Útlendingar sem staddir eru hér á landi og komast ekki til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar mega dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. ágúst 2020, samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem bætt var við reglugerð um útlendinga og hefur þegar tekið gildi.
Um hverja gildir bráðabirgðaákvæðið?
Ákvæðið gildir um útlendinga sem dvöldu hér á landi fyrir innleiðingu ferðatakmarkana þann 20. mars 2020 á grundvelli:
- dvalarleyfis, sem nú er útrunnið eða rennur út áður en viðkomandi getur yfirgefið landið,
- áritunar, sem nú er útrunnin eða rennur út áður en viðkomandi getur yfirgefið landið,
- áritunarfrelsis, en mun hafa dvalið lengur en 90 daga á Schengen svæðinu áður en viðkomandi getur yfirgefið landið.
Um hverja gildir bráðabirgðaákvæðið ekki?
Ákvæðið gildir ekki um útlendinga sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 og kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun á þeim grundvelli eða öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.
Þarf ég að óska eftir heimild til að dvelja lengur á landinu?
Nei, ekki þarf að óska eftir heimild til að dvelja lengur á landinu. Reglugerðarbreytingin veitir öllum þeim sem hún nær til sjálfkrafa heimild til að dvelja lengur á landinu án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar.
Hvað má ég dvelja lengi á landinu?
Útlendingar í þessari stöðu eru beðnir um að yfirgefa landið eins fljótt og hægt er, í síðasta lagi 10. ágúst 2020.