Fyrsta mánuð ársins sóttu 67 einstaklingar af 19 þjóðernum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Til samanburðar sótti 51 einstaklingur um vernd í janúar á síðasta ári. Það sem af er febrúarmánuði hafa um 40 einstaklingar sótt um vernd og er heildarfjöldi umsókna því kominn yfir 100 á fyrstu sex vikum ársins.

Flestir umsækjendur í janúar komu frá Írak (12) og Albaníu (10) en 39% umsækjenda komu frá ríkjum Balkanskagans, nánari upplýsingar um þjóðerni umsækjenda eru á tölfræðisíðu vefsins. 79% umsækjenda voru karlkyns og 21% kvenkyns. 76% umsækjenda voru fullorðnir og 24% yngri en 18 ára. Fjórir umsækjendur kváðust vera fylgdarlaus ungmenni.

Lyktir mála
Niðurstaða fékkst í samtals 60 umsóknir um vernd í janúarmánuði en afgreiðsluhraði hægðist í byrjun árs meðal annars vegna innleiðingar nýrra laga um útlendinga sem tóku gildi um áramót. 26 mál voru tekin til efnislegrar meðferðar en þar af voru 16 mál afgreidd í forgangsmeðferð og 10 í hefðbundinni efnismeðferð, 10 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 24 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.

19 málum af 26, sem tekin voru til efnislegrar meðferðar, lauk með ákvörðun um synjun og 7 málum með ákvörðun um veitingu verndar eða viðbótarverndar. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (3) en flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Gana (9), nánari upplýsingar um niðurstöður mála eftir þjóðerni eru á tölfræðisíðu vefsins.

610 einstaklingar í þjónustu
Um 610 einstaklingar njóta þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um þessar mundir, þar af eru tæplega 200 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veita um 410 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum á vegum stofnunarinnar.
Flutningar úr landi
Stoðdeild Ríkislögreglustjóra flutti 86 einstaklinga úr landi í janúar. 33 einstaklingar til viðbótar yfirgáfu landið sjálfviljugir, þar af 20 með stuðningi Útlendingastofnunar og 9 með stuðningi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM).