• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
    • Hafa samband
    • COVID-19
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Algengar spurningar
  • Lög og reglugerðir
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. - Maki eða sambúðarmaki

Dvalarleyfi fyrir maka eða sambúðarmaka

Dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar eru veitt einstaklingi sem ætlar að flytjast til landsins til að búa með maka eða sambúðarmaka sínum hér á landi, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Skilyrði er að maki eða sambúðarmaki sé:

  • íslenskur ríkisborgari,
  • norrænn ríkisborgari,
  • erlendur ríkisborgari sem hefur ótímabundið dvalarleyfi, 
  • erlendur ríkisborgari sem hefur tímabundið dvalarleyfi:        
    • sem sérfræðingur,
    • sem íþróttamaður,
    • sem nemi í framhaldsnámi
    • á grundvelli alþjóðlegrar verndar,
    • á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða
    • vegna sérstakra tengsla við landið.

Ákveðin sérskilyrði gilda fyrir fjölskyldusameiningu við einstaklinga sem hafa dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla. Viðkomandi einstaklingur sem sótt er um að sameinast hér á landi þarf að hafa starfað eða stundað nám á Íslandi í löglegri dvöl síðustu 4 ár fyrir framlagningu umsóknar (nema undaþága eigi við).

Hver eru skilyrði dvalarleyfis sem maki eða sambúðarmaki?

Þú gætir átt rétt á dvalarleyfi sem maki eða sambúðarmaki ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, ásamt fleirum
  • þú ert eldri en 18 ára,
  • varst 18 ára eða eldri þegar stofnað var til hjúskapar eða sambúðar,
  • ert í hjúskap, eða í sambúð sem hefur varað lengur en 1 ár,
  • átt maka eða sambúðarmaka sem er búsettur hér á landi og hefur rétt til fjölskyldusameiningar,
  • hjúskapur uppfyllir skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum,
  • munt hafa fasta búsetu á sama stað og maki þinn eða sambúðarmaki,
  • getur sýnt fram á að þú getir framfleytt þér á dvalartíma,
  • ert sjúkratryggð(ur) hjá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög),
  • hefur ekki afplánað refsingu erlendis á síðustu 5 árum eða verið dæmd(ur) til lengri refsingar en sem samsvarar 3 mánaða fangelsi samkvæmt íslenskum lögum,
  • maki þinn hefur ekki á síðustu 5 árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum (nema undanþága eigi við),
  • átt vegabréf þar sem gildistími er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis, og
  • samþykki fjölskyldumeðlims hér á landi fyrir útgáfu leyfis liggur fyrir.

 

Þú mátt ekki

  • hafa stofnað til hjúskapar eða sambúðar til málamynda (þ.e. í öðrum tilgangi en til samvistar við maka, t.d. í þeim einum tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi),
  • hafa verið í sambúð í skemmri tíma en 1 ár ef þú sækir um sambúðarmakaleyfi,
  • byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt, nema þú sért maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara en þá þarftu ekki að sækja um atvinnuleyfi (athugaðu þó að sambúðarmaki íslensks ríkisborgara má ekki byrja að vinna fyrr en dvalarleyfi hefur verið veitt),
  • vinna fyrir annan atvinnurekanda en þann sem atvinnuleyfið var veitt til,
  • vera lengur frá Íslandi en 90 daga á hverju 12 mánaða tímabili á meðan leyfið er í gildi, annars getur dvalarleyfið verið fellt niður eða afturkallað.

 

Umsókn um dvalarleyfi og atvinnuleyfi (ef við á) og önnur fylgigögn skulu lögð fram hjá Útlendingastofnun eða sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Það athugist að mismunandi reglur gilda um heimild til dvalar þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu. Makar og sambúðarmakar mega vera staddir á landinu þegar umsókn er lögð fram ef þeir byggja rétt sinn á aðila sem talin er upp hér að ofan nema maki/sambúðarmaki námsmanns ef hann er áritunarskyldur. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um réttindi sem fylgja leyfinu.

Ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði dvalarleyfis verður því synjað og umsækjandi þarf að yfirgefa landið. Yfirgefi umsækjandi ekki landið getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Endurkomubann felur í sér bann við endurkomu á Schengen-svæðið um ákveðinn tíma eða að lágmarki 2 ár.

Það er á ábyrgð umsækjanda að sækja um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar. 

Nánar um dvalarleyfi fyrir maka og sambúðarmaka

Réttindi sem fylgja leyfinu

Umsókn um fyrsta leyfi

Endurnýjun

Sérskilyrði

 

Réttindi sem fylgja leyfinu

  • Maki og sambúðarmaki má vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og það er til vinnslu, nema maki og sambúðarmaki námsmanns sem er áritunarskyldur. Áritunarskyldur umsækjandi sem staddur er erlendis þegar sótt er um dvalarleyfið, getur ekki komið til landsins fyrr en dvalarleyfi hefur verið veitt.
  • Maki og sambúðarmaki íslensks ríkisborgara hafa heimild til að vinna án atvinnuleyfis hér á landi. Aðrir umsækjendur þurfa að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi ætli þeir að stunda vinnu hér á landi, og er þeim ekki heimilt að byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt.
  • Makar íslenskra ríkisborgara mega byrja að vinna um leið og þeir hafa lagt fram umsókn um dvalarleyfi og geta þeir sótt um kerfiskennitölu til Skattsins á meðan dvalarleyfisumsóknin er í vinnslu. Sambúðarmaki íslensks ríkisborgara má ekki byrja að vinna fyrr en dvalarleyfi hefur verið veitt. 
  • Dvalarleyfið er að jafnaði veitt til eins árs í senn, en að hámarki í tvö ár. Það getur þó aldrei gilt lengur en leyfi þess sem umsækjandi leiðir rétt sinn af.
  • Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið að hámarki í tvö ár, séu skilyrði leyfis enn uppfyllt, en þó getur leyfið aldrei gilt lengur en leyfi þess sem umsækjandi leiðir rétt sinn af.
  • Dvalarleyfið veitir rétt til fjölskyldusameiningar. Hægt er að sækja um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar fyrir:
    • börn umsækjanda yngri en 18 ára, ef umsækjandi hefur forsjá þeirra,
    • foreldra umsækjanda 67 ára og eldri (á ekki við um námsmenn).
  • Dvalarleyfið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
  • Maki íslensks ríkisborgara geta átt rétt á íslenskum ríkisborgararétti eftir fjögurra ára búsetu á Íslandi frá hjúskap, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Skilyrði er að makinn hafi haft íslenskan ríkisborgararétt í minnst fimm ár.
  • Sambúðarmaki íslensks ríkisborgara getur átt rétt á íslenskum ríkisborgararétti eftir fimm ára búsetu á Íslandi frá skráningu sambúðar, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Skilyrði er að makinn hafi haft íslenskan ríkisborgararétt í minnst fimm ár.

Umsókn um fyrsta leyfi

Með umsókn skulu fylgja öll þau gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt.  

Gögn sem bæði umsækjendur um dvalarleyfi fyrir maka og sambúðarmaka þurfa að leggja fram

  1. Greiðslukvittun (ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka). Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið nafn umsækjanda, fæðingardag og fæðingarár í tilvísun.
  2. Umsókn um dvalarleyfi (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda. Mikilvægt er að umsækjandi greini frá dvalarstað sínum hér á landi. Liggi heimilisfang ekki fyrir skal umsækjandi leggja fram tilkynningu um dvalarstað eftir að umsækjandi kemur til landsins (t.d. við myndatöku). 

    Vinsamlegast veljið rétt dvalarleyfi: 

    D-101 Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar við íslenskan ríkisborgara

    D-102 Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar við erlendan ríkisborgara

  3. Passamynd (35mm x 45mm).
  4. Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
  5. Staðfest frumrit erlends sakavottorðs. Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða. Leggja þarf fram sakavottorð frá öllum þeim löndum þar sem umsækjandi hefur búið síðustu 5 ár. Sakavottorð skulu gefin út af æðsta yfirvaldi lands sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð. Athugið að krafist er vottunar sakavottorðs, þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun.
  6. Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á sakavottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
  7. Sjúkrakostnaðartrygging. Leggja þarf fram staðfestingu frá tryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi á Íslandi, á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu til sex mánaða að lágmarksupphæð kr. 2.000.000. Nánari upplýsingar um hvaða tryggingafélög koma til greina sem og gildistíma tryggingar eru hér.
  8. Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma. Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað. Umsækjandi sem er í hjúskap þarf því ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, enda hafi maki hans næga framfærslu fyrir báða aðila. Sambúðarmaki þarf að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.



Gögn vegna umsóknar um dvalarleyfi fyrir maka

  • Staðfest afrit af frumriti hjúskaparvottorðs. Athugið að krafist er vottunar á frumrit hjúskaparvottorðs, þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun. Afritið þarf að vera stimplað af opinberu yfirvaldi sem hefur til þess heimild.
  • Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hjúskaparvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.


Gögn vegna umsóknar um dvalarleyfi fyrir sambúðarmaka

  • Staðfest afrit af frumriti hjúskaparstöðuvottorðs umsækjanda og sambúðarmaka, og önnur gögn sem staðfesta að sambúð hafi varað í a.m.k. eitt ár. Athugið að krafist er vottunar hjúskaparstöðuvottorðs, þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun. Afritið þarf að vera stimplað af opinberu yfirvaldi sem hefur til þess heimild.
  • Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hjúskaparstöðuvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.


Gögn sem er heimilt að leggja fram

  • Umsókn um atvinnuleyfi vegna fjölskyldusameiningar og ráðningarsamningur, ef umsækjandi er ekki maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara og viðkomandi ætlar að vinna á Íslandi. Atvinnuleyfisumsókn og ráðningarsamningur þurfa að berast í frumriti og vera undirrituð af bæði umsækjanda og atvinnurekanda.
  • Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.

Uppfylli umsækjandi öll skilyrði dvalarleyfis verður dvalarleyfið veitt og umsækjanda í framhaldinu send tilkynning um veitinguna. Dvalarleyfið verður þó ekki útgefið fyrr en umsækjandi hefur mætt í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, tilkynnt um dvalarstað til Útlendingastofnunar og gengist undir læknisskoðun. Miðað er við að umsækjandi mæti til myndatöku innan við viku frá komu til landsins, og leggi fram tilkynningu um dvalarstað (t.d. við myndatöku) og gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Útlendingastofnun synjar um útgáfu dvalarleyfis uppfylli umsækjandi ekki ofantalin skilyrði. Það getur leitt til ólögmætrar dvalar og brottvísunar.



Endurnýjun

Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar ef skilyrði þess eru enn uppfyllt. Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. fjórum vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar.

Umsækjandi þarf að mæta í eigin persónu í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Tekin er mynd af umsækjanda og þarf hann að veita rithandarsýnishorn. Umsækjanda ber að hafa vegabréf sitt meðferðis.

Gögn sem þarf að leggja fram

  1. Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.

    Vinsamlegast veljið rétt dvalarleyfi: 

    D-101 Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar við íslenskan ríkisborgara

    D-102 Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar við erlendan ríkisborgara

  2. Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
  3. Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma. Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað. Umsækjandi sem er í hjúskap þarf því ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, enda hafi maki hans næga framfærslu fyrir báða aðila. Sambúðarmaki þarf að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.

Gögn sem er heimilt að leggja fram

  1. Umsókn um atvinnuleyfi vegna fjölskyldusameiningar og ráðningarsamningur, ef umsækjandi er ekki maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara og viðkomandi ætlar að vinna á Íslandi. Í frumriti, undirrituð bæði af umsækjanda og atvinnurekanda og staðfest af viðeigandi stéttarfélagi. 
  2. Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.

 

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.

 

Sérskilyrði

Búsetuskilyrði maka á Íslandi með alþjóðlega vernd og fleiri leyfi 

Málamyndahjúskapur eða -sambúð

Samþykki beggja hjóna

Ofbeldi og misnotkun 

Fráfall maka eða sambúðarmaka

Lok hjúskapar eða sambúðar og félagslegar og menningarlegar aðstæður í heimalandi

 

Búsetuskilyrði maka á Íslandi með alþjóðlega vernd og fleiri leyfi 

Byggi umsækjandi rétt sinn á einstaklingi sem er með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða, sérstakra tengsla eða fjölskyldusameiningar foreldra, þarf sá aðili að hafa starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar. Undanþága frá þessu getur m.a. átt við þegar aðilar voru í hjúskap áður en maki búsettur á Íslandi fluttist hingað til lands, aðilar voru báðir með dvalarleyfi þegar þeir gengu í hjúskap eða þeir eiga von á barni saman. Aðrar sérstakar ástæður gætu einnig átt við.

Málamyndahjúskapur eða -sambúð

Útlendingastofnun er heimilt að synja um dvalarleyfi sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Er slíkt nefnt málamyndahjúskapur eða -sambúð.

Liggi fyrir rökstuddur grunur um málamyndahjúskap eða -sambúð þarf umsækjandi að sýna fram á með óyggjandi hætti að grunur sé ekki á rökum reistur. Málamyndahjúskapur eða -sambúð veitir ekki rétt til dvalarleyfis og er refsiverð. Í því skyni að rannsaka hvort hjúskapur eða sambúð sé hugsanlega til málamynda getur Útlendingastofnun lagt fyrir umsækjanda og maka að koma í viðtal hjá stofnuninni. Synjun um dvalarleyfi á grundvelli málamyndahjúskapar eða -sambúðar er matskennd ákvörðun og gætir Útlendingastofnun sérstaklega að því að fullnægjandi rannsókn fari fram á málsatvikum og að allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í málinu.

Ástæða þess að hjúskapur eða sambúð til málamynda getur ekki verið grundvöllur dvalarleyfis er m.a til að vernda þá sem hætt er við þrýstingi eða misnotkun af einhverju tagi.

Samþykki beggja hjóna

Brjóti stofnun hjúskapar eða sambúðar gegn ákvæðum íslenskra laga og allsherjarreglu leiðir það til synjunar dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjón eða annað hjóna voru börn við giftingu, eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt at­höfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga, í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi. 

Verndarsjónarmið liggja að baki ákvæðinu, því er m.a. ætlað að koma í veg fyrir svokölluð nauðungarhjónabönd.

Ofbeldi og misnotkun 

Ljúki hjúskap eða sambúð vegna þess að umsækjandi eða barn hans hefur þurft að sæta ofbeldi eða misnotkun í sambandinu er heimilt að veita viðkomandi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, uppfylli viðkomandi framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.

Ofbeldið eða misnotkunin þarf að hafa verið tilkynnt lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn að benda til þess. Við mat á því hvort einstaklingur fái veitt dvalarleyfi á þessum grundvelli er litið til tengsla hans við landið, og víkja má frá framfærsluskilyrðum ef framfærsla er ótrygg um skamma hríð. Þá skiptir einnig máli að hjúskapur, staðfest samvist eða sambúð hafi ekki varað í mjög skamman tíma. 

Sjónarmið að baki þessu ákvæði eru þau að skapa ekki aðstæður þar sem viðkomandi telur sig knúinn til að vera áfram í hjúskap eða sambúð svo að hann haldi dvalarleyfi sínu ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka.

Útlendingastofnun tekur fram að ekki eru lagðar of strangar sönnunarkröfur á umsækjanda um ástæður sambandsslita en umsækjandi þarf þó að sýna fram á misnotkunina eða  ofbeldið eins og mögulegt er. Ákvörðun um endurnýjun dvalarleyfis á þessum grundvelli er undantekning og þarf Útlendingastofnun að meta þau gögn sem liggja fyrir í hverju og einu máli fyrir sig. Til þess að Útlendingastofnun sé unnt að leggja mat á endurnýjun dvalarleyfis á þessum grunni þarf stofnuninni að berast eins ítarleg gögn og mögulegt er. Læknaskýrslur, sálfræðiskýrslur, lögregluskýrslur eða yfirlýsing frá Kvennaathvarfi eða öðrum stofnunum þar sem umsækjandi hefur dvalist, geta stutt frásögn um atburði.

Fráfall maka eða sambúðarmaka

Ljúki hjúskap vegna fráfalls maka er heimilt að veita viðkomandi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla uppfylli viðkomandi áfram framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eða sambúðarinnar.

Ástæður sem mæla gegn því að umsækjandi fái dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla vegna fráfalls maka er t.d. ef sambúð hefur varað í mjög skamman tíma.

Lok hjúskapar eða sambúðar og félagslegar og menningarlegar aðstæður í heimalandi

Heimilt er að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þrátt fyrir að hjúskap eða sambúð ljúki, ef umsækjandi getur sýnt fram á að félagslegar eða menningarlegar aðstæður í heimaríki geri viðkomandi erfitt að snúa aftur til þess ríkis. Umsækjandi þarf áfram að uppfylla framfærsluskilyrði sem og önnur skilyrði laganna og ríkar sanngirnisástæður að mæla með því. Umsækjandi verður að hafa verið áður með dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eða sambúðarinnar.

Umsækjandi um slíkt leyfi þarf að geta sýnt fram á að hann myndi vegna skilnaðar eða sambúðarslita eiga erfitt uppdráttar í upprunalandi vegna félagslegra eða menningarlegra ástæðna. Í þeim tilvikum eru tengsl útlendings við landið metin og hvort mjög íþyngjandi væri fyrir útlending að snúa til baka til heimalands eða það skapi honum mikil vandræði að snúa aftur miðað við breytta félagslega stöðu. Dæmi eru t.d. um að konur geti verið útskúfaðar úr ákveðnum samfélögum séu þær fráskildar.

Ákvörðun um endurnýjun dvalarleyfis á þessum grundvelli er undantekning og þarf Útlendingastofnun að meta þau gögn sem liggja fyrir í hverju og einu máli fyrir sig.

  • Hverjir þurfa dvalarleyfi?
  • Ferill umsókna
    • Útgáfustaðir D-áritana
  • Afgreiðslutími og umsóknir í vinnslu
  • Langtímavegabréfsáritun
  • Langtímavegabréfsáritun fyrir fólk í fjarvinnu og aðstandendur þess
  • Fjölskyldusameining
  • - Maki eða sambúðarmaki
  • - Barn
  • - Foreldri 67 ára og eldri
  • - Foreldri barns yngra en 18 ára
  • Atvinnuleyfi
    • Flýtimeðferð
  • Nám
    • Endurnýjun og námsárangur
  • Vistráðning / au-pair
  • Vinnudvöl fyrir ungt fólk
  • Sjálfboðaliðar
  • Trúboðar
  • Lögmætur tilgangur
  • Sérstök tengsl við Ísland
  • Ríkisborgarar EES/EFTA og aðstandendur þeirra
    • EES og EFTA ríkin
  • Ótímabundið dvalarleyfi
  • Réttindi
  • Grunnskilyrði
  • Gagnakröfur
    • FBI sakavottorð
  • Heimild til dvalar
  • Synjun umsóknar um dvalarleyfi
  • Afturköllun dvalarleyfis
  • Algengar spurningar
  • Brottvísun og endurkomubann

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • Rauði krossinn
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

Sími: 444 0900

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hr monitor 2020