Útlendingastofnun hefur bætt Svartfjallalandi á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.
Svartfjallaland er stjórnarskrárbundið lýðræðisríki og er aðili að öllum helstu mannréttindasáttmálum, m.a. Genfarsáttmálanum og Mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindi eru almennt virt í landinu og ekki eru stundaðar kerfisbundnar ofsóknir gegn fólki. Svartfjallaland hefur stöðu umsóknarríkis um aðild að Evrópusambandinu og eru viðræðurnar langt komnar. Útlendingastofnun hefur kannað aðstæður í Svartfjallalandi og fyrir liggur að allar forsendur eru fyrir hendi til að skilgreina landið sem öruggt ríki.
Rétt er að árétta að það eitt að umsækjandi um vernd sé frá ríki á listanum yfir örugg ríki leiðir ekki til þess að Útlendingastofnun taki mál hans ekki til skoðunar eða synji umsókn hans án undangenginnar rannsóknar. Þegar það á við eru mál ríkisborgara landa á listanum tekin til almennrar efnismeðferðar og er listinn því aðeins til hliðsjónar.
Nánari upplýsingar um ástæður þess að Svartfjallaland hefur verið sett á lista yfir örugg ríki er að finna hér.