• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
      • Tungumálastefna
      • Persónuverndarstefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
      • Dvalarleyfi
      • Alþjóðleg vernd
      • Vegabréfsáritanir
      • Íslenskur ríkisborgararéttur
      • Túlkanir og þýðingar
    • Hafa samband
    • COVID-19
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Hafa samband
  • Algengar spurningar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Um Útlendingastofnun
  3. Fréttir

Tímabókun utan auglýsts opnunartíma

Details
05 Okt. 2020

Undanfarna mánuði hefur Útlendingastofnun boðið upp á tímabókanir í afgreiðslu fyrir myndatökur og brýn erindi, sem ekki er hægt að leysa með símtali eða í gegnum tölvupóst. Tilgangurinn með tímabókunum er fyrst og fremst að stytta biðtíma viðskiptavina hjá stofnuninni og veita þeim markvissari þjónustu.

Samhliða innleiðingu tímabókana hefur stofnunin verið að prófa sig áfram með að bjóða einstaklingum að mæta utan auglýsts opnunartíma, ef nauðsyn krefur, og hefur það gefist vel.

Komist þú einhverra hluta vegna ekki á auglýstum opnunartíma er hægt að hafa samband í tölvupósti (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) og við reynum að finna tíma sem hentar. Vinsamlegast settu í skýringu/efni „Tímabókun utan auglýsts opnunartíma“.

Íslenskupróf haustið 2020

Details
23 Sept. 2020

Íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt verða næst haldin:

  • á Akureyri, miðvikudaginn 18. nóvember kl. 13.00
  • í Reykjavík, vikuna 23. - 27. nóvember kl. 9.00 og kl. 13.00

Skráning hefst 22. september og fer fram með rafrænum hætti á mimir.is. Síðasti skráningardagur er 3. nóvember.

Prófgjald er 35.000 kr.

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um mál egypskrar fjölskyldu

Details
22 Sept. 2020

Í tilefni umfjöllunar fjölmiðla um umsóknir egypskra fjölskyldna um alþjóðlega vernd vill Útlendingastofnun benda á að ástæður þess að einstaklingar telja sig þurfa á vernd að halda eru ólíkar milli einstaklinga jafnvel þótt þeir komi frá sama landi. Ríkisborgarar sama lands geta tilheyrt ólíkum þjóðfélagshópum, verið ólíkrar trúar, haft ólíkar stjórnmálaskoðanir, búið við ólíkar félagslegar aðstæður og þar af leiðandi hafa atburðir og almennt ástand ekki sömu áhrif á alla einstaklinga sama ríkis. Ávallt fer fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum hvers og eins.

Við afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd eru þær ástæður sem umsækjandi gefur fyrir því að þurfa á vernd að halda lagðar til grundvallar rannsókn máls. Þegar um er að ræða fjölskyldur getur verið að bornar séu fram ólíkar ástæður fyrir því að einstaklingar innan hennar þurfi á vernd að halda og eru þær þá allar teknar til skoðunar. Í öðrum tilvikum er aðeins borin fram ástæða fyrir því að einn einstaklingur í fjölskyldunni eigi á hættu ofsóknir eða illa meðferð og er þá óskað eftir því að aðrir í fjölskyldunni fái vernd á grundvelli fjölskyldutengsla.

Einn mikilvægasti þáttur málsmeðferðarinnar eru viðtöl við umsækjendur þar sem þeir eru spurðir með aðstoð túlks um ástæður þess að hafa flúið heimaland sitt. Umsækjendum er jafnframt leiðbeint um það í viðtölum að koma á framfæri þeim atriðum sem þeir telja að skipti máli en ekki hafi verið spurt um.

Við málsmeðferð umsókna barna tekur starfsfólk Útlendingastofnunar, sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun, viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira. Tillit er tekið til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Foreldrar eru einnig spurðir út í aðstæður barna sinna og komi eitthvað fram í viðtölum sem varðað getur sjálfstæða málsástæðu barns er slíkt ávallt skoðað enda getur fjölskyldan sem heild átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna atvika sem varða eingöngu börn.

Öllum umsækjendum um vernd er jafnframt skipaður löglærður talsmaður sem gætir hagsmuna þeirra við meðferð máls gagnvart stjórnvöldum. Talsmaður er viðstaddur viðtöl við umsækjendur og getur borið fram sínar eigin spurningar til að draga fram upplýsingar sem ekki hafa komið fram áður auk þess sem hann getur lagt fram greinargerð í máli áður en stjórnvöld taka ákvörðun. Talsmanni er einnig heimilt að leggja fram greinargerð og gögn í málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála.

Í máli egypsku fjölskyldunnar sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu var um að ræða beiðni um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna á hendur fjölskylduföðurnum, eins og ítrekað hefur komið fram í máli lögmanns fjölskyldunnar. Tekin voru viðtöl við foreldrana og eldri börnin tvö auk þess sem talsmaður lagði fram greinargerð í málinu. Á engu stigi málsins var því borið við að umsækjendur óttuðust kynfæralimlestingar ef þeim yrði gert að snúa aftur til heimalands og var sú málsástæða því ekki sérstaklega til umfjöllunar í niðurstöðu Útlendingastofnunar.

Þrátt fyrir þá meginreglu flóttamannasamningsins að ástæða umsóknar sé borin fram af umsækjanda, fer þó ávallt fram skoðun á aðstæðum í heimaríki, sem tekur til almennra þátta svo sem stjórnarfars, mannréttinda og félagslegra aðstæðna. Á grundvelli slíkrar skoðunar er tekið tillit til þess hvort kerfisbundnar ofsóknir eða almennt ástand í viðkomandi ríki sé með þeim hætti að tilefni sé til þess að veita alþjóðlega vernd. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar og úrskurðum kærunefndar er vísað til þeirra heimilda, skýrslna og annarra upplýsinga, sem liggja til grundvallar niðurstöðunni.

Við mat á umsókn barns um alþjóðlega vernd ber auk þess ávallt að hafa það sem barninu er fyrir bestu að leiðarljósi. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að tryggja einingu fjölskyldunnar og almennt hefur verið lagt til grundvallar að hagsmunum barns sé best borgið með því að sú eining sé tryggð. Ekki er þó tekin ákvörðun um að vísa barni frá landinu í fylgd foreldra nema komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að hvorki barn né foreldrar þess uppfylli skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd og að hagsmunum barnsins, öryggi þess og velferð, sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi foreldrum sínum aftur til heimalands.

Meðferð umsókna um alþjóðlega vernd

Details
16 Sept. 2020

Í tilefni umfjöllunar fjölmiðla um mál egypskrar fjölskyldu og synjun umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd, vill Útlendingastofnun koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um almenn atriði sem varða efnislega meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.

Skilyrði þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður er að hafa flúið heimaland sitt af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur felur í sér að safnað er upplýsingum frá umsækjanda – í formi frásagnar og eftir atvikum með framlögðum gögnum – og þær athugaðar í ljósi annarra fyrirliggjandi upplýsinga um umsækjanda og svokallaðra trúverðugleikamerkja í frásögn umsækjanda. Með tilliti til þessa er tekin afstaða til hvort hægt er að telja frásögn umsækjanda trúverðuga eða ekki og hvort og að hvaða marki skuli byggt á henni við ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd.

Þegar mál eru rannsökuð með tilliti til trúverðugleika skiptir frásögn umsækjanda og gögn sem hann leggur fram miklu máli. Einnig leitar stofnunin upplýsinga í gagnabanka Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindaskýrslum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, skýrslum Amnesty International, Landinfo og fleiri aðila.

Almenna reglan er að sá sem sækir um alþjóðlega vernd verður að sýna fram á að hann eigi rétt á henni. Vegna aðstæðna umsækjenda um alþjóðlega vernd eru hins vegar almennt ekki gerðar ríkar kröfur til sönnunar á málsástæðum umsækjenda auk þess sem umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta vafans upp að vissu marki ef frásögn þeirra virðist trúverðug.

Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða þó að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess og leiða líkur að því að umsækjanda bíði ofsóknir í heimaríki verði honum gert að snúa þangað aftur.

Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, í skilningi laga um útlendinga, eða beinum eða óbeinum hótunum um ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Sé það niðurstaða rannsóknar stjórnvalda að umsækjandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð í heimalandi sínu sem jafnað verði til ofsókna ber að synja honum um alþjóðlega vernd.

Vegna frétta af fyrirhugaðri fylgd fjölskyldu til Egyptalands

Details
10 Sept. 2020

Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjölskyldu frá Egyptalandi, sem dvalið hefur á Íslandi í rúm tvö ár, verði nú fylgt aftur til heimalands. Niðurstaðan við meðferð umsóknar fjölskyldunnar um vernd var að þau eigi ekki á hættu ofsóknir eða illa meðferð í heimalandi sínu og eigi því ekki rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn hér á landi, samkvæmt þeim alþjóðasamningum og lögum sem þar um gilda.

Í reglugerð um útlendinga er heimild til að veita börnum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi þau ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 16 mánaða frá því þau sóttu um vernd. Endanleg niðurstaða í máli fjölskyldunnar lá fyrir rúmum 15 mánuðum eftir að fjölskyldan kom til landsins og hefur þeim borið að yfirgefa landið síðan þá.

Einstaklingum í þessari stöðu stendur til boða að ferðast aftur til heimalands sér að kostnaðarlausu með aðstoð Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM), sem alla jafna getur skipulagt sjálfviljuga heimför með skömmum fyrirvara. Sé þeirri aðstoð hafnað er síðasta úrræðið að vísa málinu til stoðdeildar ríkislögreglustjóra til framkvæmdar. Undirbúningur fylgdarinnar með stoðdeild til Egyptalands hefur tekið langan tíma, eins og því miður er oft raunin, en við slíkan undirbúning getur samstarfsvilji þess sem í hlut á sem og sá tími sem það tekur að afla gildra ferðaskilríkja frá stjórnvöldum í heimaríki haft mikil áhrif.

Bakgrunnur – Þegar synjað er um vernd

Allir útlendingar sem vilja setjast að á Íslandi þurfa að hafa til þess heimild. Dvalarleyfi eru gefin út í ákveðnum tilgangi, oftast vegna fjölskyldutengsla, náms eða atvinnu og sífellt oftar á grundvelli alþjóðlegrar verndar.

Útlendingar sem koma til landsins án þess að hafa fengið útgefið dvalarleyfi og eiga ekki af öðrum ástæðum rétt til dvalar hér á landi samkvæmt lögum, verða að yfirgefa landið aftur. Þetta gildir líka um einstaklinga sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd en verndarkerfið er neyðarkerfi fyrir þá sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Einstaklingar sem ákveða að snúa heim sjálfviljugir eftir að hafa verið synjað um vernd geta óskað eftir aðstoð við heimförina frá IOM. Í aðstoðinni felst meðal annars ráðgjöf, skipulag ferðatilhögunar og greiðsla ferðakostnaðar. Ríkisborgarar tiltekinna ríkja eiga jafnframt rétt á ferða- og enduraðlögunarstyrk frá IOM. 

Nýti einstaklingar ekki frestinn til sjálfviljugrar heimfarar og óski þeir ekki eftir aðstoð IOM kemur á endanum að því að þeim verði fylgt til heimalands af stoðdeild ríkislögreglustjóra. Undirbúningur fylgdar úr landi getur verið mjög tímafrekur en hann felst meðal annars í því að afla samþykkis yfirvalda í móttökuríki og ferðaskilríkja fyrir umsækjendur, séu þau ekki til staðar. 

Þegar að því kemur að fylgja einstaklingum til heimalands sem hafa dvalið hér lengi og myndað tengsl er skiljanlegt að það sé hlutaðeigandi og nærsamfélagi þeirra erfitt. Hafi mál fengið endanlega meðferð stjórnvalda er það þó því miður óhjákvæmileg niðurstaða.

Fleiri greinar...

  1. Umsækjendur um makaleyfi geta sótt um kerfiskennitölu
  2. Viðmið um lágmarksframfærslu hækka
  3. Skráning einstaklinga sem komast ekki heim vegna Covid-19
  4. 323 fengið vernd eða mannúðarleyfi það sem af er ári
Síða 4 af 42
  • Fyrsta
  • Fyrri
  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5
  • 6
  • 7
  • 8
  • 9
  • 10
  • Næsta
  • Síðasta
  • Útlendingastofnun
  • Fréttir
  • Greinar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  • Ársskýrslur
  • Stefnur Útlendingastofnunar
    • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
    • Launastefna
    • Jafnlaunastefna
    • Tungumálastefna
    • Persónuverndarstefna
  • Skipurit
  • Gjaldskrá
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Samstarfssamningar
  • Lög og reglugerðir
  • Algengar spurningar
    • Dvalarleyfi
    • Alþjóðleg vernd
    • Vegabréfsáritanir
    • Íslenskur ríkisborgararéttur
    • Túlkanir og þýðingar
  • Hafa samband
  • COVID-19

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • New in Iceland
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

Sími: 444 0900

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hr monitor 2020