VIS-kerfið eða upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (Visa Information System) gerir Schengen-ríkjunum kleift að skiptast á vegabréfsáritunargögnum. Það samanstendur af miðlægu upplýsingakerfi og samskiptatækni sem tengir þetta miðlæga kerfi við innlend kerfi. VIS-kerfið tengir ræðisskrifstofur í löndum utan Evrópusambandsins og allar landamærastöðvar á ytri landamærum Schengen-ríkjanna. Kerfið vinnur með gögn og ákvarðanir sem tengjast umsóknum um vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar, til heimsóknar eða gegnumferðar um Schengen-svæðið. Kerfið getur framkvæmt lífkennamátun, fyrst og fremst af fingraförum, til auðkenningar og sannprófunar.
Skráðir einstaklingar eiga rétt á að fá vitneskju um upplýsingar um sig í kerfunum. Sá réttur er grundvöllur þess að einstaklingar geti fengið rangar upplýsingar um sig leiðréttar og ranglega skráðar upplýsingar fjarlægðar og er tryggður með Schengen-regluverkinu. Persónuverndarstofnanir Schengen-ríkjanna veita upplýsingar um hvernig haga á beiðni um aðgang í hverju landi fyrir sig. Verði ábyrgðaraðilar ekki við upplýsingabeiðni er hægt að beina kvörtun til persónuverndarstofnunar í því landi. Persónuvernd hefur eftirlit með því að reglum Schengen-samstarfsins um meðferð persónuupplýsinga sé fylgt á Íslandi.
Á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er að finna nánari upplýsingar um VIS-kerfið.