Jafnréttisstofa hefur veitt Útlendingastofnun heimild til að nota jafnlaunamerkið en það er veitt vinnustöðum sem hlotið hafa faggilta vottun á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði en jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Útlendingastofnun hlaut vottun á jafnlaunakerfi sínu af vottunarstofunni iCert. Í því fólst staðfesting á að stofnunin starfræki jafnlaunakerfi, sem nær til allra starfsmanna stofnunarinnar, sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og felur ekki í sér kynbundna mismunun.
Útlendingastofnun fagnar því að launakerfi stofnunarinnar hafi fengið jafnlaunavottun. Það er í samræmi við jafnlaunastefnu stofnunarinnar en markmið hennar er að tryggja launajafnrétti kynjanna og þar með jafna stöðu þeirra innan stofnunarinnar.