Árið 2017 voru umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 1095 en niðurstaða fékkst í 1292 umsóknir. Um helmingur allra umsækjenda kom frá tveimur löndum, Georgíu og Albaníu. Afgreiðslutími allra umsókna sem lokið var með ákvörðun á árinu var að meðaltali 120 dagar en meðalafgreiðslutími í nýrri forgangsmeðferð var 4 dagar. 135 einstaklingum var veitt vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, flestum frá Írak.
Umsóknir um vernd
Útlendingastofnun bárust 1095 umsóknir um vernd frá ríkisborgurum 64 ríkja, auk ríkisfangslausra, árið 2017. Til samanburðar sóttu 1132 um vernd árið 2016 og 354 árið 2015.
Helmingur umsækjenda á árinu kom frá Georgíu (289) og Albaníu (262) en fjölmennastir þar á eftir voru Írakar (110) og Makedóníumenn (53). Rúmur helmingur umsækjenda kom frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki (571). 78% umsækjenda á árinu voru karlkyns og 22% kvenkyns; 84% umsækjenda voru fullorðnir og 16% yngri en 18 ára. Umsóknir frá einstaklingum sem kváðust vera fylgdarlaus ungmenni voru 27. Frekari upplýsingar um skiptingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir þjóðerni og kyni er að finna á tölfræðisíðu vefsins.
Umsóknir í desember voru 62 og voru umsækjendur af 22 þjóðernum, flestir frá Albaníu (11) og Írak (11). 31% umsækjenda kom frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki en hlutfall þeirra var ekki lægra í neinum öðrum mánuði á árinu. 82% umsækjenda í desember voru karlkyns og 18% kvenkyns. 88% umsækjenda voru fullorðnir og 12% yngri en 18 ára.
Lyktir mála
Niðurstaða fékkst í 1292 umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2017, samanborið við 976 afgreidd mál árið 2016. 457 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar á árinu en af þeim voru 222 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. 235 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 38 mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 562 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.
Af þeim 457 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar á árinu lauk 322 með ákvörðun um synjun og 135 með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (38), Afganistan (26) og Sýrlandi (21) en flestir þeirra sem var synjað um vernd komu frá Albaníu (89), Makedóníu (81) og Georgíu (76).
Málsmeðferðartími
Að meðaltali tók 88 daga að afgreiða umsókn um vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar árið 2017, 191 dag að afgreiða umsókn með ákvörðun í hefðbundinni efnislegri meðferð og 69 daga í forgangsmeðferð fyrir bersýnilega tilhæfulausar umsóknir einstaklinga frá öruggum upprunaríkjum.
Með reglugerðarbreytingu síðastliðið haust var lagður grunnur að styttingu afgreiðslutíma umsókna um vernd í forgangsmeðferð. Meðalmálsmeðferðartími umsókna sem bárust eftir að breytingin tók gildi og afgreiddar voru með ákvörðun eftir nýju verklagi forgangsmeðferðar var tæpir 4 dagar. Töluverður fjöldi eldri forgangsmála var óafgreiddur þegar breytingin tók gildi en þau voru öll afgreidd fyrir árslok eftir eldra verklagi forgangsmeðferðar. Allar nýjar bersýnilega tilhæfulausar umsóknir frá einstaklingum frá öruggum upprunaríkjum eru því nú afgreiddar innan örfárra daga.
Meðalmálsmeðferðartími allra afgreiddra umsókna um alþjóðlega vernd lengdist þrátt fyrir þetta um þriðjung milli áranna 2016 og 2017, úr 80 dögum í 120 daga. Mikill fjöldi umsókna á síðustu mánuðum ársins 2016 skýrir þetta fyrst og fremst en á síðasta ársfjórðungi 2016 sóttu 570 einstaklingar um vernd hér á landi. Þá var fjöldi umsókna framan af árinu 2017 jafnframt meiri en á nokkru öðru ári.