Vinsamlegast athugið að þessi síða er í vinnslu. Unnið er að því að uppfæra leiðbeiningarnar í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um útlendinga með lögum nr. 149/2018.
Áður en sótt er um dvalarleyfi þarf umsækjandi að athuga hvort hann megi vera á Íslandi meðan umsókn hans er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Um þetta gildir 51. gr. laga nr. 80/2016.
Sé umsókn lögð fram hjá Útlendingastofnun fær umsækjandi afhentar leiðbeiningar um þessar reglur. Sé umsókn send í bréfpósti fær umsækjandi senda tilkynningu um ólögmæta dvöl eða synjun frá Útlendingastofnun ef hann hefur ekki heimild til dvalar. Hafi umsækjandi heimild til dvalar er ekki send tilkynning.
Umsækjandi skal sjálfur athuga hvort hann hafi heimild til dvalar og þarf að vera meðvitaður um að vinnsla umsóknar geti verið stöðvuð eða umsókn synjað hafi hann ekki heimild til dvalar á landinu.
Umsækjandi um endurnýjun dvalarleyfis má vera á landinu meðan umsókn er til vinnslu sé sótt um endurnýjun á réttum tíma.
Útlendingur sem þarf ekki vegabréfsáritun til Íslands
Útlendingur sem þarf vegabréfsáritun til Íslands
Útlendingur sem hefur alltaf heimild til dvalar, ef hann er staddur á landinu
Sérstök undanþága fyrir umsækjanda um dvalarleyfi á grundvelli ákveðinnar atvinnuþátttöku
Útlendingur sem leggur of seint fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis
Útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi sækir um dvalarleyfi á öðrum leyfagrundvelli
Afleiðingar þess að leggja fram umsókn þegar umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar meðan umsókn er til vinnslu og/eða umsækjandi er í ólögmætri dvöl
Hvernig veit ég hvort ég hef heimild til dvalar?
Ríkar sanngirnisástæður sem heimild fyrir undanþágu
-
Útlendingur sem þarf ekki vegabréfsáritun til Íslands
Úlendingur sem þarf ekki vegabréfsáritun til Íslands má vera á Íslandi meðan umsókn um dvalarleyfi er til vinnslu. Dvöl á Schengen svæðinu má ekki vera lengri en 90 dagar samtals á sl. 180 daga tímabili. Það þýðir að sé umsækjandi að koma frá öðru Schengen rík ríki þar sem hann hefur dvalist í einhvern tíma telst sá tími með sem dvalartími á Íslandi.
Dæmi: Umsækjandi sem er bandarískur ríkisborgari, sækir um dvalarleyfi vegna náms og hefur dvalist í 50 daga í Danmörku áður en umsókn var lögð fram. Hann kemur til Íslands að sækja um dvalarleyfi og má þá einungis dvelja í 40 daga á Íslandi meðan umsókn hans er tilvinnslu.
Þegar sótt er um dvalarleyfi fyllir umsækjandi út yfirlýsingu þar sem fram kemur hvenær hann kom inn á Schengen svæðinu. Ekki er metið í afgreiðslu Útlendingastofnunar hvort umsækjandi hafi heimild til dvalar. Komi í ljós við vinnslu umsóknar að umsækjandi hafi ekki heimild til dvalar er umsækjanda tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu svo fljótt sem verða má, að meginstefnu innan 30 daga frá framlagningu umsóknar.
-
Útlendingur sem þarf vegabréfsáritun til Íslands
Útlendingur sem þarf vegabréfsáritun til Íslands má ekki koma til landsins eða vera á landinu meðan umsókn um dvalarleyfi er í vinnslu, nema hann falli undir sérstakar undanþágur a-c liðar 1. mgr. 51. gr. útlendingalaga.
Dæmi: Umsækjandi sem er ríkisborgari Filippseyja sækir um dvalarleyfi á grundvelli náms. Hann má ekki vera á landinu meðan umsókn er til vinnslu og skiptir þá ekki máli þó umsækjandi sé með vegabréfsáritun í gildi.
Almennt eru ekki gefnar út sérstakar vegabréfsáritanir til umsækjanda sem óskar eftir að koma til landsins áður en umsókn er afgreidd þrátt fyrir að umsækjandi hafi heimild til dvalar á meðan umsókn er til vinnslu.
-
Útlendingur sem hefur alltaf heimild til dvalar meðan umsókn er í vinnslu, ef hann er þegar staddur á landinu
Ef umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings með ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem telur upp í ótímabundið dvalarleyfi má hann vera staddur á landinu meðan umsókn er til vinnslu.
Sé umsækjandi barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings með ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem telur upp í ótímabundið dvalarleyfi má hann einnig vera staddur á landinu meðan umsókn er til vinnslu. Með barni er átt við einstakling yngri en 18 ára.
Þessir einstaklingar hafa heimild til dvalar þar til dvalarleyfi er veitt eða því synjað. Ekki er gerð krafa um að þeir yfirgefi landið þegar 90 daga dvöl á Schengen svæðinu er náð.
Sé umsækjandi áritunarskyldur verður hann að vera kominn til landsins til að undanþágan gildi. Ekki eru gefnar út vegabréfsáritanir til að nýta þessa undanþágu.
Sé umsækjandi aðstandandi útlendings með dvalarleyfi þarf aðstandandi hér á landi að vera með dvalarleyfi á einhverjum af eftirfarandi grundvöllum:
- Vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
- Fyrir íþróttafólk
- Vegna fjölskyldusameiningar
- Vegna alþjóðlegrar verndar
- Vegna mannúðarsjónarmiða
- Vegna sérstakra tengsla við landið
Athugið að réttur til fjölskyldusameiningar fylgir ekki öllum dvalarleyfum. Sjá nánari upplýsingar um réttindi sem fylgja dvalarleyfum.
Athugið að maki og börn námsmanna hafa ekki heimild til dvalar á landinu meðan umsókn er til vinnslu, þar sem dvalarleyfi fyrir námsmenn er að jafnaði ekki grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
-
Sérstök undanþága fyrir umsækjanda um dvalarleyfi á grundvelli ákveðinnar atvinnuþátttöku
Sérstakar undanþágur um heimild til dvalar gilda um eftirfarandi dvalarleyfi:
- Vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
- Fyrir íþróttamenn
- Vegna samstarfs- og þjónustusamninga
Umsækjandi um eitthvert þessara dvalarleyfa hefur heimild til dvalar á Schengen svæðinu í 90 daga meðan umsókn er til vinnslu eða eins lengi og vegabréfsáritun er í gildi.
Dæmi: Umsækjandi frá Víetnam hefur fengið vegabréfsáritun til Íslands og hefur dvalið á Schengen svæðinu (utan Íslands) í 20 daga þegar hann sækir um dvalarleyfi vegna sérfræðiþekkingar. Hann má vera á landinu í 70 daga meðan umsókn er í vinnslu.
Það er á ábyrgð umsækjanda að yfirgefa landið áður en heimild hans til dvalar rennur út og kynna sér þær reglur sem gilda um afleiðingar þess að yfirgefa ekki landið innan tilskilins tíma.
-
Útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi en leggur of seint fram umsókn um endurnýjun
Ef umsækjandi leggur fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eftir að gildistími dvalarleyfis er útrunninn gilda sömu reglur og ef um fyrstu umsókn væri að ræða. Útlendingastofnun lítur því ekki á umsókn sem endurnýjun dvalarleyfis heldur sem umsókn um fyrsta dvalarleyfi. Það þýðir að umsækjandi gæti þurft að yfirgefa landið eða umsókn gæti verið synjað þrátt fyrir að umsækjandi hafi verið með dvalarleyfi áður.
Sá sem ekki þarf vegabréfsáritun hingað til lands getur dvalist hérlendis í 90 daga frá því dvalarleyfi rennur út ef hann hefur lagt fram umsókn. Einnig sá sem fellur undir a- og b- lið 1. mgr. 51. gr. þ.e. maki og barn.
Engar undanþágur eru frá þessu skilyrði. Það er því mjög mikilvægt fyrir umsækjanda að leggja inn umsókn um endurnýjun á réttum tíma.
Sæki umsækjandi um dvalarleyfi eftir að gildistími dvalarleyfis er liðinn og umsókn er meðhöndluð sem umsókn um fyrsta dvalarleyfi myndast gat í leyfaferli umsækjanda. Það þýðir að umsækjandi byrjar að telja á nýtt upp í þann árafjölda sem þarf til að öðlast ótímabundið dvalarleyfi og ríkisborgararétt.
Dæmi: Umsækjandi hefur haft dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar sem rennur út 30. janúar. Hann leggur fram umsókn eftir að gildistími er útrúnninn, þ.e. 15. febrúar. Þá þarf umsækjandi að yfirgefa landið og litið er á umsókn líkt og um fyrstu umsókn um dvalarleyfi sé að ræða. Það þýðir einnig að umsækjandi þarf að afla fleiri gagna en ef litið væri á umsókn sem endurnýjun.
Útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi sækir um dvalarleyfi á öðrum leyfagrundvelli
Ef umsækjandi ætlar að skipta um dvalarleyfisgrundvöll, t.d. fara af námsmannaleyfi yfir á sérfræðingsleyfi, gilda sérstakar reglur um heimild til dvalar meðan umsókn er í vinnslu. Tvær reglur eru mikilvægastar:
- Umsækjandi þarf að sækja um dvalarleyfi a.m.k 4 vikum áður en fyrra dvalarleyfi rennur út til þess að vera heimilt að dveljast á landinu meðan umsókn er til vinnslu.
- Umsækjandi þarf jafnframt að hafa verið í lögmætri dvöl í 9 mánuði áður en umsókn er lögð fram til að mega vera staddur á landinu þegar skipt er um leyfagrundvöll.
Þeir umsækjendur sem hafa haft dvalarleyfi á eftirfarandi grundvelli hafa ekki heimild til dvalar meðan umsókn er til vinnslu þegar skipt er um leyfagrundvöll. Það gildir þrátt fyrir að sótt sé um nýtt leyfi a.m.k. 4 vikum áður en fyrra leyfi rennur út og að umsækjandi hafi verið í lögmætri dvöl í 9 mánuði:
- Á grundvelli samstarfs- og þjónustusamnings
- Á grundvelli samninga við önnur ríki
- Trúboðar
- Sjálfboðaliðar
- Vistráðning (Au-pair)
Það athugast að fyrrgreindar reglur eiga ekki við þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar og geta þeir umsækjendur dvalist á landinu þrátt fyrir að uppfylla ekki fyrrgreind tímaskilyrði.
Afleiðingar þess að leggja fram umsókn þegar umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar meðan umsókn er til vinnslu og/eða umsækjandi er í ólögmætri dvöl
Mismunandi reglur gilda eftir því hvaða heimild umsækjandi hefur til dvalar. Afleiðingarnar eru að umsækjandi þarf að yfirgefa landið meðan umsókn er í vinnslu eða umsókn er synjað. Athugið að þessar reglur gilda líka ef sótt er um endurnýjun dvalarleyfis eftir að gildistími fyrra leyfis rennur út.
Umsókn er lögð fram í lögmætri dvöl en dvöl verður ólögmæt meðan umsókn er í vinnslu:
Þetta getur gerst ef umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli vegabréfsáritunar eða þarf ekki vegabréfsáritun til landsins. Dvöl verður ólögmæt þegar sá tími sem umsækjandi hefur til dvalar er útrunninn.
Umsækjandi þarf að yfirgefa landið, vinnsla umsóknar er stöðvuð og umsækjandi fær tilkynningu um að hann sé í ólögmætri dvöl. Umsækjanda er tilkynnt um þetta bréflega og skal leggja fram staðfestingu á brottför og yfirgefa landið innan 15 daga frá því að honum barst tilkynningin. Fari umsækjandi ekki innan þess frests sem honum er veittur er umsókn synjað innan 30 daga frá því dvöl varð ólögmæt. Það er því mjög mikilvægt fyrir umsækjanda að yfirgefa landið eins og leiðbeint er um.
Undantekning frá framangreindu er veitt þegar umsækjandi sækir um dvalarleyfi sem byggir á atvinnu og Útlendingastofnun hefur þegar sent atvinnuleyfisumsókn til afgreiðslu Vinnumálastofnunar áður en dvöl varð ólögmæt. Er umsækjanda þá ekki tilkynnt um ólögmæta dvöl heldur dvalarleyfi veitt eða synjað þegar niðurstaða berst frá Vinnumálastofnun.
Umsókn er lögð fram í lögmætri dvöl en umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar á meðan umsókn um dvalarleyfi er til vinnslu
Dvalarleyfisumsókn er synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar meðan umsókn er til vinnslu.
Dæmi: Umsækjandi er áritunarskyldur, t.d. frá Filippseyjum og sækir um dvalarleyfi á grundvelli náms eða vistráðningar meðan hann er hér staddur með gilda vegabréfsáritun. Umsókn er synjað vegna þess að umsækjendur um vistráðningu eða nám hafa ekki heimild til dvalar á landinu meðan umsókn er í vinnslu ef þeir eru áritunarskyldir.
Umsókn er lögð fram í ólögmætri dvöl eða umsækjandi kemur til landsins án þess að hafa heimild til dvalar meðan umsókn er til vinnslu:
Dvalarleyfisumsókn er synjað ef umsækjandi er í ólögmætri dvöl eða kemur til landsins án þess að hafa heimild til dvalar meðan umsókn er í vinnslu.
Dæmi 1: Umsækjandi sem hefur dvalist lengur en 90 daga á Schengen svæðinu þegar hann leggur fram umsókn getur þurft að yfirgefa landið þó hann falli undir a- eða b- lið 1. mgr. 51. gr.
Dæmi 2: Umsækjandi hefur sótt um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar og sent umsókn í bréfpósti. Hann kemur til landsins á vegabréfsáritun áður en dvalarleyfi er gefið út. Dvalarleyfisumsókn er synjað þar sem hann hefur ekki heimild til að koma til landsins áður en leyfið var veitt.
Dveljist umsækjandi hér á landi í ólögmætri dvöl getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands og alls Schengen svæðisins.
-
Hvernig veit ég hvort ég hef heimild til dvalar
Í afgreiðslu Útlendingastofnunar eru ekki gefnar upplýsingar um hvort viðkomandi hafi heimild til dvalar þegar umsókn er lögð fram. Ástæða þess er að ekki er öruggt að allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir og hætta er á að rangar upplýsingar séu gefnar.
Mælt er með að umsækjandi kynni sér vel þær reglur sem fram koma hér að framan. Nokkrir mikilvægir punktar geta verið til viðmiðunar:
- Ef þú hefur ekki dvalarleyfi á landinu hefur þú í mesta lagi heimild til dvalar í 90 daga.
- Ef þú hefur dvalist lengur á landinu eða Schengen svæðinu eru miklar líkur á að þú hafir ekki heimild til dvalar.
- Stimplar í vegabréfi geta verið til vísbendingar um heimilan dvalartíma.
- Þú þarft að skoða hvort þú þarft vegabréfsáritun til landsins.
- Þú þarft að skoða hvort sérreglur gildi um það dvalarleyfi sem þú ætlar að sækja um.
- Ef þú ert í vafa um heimild til dvalar skalt þú hafa samband við Útlendingastofnun áður en umsókn er lögð fram.
-
Ríkar sanngirnisástæður sem heimild fyrir undanþágu
Heimilt er að veita undanþágu frá reglum um dvöl meðan umsókn er til vinnslu ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
Undanþágur eru einungis veittar ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Miklir hagsmunir þurfa að vera í húfi fyrir umsækjanda eða óviðráðanlegar ytri aðstæður að varna brottför. Um getur verið að ræða að fjölskylduaðstæður séu sérstakar, veikindi eða slys umsækjanda eða fjölskyldu, náttúruhamfarir eða stríðsástand.
Eftirfarandi tilvik geta almennt ekki verið grundvöllur fyrir veitingu undanþágu:
- Óþægindi sem hljótast af því að þurfa að yfirgefa landið.
- Tímaskortur.
- Efnahagslegar ástæður, t.d. kostnaður við flugmiða eða húsnæði.
- Það að umsækjandi sé kominn með atvinnu hér á landi og atvinnurekandi óski þess að hann hefji störf.
- Að skóli sem umsækjandi ætli að stunda sé hafinn.
- Það að umsækjandi hafi gleymt að sækja um dvalarleyfi eða að hann þyrfti að yfirgefa landið.
- Misskilningur varðandi reglur um heimild til dvalar.
- Að umsækjanda hafi verið synjað um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd.
Umsóknir um undanþágu á grundvelli ríkra sanngirnisástæðna eru metnar í hvert og eitt skipti og er ekki hægt að gefa niðurstöðu fyrirfram.
Sækja skal um undanþágu frá skyldu til að yfirgefa landið þegar umsókn er lögð fram eða svo fljótt sem ljóst er að umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar samkvæmt almennum reglum.