nokkurn fjölda mála er varða hælisumsóknir og mannréttindi hælisleitenda í ríkjum Evrópu.
Með þessu fyrirkomulagi tryggja íslensk yfirvöld vandaða og réttláta málsmeðferð í málum er varða umsóknir fólks um hæli og aðra alþjóðlega vernd.
[1] Eurostat First instance decisions on applications by citizenship, age and sex Quarterly data. [2] Sjá til dæmis United Kingdom Home Office Country Information and Guidance - Albania: Background information, including actors of protection, and internal relocation og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Albaníu Albania 2015 Human Rights Report. [3] UN Children´s Fund (UNICEF) Child Notice Albania, bls. 46. United Kingdom Home Office Country of Origin Information Report – Albania, bls. 99-100. [4] Tölurnar miða við fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2015, árið í heild hefur ekki verið gert upp. [5] Sjá vefsíður útlendingayfirvalda viðkomandi ríkja: Finnland, Finnish Immigration Service; Noregur, Norwegian Directorate of Immigration og Svíþjóð, Swedish Migration Board. Það athugist að tölur um stöðuna í Finnlandi ná ekki til desember 2015. Upplýsingar varðandi Danmörku eru unnar upp úr gögnum frá Eurostat First instance decisions on applications by citizenship, age and sex Quarterly data.[6] Sjá vefsíðu þýskra útlendingayfirvalda, Federal Office for Migration and Refugees.