Umsækjendur um makaleyfi geta sótt um kerfiskennitölu
Makar Íslendinga og annarra EES/EFTA-borgara mega vinna á Íslandi á meðan umsókn þeirra um dvalarleyfi er í vinnslu. Í ljósi þess að afgreiðsla umsókna um dvalarleyfi getur tekið nokkra mánuði og að einstaklingar fá ekki kennitölu fyrr en við útgáfu dvalarleyfis hafa þessi réttindi þó ekki nýst sem skyldi, enda er kennitala nauðsynleg til að einstaklingur geti stofnað hér bankareikning fyrir laun sín og forsenda þess að launagreiðandi geti staðið skil á staðgreiðslu af launum.
Til lausnar á þessum vanda hefur verið ákveðið að makar Íslendinga og annarra EES/EFTA-borgara geti fengið útgefna kerfiskennitölu á meðan dvalarleyfisumsókn er í vinnslu.
Skilyrði þess eru að viðkomandi hafi:
- lagt inn og greitt fyrir umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hjá Útlendingastofnun og
- sé kominn með launað starf.
Hvernig sækirðu um kerfiskennitölu?
Makar Íslendinga og annarra EES/EFTA-borgara geta sótt um kerfiskennitölu til Skattsins með því að:
- Fylla út Umsókn erlends ríkisborgara um kerfiskennitölu
- Umsóknin þarf að vera undirrituð bæði af umsækjanda og launagreiðanda
- Umsækjandi þarf að koma með umsóknina ásamt vegabréfi/ferðaskilríki í afgreiðslu Skattsins.
Við vonum að þetta nýja fyrirkomulag verði til hagræðis fyrir maka sem bíða eftir afgreiðslu dvalaleyfis en hafa rétt til að stunda hér atvinnu.
Telji einstaklingur sig hafa einhverja aðra hagsmuni af því að fá útgefna kerfiskennitölu er viðkomandi bent á að hafa samband við Þjóðskrá.