Ríkisborgarar EES/EFTA ríkja
Einstaklingur sem er ríkisborgari EES/EFTA ríkis má dvelja og starfa hér á landi án sérstaks leyfis í allt að þrjá mánuði frá komu til landsins eða allt að sex mánuði ef hann er í atvinnuleit.
Ef viðkomandi hyggst dvelja lengur í landinu skal hann skrá rétt sinn til dvalar hjá Þjóðskrá Íslands. Dvöl í öðru norrænu ríki er ekki dregin frá dvalartímanum.
Nánari upplýsingar fyrir norræna ríkisborgara.
Nánari upplýsingar fyrir EES/EFTA ríkisborgara.
Dvöl nánustu aðstandenda ríkisborgara EES/EFTA ríkja
Nánasti aðstandandi ríkisborgara EES/EFTA ríkis, sem er sjálfur ríkisborgari ríkis utan EES/EFTA, hefur heimild til að dvelja á Íslandi ef dvöl hans byggir á rétti ríkisborgara EES/EFTA ríkis sem er búsettur hér.
Nánustu aðstandendur ríkisborgara EES/EFTA ríkis eru:
- Makar eða sambúðarmakar.
- Afkomendur í beinan ættlegg, þ.e. börn eða barnabörn hans eða maka, sem eru yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri.
- Ættingjar í beinan legg af eldri kynslóð, þ.e. foreldrar og ömmur og afar hans eða maka, sem eru á framfæri þeirra.
Sækja þarf um dvalarskírteini hjá Útlendingastofnun. Gildistími dvalarskírteinis er fimm ár frá útgáfudegi eða jafnlangur dvalartíma EES/EFTA borgarans ef hann er styttri en fimm ár.
Gögn sem leggja þarf fram með umsókn um dvalarskírteini
- Skráningarblað í frumriti og vel útfyllt af umsækjanda.
- Ljósrit gilds vegabréfs (þarf ekki að vera staðfest). Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
- Vottorð um fjölskyldutengsl eftir því sem við á (t.d. hjúskaparvottorð / hjúskaparstöðuvottorð / fæðingarvottorð / dánarvottorð / forsjárgögn / skilnaðargögn). Staðfesta þarf gildi vottorðs, annað hvort með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun. Leggja þarf fram frumrit eða staðfest afrit af frumriti vottorðsins. Sjá upplýsingar um form fylgigagna.
Viðbótargögn sem leggja þarf fram með umsókn fyrir afkomendur og ættingja
Ef sótt er um fyrir afkomendur EES/EFTA borgara eða maka hans, sem eru eldri en 21 árs og á framfæri hans, eða ættingja í beinan legg af eldri kynslóð, sem er á framfæri EES/EFTA borgarans, þarf jafnframt að leggja fram:
- Gögn til staðfestingar á því að EES/EFTA borgarinn geti framfleytt afkomanda / ættingja sínum eða maka síns, t.d. ráðningarsamning eða launaseðla.
- Gögn sem staðfesta að afkomandi / ættingi hafi verið á framfæri EES/EFTA borgarans.
Gögn sem heimilt er að leggja fram
- Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram til Útlendingastofnunar með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Staðfesting á umsókn
Umsækjandi sem lagt hefur fram umsókn um dvalarskírteini sem aðstandandi EES/EFTA borgara getur óskað eftir staðfestingu á að umsókn hafi verið lögð fram með því að hafa samband við Útlendingastofnun.