Í tilefni umfjöllunar fjölmiðla um umsóknir egypskra fjölskyldna um alþjóðlega vernd vill Útlendingastofnun benda á að ástæður þess að einstaklingar telja sig þurfa á vernd að halda eru ólíkar milli einstaklinga jafnvel þótt þeir komi frá sama landi. Ríkisborgarar sama lands geta tilheyrt ólíkum þjóðfélagshópum, verið ólíkrar trúar, haft ólíkar stjórnmálaskoðanir, búið við ólíkar félagslegar aðstæður og þar af leiðandi hafa atburðir og almennt ástand ekki sömu áhrif á alla einstaklinga sama ríkis. Ávallt fer fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum hvers og eins.
Við afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd eru þær ástæður sem umsækjandi gefur fyrir því að þurfa á vernd að halda lagðar til grundvallar rannsókn máls. Þegar um er að ræða fjölskyldur getur verið að bornar séu fram ólíkar ástæður fyrir því að einstaklingar innan hennar þurfi á vernd að halda og eru þær þá allar teknar til skoðunar. Í öðrum tilvikum er aðeins borin fram ástæða fyrir því að einn einstaklingur í fjölskyldunni eigi á hættu ofsóknir eða illa meðferð og er þá óskað eftir því að aðrir í fjölskyldunni fái vernd á grundvelli fjölskyldutengsla.
Einn mikilvægasti þáttur málsmeðferðarinnar eru viðtöl við umsækjendur þar sem þeir eru spurðir með aðstoð túlks um ástæður þess að hafa flúið heimaland sitt. Umsækjendum er jafnframt leiðbeint um það í viðtölum að koma á framfæri þeim atriðum sem þeir telja að skipti máli en ekki hafi verið spurt um.
Við málsmeðferð umsókna barna tekur starfsfólk Útlendingastofnunar, sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun, viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira. Tillit er tekið til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Foreldrar eru einnig spurðir út í aðstæður barna sinna og komi eitthvað fram í viðtölum sem varðað getur sjálfstæða málsástæðu barns er slíkt ávallt skoðað enda getur fjölskyldan sem heild átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna atvika sem varða eingöngu börn.
Öllum umsækjendum um vernd er jafnframt skipaður löglærður talsmaður sem gætir hagsmuna þeirra við meðferð máls gagnvart stjórnvöldum. Talsmaður er viðstaddur viðtöl við umsækjendur og getur borið fram sínar eigin spurningar til að draga fram upplýsingar sem ekki hafa komið fram áður auk þess sem hann getur lagt fram greinargerð í máli áður en stjórnvöld taka ákvörðun. Talsmanni er einnig heimilt að leggja fram greinargerð og gögn í málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála.
Í máli egypsku fjölskyldunnar sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu var um að ræða beiðni um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna á hendur fjölskylduföðurnum, eins og ítrekað hefur komið fram í máli lögmanns fjölskyldunnar. Tekin voru viðtöl við foreldrana og eldri börnin tvö auk þess sem talsmaður lagði fram greinargerð í málinu. Á engu stigi málsins var því borið við að umsækjendur óttuðust kynfæralimlestingar ef þeim yrði gert að snúa aftur til heimalands og var sú málsástæða því ekki sérstaklega til umfjöllunar í niðurstöðu Útlendingastofnunar.
Þrátt fyrir þá meginreglu flóttamannasamningsins að ástæða umsóknar sé borin fram af umsækjanda, fer þó ávallt fram skoðun á aðstæðum í heimaríki, sem tekur til almennra þátta svo sem stjórnarfars, mannréttinda og félagslegra aðstæðna. Á grundvelli slíkrar skoðunar er tekið tillit til þess hvort kerfisbundnar ofsóknir eða almennt ástand í viðkomandi ríki sé með þeim hætti að tilefni sé til þess að veita alþjóðlega vernd. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar og úrskurðum kærunefndar er vísað til þeirra heimilda, skýrslna og annarra upplýsinga, sem liggja til grundvallar niðurstöðunni.
Við mat á umsókn barns um alþjóðlega vernd ber auk þess ávallt að hafa það sem barninu er fyrir bestu að leiðarljósi. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að tryggja einingu fjölskyldunnar og almennt hefur verið lagt til grundvallar að hagsmunum barns sé best borgið með því að sú eining sé tryggð. Ekki er þó tekin ákvörðun um að vísa barni frá landinu í fylgd foreldra nema komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að hvorki barn né foreldrar þess uppfylli skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd og að hagsmunum barnsins, öryggi þess og velferð, sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi foreldrum sínum aftur til heimalands.