• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
    • Hafa samband
    • COVID-19
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Algengar spurningar
  • Lög og reglugerðir
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Um Útlendingastofnun
  3. Fréttir

Um málsmeðferð umsókna barna

Details
17 Feb. 2020

Útlendingastofnun vill koma því á framfæri að við málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd eru tekin viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra.

Fram kom í fjölmiðlum um helgina að til stæði að fylgja íranskri fjölskyldu, sem hefur dvalið á Íslandi frá því í mars á liðnu ári, til Portúgal en framkvæmdinni var frestað af heilbrigðisástæðum.

Fjölskyldan kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd eftir stutta dvöl í Portúgal. Portúgölsk yfirvöld höfðu veitt fjölskyldunni vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið og var umsókn hennar um vernd því afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar með ákvörðun um að þeim skyldi fylgt aftur til Portúgal. Þar í landi stendur fjölskyldunni til boða nauðsynleg þjónusta og málsmeðferðarúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Viðtöl við börn

Við málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd tekur starfsfólk Útlendingastofnunar viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra. Starfsfólk stofnunarinnar, sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun, hefur tekið viðtöl við börn allt niður í fimm ára aldur. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira. Tillit er tekið til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Foreldrar geta afþakkað boð stofnunarinnar um að viðtal sé tekið við barn og er framburður foreldranna um aðstæður barnsins lagður til grundvallar ákvörðunum stofnunarinnar í slíkum tilvikum.

Þessu verklagi var fylgt við afgreiðslu umsóknar fjölskyldunnar frá Íran.


Bakgrunnur – Dyflinnarsamstarfið

Sem þátttakandi í Schengen-samstarfinu hefur Ísland innleitt svokallaða Dyflinnarreglugerð en í henni eru sett fram viðmið sem ákvarða hvaða ríki samstarfsins ber ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Eitt þessara viðmiða kveður á um að það ríki sem veitir einstaklingi áritun inn á Schengen-svæðið skuli bera ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd ef viðkomandi nýtir áritunina til að sækja um vernd í einhverju ríki samstarfsins.

Rétt er að taka fram að þegar umsókn um alþjóðlega vernd er afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd heldur er ákveðið að viðkomandi skuli fylgt til þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar. Það er hlutverk ríkisins sem ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar að skera úr um það hvort viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd.

Endursendingar fólks með alþjóðlega vernd í Grikklandi

Details
04 Feb. 2020

Í tilefni umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands hefur Útlendingastofnun tekið saman svör við eftirfarandi spurningum.

Eru allir sem koma til Íslands frá Grikklandi og sækja um vernd sendir aftur til baka?

Hvaða réttindi veitir gríska ríkið einstaklingum með alþjóðlega vernd?

Eru allir sem sækja um vernd á Íslandi eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi sendir aftur til baka?

Hvernig er í framkvæmd metið hvort einstaklingur sem er með alþjóðlega vernd í Grikklandi fái efnislega meðferð á Íslandi eða verði sendur aftur til Grikklands?

Hvernig eru hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi í málum sem varða börn?

Getur einstaklingur með alþjóðlega vernd í Grikklandi fengið dvalarleyfi á Íslandi?

Getur starfsfólk Útlendingastofnunar lagt mat á aðstæður í Grikklandi án þess að hafa farið þangað sjálft?


Eru allir sem koma til Íslands frá Grikklandi og sækja um vernd sendir aftur til baka?

Endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands frá Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar var hætt árið 2010 þar sem aðbúnaður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Grikklandi var talinn ófullnægjandi. Útlendingastofnun hefur á undanförnum árum fylgst náið með aðstæðum í Grikklandi og enn sem komið er hefur ekki verið talin ástæða til að endurskoða framangreinda afstöðu. Sjá nánar í eftirfarandi grein: Enginn sendur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins.

Dyflinnarsamstarfið nær ekki til málsmeðferðar umsókna um vernd frá einstaklingum sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Endursendingum þeirra sem hingað koma og sækja um vernd eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi hefur ekki verið hætt en þær eiga sér aðeins stað að undangengnu einstaklingsbundnu mati á aðstæðum umsækjanda.

Hvaða réttindi veitir gríska ríkið einstaklingum með alþjóðlega vernd?

Einstaklingar sem hafa fengið vernd í Grikklandi njóta eftirfarandi lagalegra réttinda þar í landi:

  • Þeir eiga sama rétt til heilbrigðisþjónustu og félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og mega vinna án sérstaks atvinnuleyfis.
  • Börn eiga rétt á því að ganga í skóla en skólaskylda er í landinu eins og á Íslandi.
  • Þeir geta fengið útgefin ferðaskilríki fyrir flóttamenn og mega ferðast með þeim, m.a. til Íslands þar sem þeir mega dvelja í allt að 90 daga.
  • Einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi fá útgefið dvalarleyfi til þriggja ára og eiga rétt á fjölskyldusameiningu við fjölskyldu sína í heimalandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt grískum lögum eru þeir fjölskyldumeðlimir sem þar eiga undir m.a. makar og börn flóttamanna.
  • Þeir sem eru handhafar viðbótarverndar fá útgefið dvalarleyfi til eins árs í senn og geta ekki sótt um fjölskyldusameiningu.
  • Einstaklingar með alþjóðlega vernd geta sótt um grískan ríkisborgararétt eftir þriggja ára löglega dvöl í landinu og þeir sem njóta viðbótarverndar eftir sjö ára löglega dvöl. 

Veikir efnahagslegir innviðir Grikklands gera það að verkum að einstaklingum getur reynst erfitt að koma undir sig fótum og fá notið réttinda sinna og hafa grísk stjórnvöld verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd þar í landi.

Í framkvæmd hafa Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, sem og önnur Evrópuríki, þó ekki talið að aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi, að svo stöddu, séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu eða að þær samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins.

Eru allir sem sækja um vernd á Íslandi eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi sendir aftur til baka?

Flóttamannakerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi, og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Áður en ákvörðun um endursendingu er tekin fer hins vegar ávallt fram ítarlegt og heildstætt mat á aðstæðum viðkomandi og aðstæðum og ástandi í móttökuríki.

Samkvæmt útlendingalögum er íslenskum stjórnvöldum skylt að taka mál þeirra einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki til efnismeðferðar hér á landi þegar sérstakar ástæður eru til staðar, umsækjandi hefur tengsl við landið eða tilteknir tímafrestir eru liðnir.

Með sérstökum ástæðum er m.a. vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu, s.s. vegna heilsufars, eða átt erfitt uppdráttar í viðtökulandi vegna mismununar sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns. Efnahagslegar ástæður einar og sér duga ekki til að mál einstaklinga með vernd í Grikklandi séu tekin yfir á Ísland. Heimilt er að líta til tengsla umsækjanda við landið vegna fjölskyldutengsla eða fyrri dvalar, hafi umsækjandi áður verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur.

Í öllum málum þar sem verið er að flytja á brott útlending, líka þá sem hefur verið veitt vernd í öðru ríki, er skoðað hvort flutningurinn yrði í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð (non-refoulement).

Hvernig er í framkvæmd metið hvort einstaklingur sem er með alþjóðlega vernd í Grikklandi fái efnislega meðferð á Íslandi eða verði sendur aftur til Grikklands?

Viðtal við umsækjanda er mikilvægasta gagnið við mat Útlendingastofnunar á umsókn um vernd. Allir umsækjendur um vernd, líka þeir sem þegar hafa fengið vernd í öðru ríki, koma til viðtals hjá stofnuninni ásamt löglærðum talsmanni og fá þar tækifæri til að segja frá aðstæðum sínum með aðstoð túlks. Umsækjanda er einnig boðið að leggja fram gögn er varða persónulegar aðstæður sínar sem hann ber við og rennt geta stoðum undir frásögn hans.

Á meðal þess sem einstaklingur sem þegar hefur fengið vernd í Grikklandi er spurður út í eru aðstæður hans í Grikklandi, lengd dvalar, heilsufar, hvort viðkomandi hafi haft húsnæði og verið í vinnu, hvort hann/hún hafi haft aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð og þegar um börn er að ræða hvort þau hafi gengið í skóla. Þá er einstaklingur spurður hvort hann hafi upplifað mismunum af einhverju tagi í Grikklandi. Börnum í fylgd með fullorðnum er boðið til viðtals hjá Útlendingastofnun, þar sem þau fá tækifæri á að tjá sig, í samræmi við aldur og þroska.

Auk viðtalsins er litið til skýrslna og annarra upplýsinga um aðstæður í því landi þar sem viðkomandi nýtur verndar, sem teknar eru saman af alþjóðasamtökum og stofnunum ríkja. Þá er Útlendingastofnun einnig í samskiptum við grísku útlendingastofnunina til þess að fá upplýsingar um stöðu einstaklingsins í landinu. Sem dæmi um slíkar skýrslur eru:

  • Amnesty International: Greece. Amnesty International Report 2017/18. The State of World‘s Human Rights.
  • Council of Europe. European Commission against Racism and Intolerance: ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle). 
  • Council of Europe: 9th annual report of the Committee of Ministers.
  • European Council on Refugee and Exiles: Asylum Information Database: Country Report: Greece 2018.
  • Freedom House: Greece. Freedom in the World 2018.
  • Global Legal Monitor: Greece. New Law Criminalizes Denial of Genocide, Hate Speech, and other Acts of Racism.
  • Human Rights Watch: World Report 2018 – European Union.
  • Minority Rights Group International: State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples. Europe, 2016.
  • Racist Violence Recording Network: Annual Report 2018.
  • Solidarity Now: Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece. 
  • Stjórnarskrá Grikklands. Ensk útgáfa.
  • The Greek Ombudsman: Migration Flows and Refugee Protection. Administrative Challenges and Human Rights Issues. 
  • UN High Commissioner for Refugees (UNHCR): „Greece as a Country of Asylum“ – UNHCR‘s Recommendations. 
  • UN Human Rights Council: Report of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece.
  • UN Human Rights Office of the High Commissioner: Greek contributions on human rights impact assessments for economic reform policies.
  • United States Department of State: Greece. Country Reports on Human Rights Practices for 2018. 
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal).

Á grundvelli viðtals við umsækjanda, framlagðra gagna, fyrirliggjandi skýrslna og eftir atvikum samskipta við stjórnvöld í Grikklandi er lagt heildstætt mat á það hvort umsókn skuli fá efnislega málsmeðferð á Íslandi.

Hvernig eru hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi í málum sem varða börn?

Umsóknir barna um alþjóðlega vernd eru metnar á grundvelli barnvænna sjónarmiða sem miða að því að meta ástæður flótta eins og þær horfa við barninu, sbr. leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2009. Auk þess skal við vinnslu umsókna barna hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Útlendingastofnun býður öllum börnum sem hafa til þess aldur og þroska viðtal vegna umsóknar um vernd. Starfsfólk stofnunarinnar, sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun, hefur tekið viðtöl við börn allt niður í fimm ára aldur. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira. Tekið er tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra eða annars fjölskyldumeðlims sem hefur það á framfæri sínu er það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman. Við það mat er meðal annars litið til þess hvort flutningur úr landi hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er einnig hugað að öryggi barnsins, velferð þess og félagslegum þroska þegar tekin er ákvörðun um endursendingu.

Sé barn fylgdarlaust er tekið ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í. Útlendingastofnun er heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, samrýmist það hagsmunum þess og afstöðu. Hagsmuni fylgdarlauss barns ber m.a. að meta með hliðsjón af möguleikum barns til fjölskyldusameiningar. Ekkert fylgdarlaust barn hefur verið flutt til Grikklands frá Íslandi.

Við mat á sérstökum ástæðum er heimilt að horfa til ungs aldurs umsækjanda sem náð hefur 18 ára aldri en var sannanlega fylgdarlaust barn við komuna til landsins.

Af ofansögðu má sjá að það sem er barni fyrir bestu vegur þungt við mat á því hvort umsókn barns sem er með alþjóðlega vernd í öðru ríki skuli fá efnislega málsmeðferð hér á landi. Bestu hagsmunir barns eru þó ekki einu sjónarmiðin sem taka ber tillit til við úrlausn mála. Ríkjandi dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hvað varðar bestu hagsmuni barns er sú að víðtæk samstaða sé í alþjóðalögum hvað varðar það að hagsmunir barna eigi að vera í fyrirrúmi í málum sem þau snerta.

Getur einstaklingur með alþjóðlega vernd í Grikklandi fengið dvalarleyfi á Íslandi?

Einstaklingur sem fengið hefur vernd í Grikklandi eða öðru Evrópuríki getur fengið útgefið dvalarleyfi á Íslandi að uppfylltum sömu skilyrðum og aðrir útlendingar frá ríki utan EES/EFTA-ríkjanna. Dvalarleyfi eru ávallt gefin út í ákveðnum tilgangi, til dæmis á grundvelli atvinnuþátttöku, náms eða vegna fjölskyldutengsla.

Útlendingur sem hlotið hefur alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í öðru ríki Schengen-samstarfsins getur fengið útgefið ferðaskilríki flóttamanns sem gerir honum kleift að ferðast og dvelja frjáls innan svæðisins í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili.

Getur starfsfólk Útlendingastofnunar lagt mat á aðstæður í Grikklandi án þess að hafa farið þangað sjálft?

Starfsfólk Útlendingastofnunar metur aðstæður í Grikklandi á grundvelli skýrslna sem byggðar eru á heimsóknum og úttektum alþjóðlegra stofnana, félagasamtaka og útlendingastofnana í löndum sem við berum okkur saman við á aðstæðum í Grikklandi. Þær eru skrifaðar af hlutlausum aðilum í þeim tilgangi að varpa ljósi á raunverulegar aðstæður flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Lögð er áhersla á að afla heimilda frá fleiri en einum stað svo tryggja megi betur hlutleysi heimildanna og ganga úr skugga um að þær upplýsingar sem stuðst er við séu almennt viðurkenndar.

Allir umsækjendur um vernd á Íslandi njóta jafnframt aðstoðar löglærðs talsmanns sem gætir hagsmuna viðkomandi og getur komið á framfæri gögnum og upplýsingum sem stofnuninni ber að taka afstöðu til við úrlausn máls.

Brexit: Aðlögunartímabil frá 1. febrúar til 31. desember 2020

Details
31 Jan. 2020

Bretland gengur úr Evrópusambandinu 31. janúar og þar með einnig úr Evrópska efnahagssvæðinu. Hinn 1. febrúar tekur við svokallað aðlögunartímabil sem lýkur 31. desember 2020.

Meðan á aðlögunartímabilinu stendur gilda sömu reglur og áður um flutninga fólks milli Íslands og Bretlands. Breskir ríkisborgarar sem hingað flytja á tímabilinu þurfa því að fá rétt sinn til dvalar skráðan hjá Þjóðskrá Íslands.

Margir umsækjendur með þörf fyrir vernd

Details
22 Jan. 2020

Góður árangur náðist við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun á árinu 2019. Afgreiddum umsóknum fjölgaði um 42% miðað við árið á undan, óafgreiddum umsóknum fækkaði um 37% frá ársbyrjun auk þess sem málsmeðferðartími styttist verulega eftir því sem leið á árið. 

Umsóknir um alþjóðlega vernd voru 867 og fjölgaði lítillega milli ára en flestir umsækjendur komu frá Venesúela og Írak. Hlutfallslega voru umsóknir um vernd flestar á Íslandi af Norðurlöndunum. 

Fjöldi einstaklinga sem Útlendingastofnun veitti vernd hefur aldrei verið meiri á einu ári sem skýrist af því hve stór hluti umsækjenda hafði þörf fyrir vernd og hve mörg mál tókst að afgreiða. Til viðbótar við þá 376 einstaklinga, sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun, fengu samtals 155 einstaklingar veitta alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, sem aðstandendur flóttamanna hér á landi eftir umsókn til Útlendingastofnunar eða sem kvótaflóttamenn í boði íslenskra stjórnvalda. Í heild fékk því 531 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2019.

Lesa meira...

Breyting á gjaldskrá

Details
07 Jan. 2020

Um áramótin tóku gildi breytingar á gjaldskrá Útlendingastofnunar í samræmi við breytingar á lögum um aukatekjur ríkisins.

Eina gjaldið sem var hækkað er afgreiðslugjald fyrir vegabréfsáritanir.

Uppfærða gjaldskrá er að finna hér.

Fleiri greinar...

  1. Upplýsingar fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt til Alþingis
  2. Bætt þjónusta við móttöku umsókna
  3. Opnunartími yfir jól og áramót
  4. Tímabundin takmörkun á útgáfu dvalarleyfiskorta
Síða 10 af 41
  • Fyrsta
  • Fyrri
  • 5
  • 6
  • 7
  • 8
  • 9
  • 10
  • 11
  • 12
  • 13
  • 14
  • Næsta
  • Síðasta
  • Útlendingastofnun
  • Fréttir
  • Greinar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  • Ársskýrslur
  • Stefnur Útlendingastofnunar
    • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
    • Launastefna
    • Jafnlaunastefna
  • Skipurit
  • Gjaldskrá
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Samstarfssamningar
  • Lög og reglugerðir
  • Algengar spurningar
  • Hafa samband
  • COVID-19

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • Rauði krossinn
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

Sími: 444 0900

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hr monitor 2020