Á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 afgreiddi Útlendingastofnun nærri jafn margar hælisumsóknir og allt árið 2015. 53 einstaklingum var veitt hæli eða önnur vernd á Íslandi en þar af voru Írakar fjölmennastir eða sautján talsins. Fjölmennastir meðal þeirra sem sóttu um vernd það sem af er ári voru Albanar.
Umsóknir um vernd
274 einstaklingar frá 42 löndum sóttu um vernd á Íslandi á fyrstu sex mánuðum ársins 2016. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 86 einstaklingar sótt um vernd.
Á myndinni hér að neðan má sjá skiptingu umsækjenda annars vegar eftir þjóðerni og hins vegar eftir kyni og aldri. Flestir umsækjendur komu frá Albaníu (69), Makedóníu (35), Írak (25), Sýrlandi (19) og Palestínu (12). Samtals komu 43% umsækjendanna frá löndum Balkanskagans. 75% umsækjenda voru karlkyns (204) og 25% konur (70). 81% umsækjenda voru fullorðnir (222) og 19% börn (52). Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru fimm á fyrstu sex mánuðum ársins. Nánari upplýsingar um þjóðerni, aldur og kyn umsækjenda um vernd má sjá í töflu á tölfræðisíðu vefsins.
Lyktir mála
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 fékkst niðurstaða í 310 hælismál eða nærri jafn mörg mál og allt árið 2015 (323).
Af málunum 310 voru 159 mál tekin til efnislegrar meðferðar, 103 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 14 umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar og 34 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.
Af þeim 159 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk 106 málum með ákvörðun um synjun og 53 málum með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (17), Íran (10), Sýrlandi (9) og Afganistan (5) en flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (60), Makedóníu (21), Kósovó (4) og Serbíu (4). Nánari upplýsingar um niðurstöður mála eftir þjóðerni má sjá í töflu á tölfræðisíðu vefsins.
Málsmeðferðartími
