Fréttatilkynning
Útlendingastofnun hefur á undanförnum vikum unnið að uppsetningu nýrrar vefsíðu ásamt nýju og endurbættu efni. Með góðum stuðningi innanríkisráðuneytisins var gengið til verks um mitt sumar. Á skömmum tíma hafa starfsmenn Útlendingastofnunar endurbætt og uppfært efni, uppsetningu og útlit síðunnar á þann hátt sem hér má sjá. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að auka aðgengi að upplýsingum og leiðbeiningum vegna umsókna sem lagðar eru fram hjá stofnuninni og um þá málaflokka sem undir stofnunina heyra. Jafnframt er stefnt að því að leiðbeiningar sem hér birtast geri viðskiptavinum auðveldara um vik að leggja fram öll rétt fylgigögn með umsóknum strax í upphafi og stytta þannig málsmeðferðartíma þeim í hag. Útlendingastofnun beinir því góðfúslega til sinna viðskiptavina að gefa sér tíma til að fara vandlega yfir leiðbeiningar á vefsíðunni sem varða mál þeirra.
Vefsíðunni er skipt í fjögur meginvefsvæði þar sem nálgast má leiðbeiningar um hinar ýmsu tegundir dvalarleyfa, vegabréfsáritanir vegna heimsókna til Íslands, íslenskan ríkisborgararétt auk upplýsinga um rétt til hælis eða annarrar alþjóðlegrar verndar. Reynt hefur verið að hafa upplýsingar sem aðgengilegastar og leiðbeiningar eins skýrar og unnt er. Vefsíðan er þó enn í vinnslu og ábendingar - hvort sem er varðandi efni, aðgengi eða annað - má senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Verið er að ljúka gerð ársskýrslna fyrir árin 2011 til 2013 og verða þær birtar þriðjudaginn 20. október næst komandi. Vinna við ársskýrslur hefur á undanförnum árum því miður setið á hakanum vegna mikils álags á stofnuninni. Er það von Útlendingastofnunar að gerð ársskýrslna verði framvegis í fastari skorðum og að birting þeirra verði gagnlegt innlegg í umræðu um málefni innflytjenda á Íslandi.
F.h. Útlendingastofnunar,
Kristín Völundardóttir, forstjóri