Meginregla laga um útlendinga nr. 80/2016 er að ríkisborgarar ríkja utan EES og EFTA sem ætla að dveljast hér á landi lengur en í þrjá mánuði þurfa að hafa dvalarleyfi. Þeir aðilar sem öðluðust rétt til dvalar án dvalarleyfis á grundvelli eldri laga halda þeim rétti.
Eftirtaldir aðilar eru undanþegnir meginreglunni um dvalarleyfi hér á landi skv. núgildandi lögum
Norrænir ríkisborgarar, sbr. 49. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016
Ríkisborgarar EES- og EFTA-ríkja, sbr. XI. kafla laga um útlendinga nr. 80/2016
Eftirtaldir aðilar voru undanþegnir meginreglunni um dvalarleyfi á grundvelli eldri laga. Þeir einstaklingar sem öðluðust rétt til dvalar án dvalarleyfis fyrir gildistöku nýju laganna halda þeim rétti.
Fæddur íslenskur ríkisborgari:
- Einstaklingur sem fengið hefur íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hefur misst hann eða afsalað sér honum.
Íslenskt foreldri:
- Einstaklingur sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur verið búsettur hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í tvö ár. Skilyrði er að:
- Einstaklingur hafi verið í löglegri dvöl og haft dvalarleyfi í tvö ár og:
- Foreldrið hafi haft íslenskan ríkisborgararétt í a.m.k fimm ár.
- Ekki skiptir máli hversu gamall viðkomandi einstaklingur er, hann getur verið jafnt lögráða sem ólögráða.
- Einstaklingur sem er lögráða og á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur verið búsettur hér á landi og með samfellt dvalarleyfi í fimm ár.
- Þ.e. lögráða einstaklingur sem hefur dvalist hér löglega með dvalarleyfi í fimm ár og:
- Foreldri viðkomandi er íslenskur ríkisborgari.
- Ekki skiptir máli hversu lengi foreldrið hefur haft ríkisborgararétt, bara að foreldri sé með íslenskan ríkisborgararétt.
Hjúskapur:
- Einstaklingur sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar.
- Ekki skiptir máli hversu lengi makinn hefur haft íslenskan ríkisborgararétt.
- Öðlist maki íslenskan ríkisborgararétt, þarf einstaklingur ekki lengur dvalarleyfi ef hann hefur búið löglega með maka sínum hér á landi í þrjú ár frá stofnun hjúskapar.
- Öðlist maki íslenskan ríkisborgararétt, þarf einstaklingur ekki lengur dvalarleyfi ef hann hefur búið löglega með maka sínum hér á landi í þrjú ár frá stofnun hjúskapar.
Skráð sambúð:
- Einstaklingur sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hefur verið búsettur hér á landi og með samfellt dvalarleyfi í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar. Báðir aðilar skulu vera ógiftir og hinn íslenski ríkisborgari skal hafa verið með ríkisborgararétt í a.m.k fimm ár.