Aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur 31. desember 2020.
Ferðatakmarkanir
Frá og með 1. janúar 2021 munu breskir ríkisborgarar ekki lengur njóta frjálsrar farar sem EES/EFTA-borgarar.
Þetta þýðir að frá áramótum munu breskir ríkisborgarar, sem ekki hafa fasta búsetu á Íslandi, falla undir ferðatakmarkanir til Íslands vegna Covid-19 líkt og aðrir ríkisborgarar þriðju ríkja.
Breskir ríkisborgarar með fasta búsetu á Íslandi munu ekki falla undir ferðatakmarkanirnar.
Ítarlegar upplýsingar um gildandi ferðatakmarkanir, undanþágur frá þeim og þau gögn sem undanþegnir einstaklingar þurfa að framvísa á landamærum, er að finna á upplýsingasíðu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.
Staðfesting á búsetu á Íslandi
Útlendingastofnun mun á næstu mánuðum hefja útgáfu dvalarleyfiskorta fyrir breska ríkisborgara, sem höfðu skráð rétt sinn til búsetu á Íslandi fyrir lok aðlögunartímabilsins. Ekki er mögulegt að sækja um slík kort enn þá. Tilkynnt verður um það á þessari síðu um leið og hægt verður að sækja um þessi dvalarleyfiskort.
Þangað til geta breskir ríkisborgarar sýnt fram á rétt sinn til búsetu á Íslandi með búsetutímavottorði (C-122) sem gefið er út af Þjóðskrá Íslands.
Breskum ríkisborgurum sem hafa skráð rétt sinn til búsetu hér á landi er ráðlagt að hafa búsetutímavottorð meðferðis þegar þeir ferðast erlendis til að geta sýnt fram á rétt sinn til búsetu á Íslandi við heimkomu.
Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu fyrir breska ríkisborgara (á ensku).