Danskur, finnskur, norskur eða sænskur ríkisborgari sem orðið hefur slíkur sjálfkrafa getur sent inn tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt í vissum tilvikum.
Eftirfarandi skilyrði gilda um slíkar umsóknir:
- Umsækjandi skal hafa öðlast norrænan ríkisborgararétt með öðrum hætti en með lögum eða samsvarandi hætti (þ.e. skal hafa öðlast norrænt ríkisfang sjálfkrafa, t.a.m. við fæðingu) og;
- hafa náð 18 ára aldri og;
- hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 3 ár og;
- hafa ekki á því tímabili verið dæmdur í fangelsi, til að sæta öryggisvist eða hælisvist samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.
Afgreiðslugjald
Það athugist að umsókn er ekki tekin til vinnslu fyrr en greiðsla hefur borist. Upplýsingar um afgreiðslugjald og bankaupplýsingar má finna hér.
Nauðsynleg fylgigögn umsóknar
Upplýsingar um ‚apostille‘ vottun og tvöfalda staðfestingu, löggilta þýðingu og staðfest afrit má finna hér. Það athugist að ekki þarf vottun á íslensk vottorð.
- Tilkynning um íslenskan ríkisborgararétt fyrir norrænan ríkisborgara. Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
- Vottorðið Lögheimilissaga – án heimilisfanga, en lönd tilgreind frá Þjóðskrá Íslands. Vottorðið tilgreinir í hvaða landi eða löndum umsækjandi hefur átt lögheimili frá upphafi lögheimilisskráningar á Íslandi til dagsins í dag.
- Afrit úr vegabréfi og öllum stimpluðum síðum vegabréfs.
- Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
Viðbótargögn fyrir umsækjanda sem sækir einnig um að barn hans (yngra en 18 ára) hljóti ríkisborgararétt með foreldri
- Afrit úr vegabréfi barns og öllum stimpluðum síðum vegabréfs.
- Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs barns. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði barns. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
- Forsjárgögn. Á aðeins við ef annað foreldri fer með forsjá barns. Frumrit gagna skulu vera vottuð með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af þeim staðfest afrit. Ef gögnin eru á öðru máli en ensku eða Norðurlandamáli skal fylgja staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda.
- Samþykki forsjáraðila. Á aðeins við ef báðir foreldrar fara með forsjá barns.
- Samþykki barns á aldrinum 12-18 ára.