• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
      • Tungumálastefna
      • Persónuverndarstefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
      • Dvalarleyfi
      • Alþjóðleg vernd
      • Vegabréfsáritanir
      • Íslenskur ríkisborgararéttur
      • Túlkanir og þýðingar
      • Upplýsingar fyrir ríkisborgara Úkraínu
    • Hafa samband
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Hafa samband
  • Algengar spurningar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Grunnskilyrði

Grunnskilyrði dvalarleyfis

Grunnskilyrði dvalarleyfis koma fram í 55. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Uppfylla þarf öll grunnskilyrði dvalarleyfis, sama hvaða dvalarleyfi sótt er um, nema sérstaklega sé tekið fram að ekki þurfi að uppfylla ákveðið skilyrði.

Athugið að ekki þarf að leggja fram gögn um öll grunnskilyrði dvalarleyfis við endurnýjun leyfisins. 

Til að geta fengið dvalarleyfi á Íslandi þarft þú

  • Að leggja fram öll nauðsynleg gögn í því formi sem krafist er.
  • Að geta sannað á þér deili með gildu vegabréfi eða öðru gildu kennivottorði sem jafnframt er gilt ferðaskilríki.
  • Að uppfylla skilyrði framfærslu.
  • Vera sjúkratryggður á Íslandi.
  • Hafa dvalarstað á Íslandi.
  • Leggja fram sakavottorð, nema tekið sé fram að þess sé ekki krafist.
  • Uppfylla sérstök skilyrði þess dvalarleyfis sem sótt er um.

Þú mátt ekki

  • Sleppa því að leggja fram umbeðin gögn.
  • Hafa þegið greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar.
  • Hafa brot á sakaskrá eða opin mál í refsivörslukerfinu sem geta varðað meira en 3 mánaða fangelsi.
  • Gefa rangar upplýsingar um tilgang dvalar.


Framfærsla

Upphæð framfærslu

Tímabil framfærslu

Hverjir þurfa ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu

Hvernig er sýnt fram á trygga, fullnægjandi framfærslu

Ráðningarsamningur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Nægilegt eigið fé til framfærslu
Námsstyrkur eða námslán

Hvað telst ekki fullnægjandi framfærsla

Heimild til að víkja frá kröfu um fullnægjandi framfærslu við endurnýjun dvalarleyfis

Sjúkratrygging

Sakavottorð

Læknisskoðun

Tilkynning um dvalarstað

Myndataka

Umsækjandi uppfylli skilyrði dvalarleyfis samkvæmt öðrum ákvæðum laganna


  

Framfærsla

Skilyrði um trygga framfærslu kemur fram í 56. gr. laga um útlendinga.

Gerð er krafa um að framfærsla umsækjanda sé sjálfstæð. Samkvæmt íslenskum lögum hafa foreldrar þó skyldu til að hafa ólögráða börn sín á framfæri, því þarf ekki að sýna fram á sérstaka framfærslu fyrir börn yngri en 18 ára.

Framfærsluskylda ríkir einnig milli hjóna og því nægir að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða. Í öðrum tilvikum er ekki um lagaskyldu til framfærslu að ræða.

Framfærsla umsækjanda um dvalarleyfi, sem ekki er hjúskaparmaki eða barn, er því ekki trygg nema hann geti sýnt fram á sína eigin sjálfstæðu framfærslu.

Upphæð framfærslu

Útlendingastofnun miðar lágmarksframfærslu við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.

  • Einstaklingur 212.694 kr. á mánuði.
  • Hjón 340.320 kr. á mánuði. Athugið að um sambúðarmaka gildir framfærsluviðmið fyrir einstakling.
  • Viðbótarframfærsla vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri 106.346 kr. á mánuði.

Tímabil framfærslu

Framfærsla útlendings þarf að vera trygg á gildistíma dvalarleyfis. Það þýðir að verði dvalarleyfi gefið út til eins árs þarf að sýna fram á trygga framfærslu fyrir eitt ár.

Hverjir þurfa ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu

Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í eftirfarandi undantekningartilvikum:

  • Maki Íslendings eða erlends ríkisborgara. Vegna framfærsluskyldu milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða. Athugið að sambúð er ekki jafngild hjúskap að þessu leyti, ekki er framfærsluskylda milli sambúðarfólks og þarf umsækjandi í sambúð því að sýna sjálfstæða framfærslu.

  • Barn yngra en 18 ára sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsettur er hérlendis.

  • Einstaklingur eldri en 18 ára sem haft hefur samfellt dvalarleyfi hér á landi sem barn, stundar nám eða störf hér á landi og býr hjá foreldri. Jafnframt er skilyrði að umsækjandi sé hvorki í hjúskap né sambúð. Það athugist að framfærsluviðmið hér er 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, þ.e. 106.346 kr. á mánuði, til viðbótar við þá framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að sýna fram á fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.

  • Foreldri 67 ára eða eldra sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi. Það athugist að framfærsluviðmið hér er 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, þ.e. 106.346 kr. á mánuði, til viðbótar við framfærslu annara fullorðinna einstaklinga á heimilinu.

  • Vistfjölskylda þarf að sýna fram á framfærslu fyrir au pair. Viðbótarframfærsla miðast við 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, þ.e. 103.855 kr. auk launakostnaðar au-pair að upphæð 60.000 kr. fyrir hverjar fjórar vikur í starfi.

Hvernig er sýnt fram á trygga fullnægjandi framfærslu

Framfærsla getur stuðst við fleiri en einn þátt, t.d. bæði launatekjur og eigið fé eins og bankareikninga.

Ráðningarsamningur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi

Ef umsækjandi stundar atvinnu á Íslandi getur hann sýnt fram á framfærslu með því að leggja fram ráðningarsamning í frumriti. Ef dvalarleyfi byggir á atvinnu þarf auk ráðningarsamnings að berast umsókn um atvinnuleyfi. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings getur hann lagt fram ráðningarsamning viðkomandi. Það athugist að heimild erlends ríkisborgara til að framfleyta öðrum á grundvelli sjálfstæðrar atvinnustarfsemi er takmörkuð. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 getur eingöngu útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi sem og maki íslensks ríkisborgara.

Launaseðlar síðustu þriggja mánaða og staðgreiðsluyfirlit launa

Umsækjandi getur sýnt fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum auk launaseðla síðustu þriggja mánaða. Launaseðlar, útprentun úr heimabanka er fullnægjandi ella þarf staðfestingu launagreiðanda. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings þarf sá aðili að leggja fram launaseðla síðustu þriggja mánaða sem fullnægja sömu skilyrðum og hér hafa verið talin upp sem og staðgreiðsluyfirlit þess einstaklings.

Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu

Slíkar greiðslur geta verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær t.d. vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi talningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.

Nægilegt eigið fé til framfærslu

Innstæða umsækjanda eða framfæranda á bankareikningi, hérlendis eða erlendis, sem er í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu á dvalartíma. Yfirlit banka um fjárhæð inneignar þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting.

Námsstyrkur eða námslán

Hafi umsækjandi fengið styrk til náms eða námslán teljast þær greiðslur til fullnægjandi framfærslu nái þær þeirri lágmarksupphæð sem krafist er. Námslán eða námsstyrkur þarf að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands. Leggja þarf fram staðfestingu á lánagreiðslum frá viðeigandi lánastofnun og staðfestingu á styrk frá styrkveitanda eftir því sem við á.

Hvað telst ekki fullnægjandi framfærsla

Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags (aðrar en húsaleigubætur) eru ekki trygg framfærsla. Hafi umsækjandi þegið slíkan styrk og getur ekki sýnt fram á fullnægjandi framfærslu með öðrum hætti, verður dvalarleyfi synjað.

Meðlagsgreiðslur og barnalífeyrir teljast ekki til tryggrar framfærslu þar sem þeim er ætlað að standa undir framfærslu barns.

Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun, er ekki trygg framfærsla.

Eignir aðrar en bankainnstæður teljast ekki trygg framfærsla (t.d. fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar teljast ekki til tryggrar framfærslu.

Reiðufé telst ekki fullnægjandi staðfesting á framfærslu.

Heimild til að víkja frá kröfu um fullnægjandi framfærslu við endurnýjun dvalarleyfis

Ef framfærsla hefur verið ótrygg um stuttan tíma er heimilt að víkja frá þessu skilyrði við endurnýjun dvalarleyfis. Til dæmis ef umsækjandi hefur fengið félagsaðstoð í nokkra mánuði, hefur hlotið fæðingarstyrk eða lent í slysi. Útlendingastofnun metur hvort undanþága vegna framfærslu er veitt.

Óski umsækjandi eftir undanþágu frá skilyrði um framfærslu þarf að leggja fram greinargerð með umsókn og gögn til stuðnings beiðni, t.d. læknisvottorð.

Athugið að þessi undanþága er einungis veitt við endurnýjun dvalarleyfis, ekki þegar sótt er um dvalarleyfi í fyrsta skipti.

Sjúkratrygging

Leggja þarf fram staðfestingu frá tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu til sex mánaða að lágmarksupphæð 2.000.000 kr.

Íslensk tryggingafélög senda staðfestingu á sjúkratryggingu beint til Útlendingastofnunar þegar hún hefur verið samþykkt og greidd (sjá lista yfir félögin á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, undir liðnum Vátryggingafélög). Hafi sjúkratrygging verið keypt af erlendu tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi þarf umsækjandi sjálfur að leggja fram staðfestingu. Fjármálaeftirlitið heldur skrá yfir erlend vátryggingafélög (sjá lista yfir félögin á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, undir liðnum Erlend vátryggingafélög). Það athugist að Útlendingastofnun hefur enga aðkomu að því hvaða erlendu vátryggingafélög hafa starfsleyfi hér á landi.

Gildistími tryggingarinnar þarf að vera minnst 6 mánuðir frá skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Skráning í þjóðskrá miðast að öllu jöfnu við þá dagsetningu sem umsækjandi kemur til myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumanni vegna útgáfu dvalarskírteinis, hafi hann dvalið hér á landi samfellt frá því að myndatakan fór fram. Sé ljóst að breyta þurfi gildistíma íslenskrar tryggingar, t.d. vegna þess að umsækjandi er ekki kominn til landsins og vinnslutími umsóknar er lengri en áætlað var, þarf umsækjandi að hafa samband við tryggingafélagið vegna þessa.

Þegar sex mánuðir eru liðnir frá lögheimilisskráningu hefur umsækjandi áunnið sér rétt til að vera sjúkratryggður hér á landi samkvæmt almannatryggingakerfi Íslands. Börn og unglingar, yngri en 18 ára, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum eða forsjármönnum sem hafa verið skráðir með lögheimili hér á landi í a.m.k. sex mánuði og er því ekki þörf á að kaupa sérstaka sjúkratryggingu fyrir börn sem flytja til foreldra sinna. Sama gildir um kjörbörn, stjúpbörn og fósturbörn. Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir þurfa að greiða hærra gjald fyrir heilbrigðisþjónustu.

Frekari upplýsingar er að finna á vef Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands.
 

Sakavottorð

Þegar sótt er um dvalarleyfi mega ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að umsækjanda verði meinuð landganga. Þau tilvik eru talin í 98. og 106. gr. laganna og eru þau sömu og geta valdið brottvísun og frávísun frá landinu.

Til að sýna fram á að þetta skilyrði sé uppfyllt er þess krafist að umsækjandi leggi fram sakavottorð frá búseturíki. Sakavottorð má ekki vera eldra en 12 mánaða þegar það er lagt fram miðað við dagsetningu umsóknar. Heimilt er að leggja fram afrit af sakavottorði og ekki er gerð krafa um að það sé lögformlega staðfest. Ef ástæða er til getur Útlendingastofnun óskað eftir frekari gögnum um sakaferil.

Mismunandi reglur geta gilt um útgáfu sakavottorða eftir löndum.

Læknisskoðun

Umsækjendur frá tilteknum ríkjum þurfa að samþykkja að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda, sjá verklagsreglur Landlæknisembættisins. Ef ekki er farið í læknisskoðun þegar þess er krafist af landlæknisembættinu, verður dvalarleyfi ekki gefið út og aðgengi umsækjanda að almannatryggingarkerfi o.f.l. verður ekki virkt. Jafnframt verður dvöl ólögmæt og má umsækjandi eiga von á frávísun eða brottvísun.

Í læknisskoðun er skimað fyrir ákveðnum sjúkdómum. Það að umsækjandi greinist með einhverja af þeim sjúkdómum leiðir ekki til synjunar dvalarleyfis heldur er skoðuninni ætlað að uppfylla skilyrði heilbrigðisyfirvalda til þess að unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana og læknismeðferða.

Tilkynning um dvalarstað

Áður en dvalarleyfi er gefið út þarf lögheimili umsækjanda að vera skráð hjá Þjóðskrá Íslands.

Ef umsækjandi skráði ekki lögheimili sitt á umsókn um dvalarleyfi þarf hann að tilkynna dvalarstað sinn til skráningar á sérstöku eyðublaði áður en hægt er að gefa út dvalarskírteini.

Myndataka

Eftir veitingu dvalarleyfis þarf umsækjandi að koma í myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins. Umsækjandi þarf að hafa eigið vegabréf meðferðis til að sýna fram á hver hann er.

Myndataka er nauðsynleg til þess að hægt sé að gefa út dvalarleyfiskort og ljúka útgáfu dvalarleyfisins. Panta þarf tíma í myndatöku í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða mæta til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis á opnunartíma.

Ef ekki er mætt til myndatöku verður dvalarleyfi ekki gefið út og aðgengi umsækjanda að almannatryggingarkerfi o.fl. verður ekki virkt. Jafnframt verður dvöl ólögmæt og má umsækjandi eiga von á frávísun eða brottvísun.

Umsækjandi uppfylli skilyrði dvalarleyfi samkvæmt öðrum ákvæðum laganna

Umsækjandi þarf að uppfylla sérstök skilyrði þess dvalarleyfis sem sótt er um, sjá hér yfirlit yfir tegundir dvalarleyfa.

Önnur skilyrði dvalarleyfis eru til viðbótar við þau grunnskilyrði sem hér hafa verið talin upp. Sem dæmi má nefna að umsækjandi um dvalarleyfi vegna náms þarf að sýna fram á skráningu í skóla og umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þarf að sýna staðfestingu á hjúskap.

  • Hverjir þurfa dvalarleyfi?
  • Ferill umsókna
    • Útgáfustaðir D-áritana
  • Afgreiðslutími og umsóknir í vinnslu
  • Langtímavegabréfsáritun
  • Langtímavegabréfsáritun fyrir fólk í fjarvinnu og aðstandendur þess
  • Fjölskyldusameining
  • - Maki eða sambúðarmaki
  • - Barn
  • - Foreldri 67 ára og eldri
  • - Foreldri barns yngra en 18 ára
  • Atvinnuleyfi
    • Flýtimeðferð
  • Nám
    • Endurnýjun og námsárangur
  • Vistráðning / au-pair
  • Vinnudvöl fyrir ungt fólk
  • Sjálfboðaliðar
  • Trúboðar
  • Lögmætur tilgangur
  • Sérstök tengsl við Ísland
  • Ríkisborgarar EES/EFTA og aðstandendur þeirra
    • EES og EFTA ríkin
  • Ótímabundið dvalarleyfi
  • Réttindi
  • Grunnskilyrði
  • Gagnakröfur
    • FBI sakavottorð
  • Heimild til dvalar
  • Synjun umsóknar um dvalarleyfi
  • Afturköllun dvalarleyfis
  • Algengar spurningar
  • Brottvísun og endurkomubann

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • New in Iceland
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd
  • Persónuverndarstefna

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til föstudaga 9 - 14

Símaþjónusta:
Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

444 0900

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hrmonitor 2021