Það eru tvær leiðir til að nálgast FBI sakavottorð. Annars vegar með því að póstleggja beiðni til FBI og fá útgefið sakavottorð sent til umsækjanda í bréfpósti og hins vegar með því að sækja um rafrænt sakavottorð beint frá FBI eða hjá sérstökum veitum sem samþykktar hafa verið af FBI. Það tekur styttri tíma að fá sakavottorð útgefið rafrænt með aðstoð slíkra veitna. Á heimasíðu FBI hefur verið tekinn saman listi yfir þær veitur sem samþykktar hafa verið af FBI. Hafa þarf í huga að vottorð frá sumum veitum er ekki hægt að opna utan Bandaríkjanna og því ekki hægt að nota þjónustu þeirra til að skila sakavottorði til Útlendingastofnunar.
Í báðum tilfellum þarf umsækjandi að láta taka af sér fingraför og senda þau með beiðni um sakavottorð. Hér á landi eru fingraför tekin af umsækjanda hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.