Fylgigögn umsóknar
Með umsókn um dvalarleyfi skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem fram koma í lögum og reglugerð um útlendinga og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Upplýsingar um fylgigögn hverrar umsóknar má finna í umfjöllun um hvert dvalarleyfi fyrir sig.
Umsækjandi skal sjálfur afla nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Útlendingastofnun ber ekki að afla gagna sem vantar með umsókn. Útlendingastofnun er þó heimilt að afla upplýsinga og gagna í tengslum við umsókn telji stofnunin það nauðsynlegt við vinnslu umsóknar.
Form fylgigagna
Fylgigögn dvalarleyfisumsókna skulu vera á því formi sem Útlendingastofnun gerir kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin metur nauðsynlegan. Hér á eftir er fjallað um helstu atriði sem varða form fylgigagna.
- Umsókn um dvalarleyfi. Umsækjandi skal leggja fram viðeigandi eyðublað fyrir dvalarleyfi, sem Útlendingastofnun hefur útgefið. Eyðublaðið skal leggja fram í frumriti, og vera vel útfyllt og undirritað af umsækjanda. Umboðsmanni er ekki heimilt að skrifa undir umsókn. Eyðublað sem fyllt er út með blýanti eða blýpenna telst ekki vera gild umsókn, þar sem slíkar umsóknir uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru vegna skjalavörslu.
- Frumrit fylgigagna eða staðfest afrit. Almennt er gerð krafa um að fylgigögn umsóknar séu lögð fram í frumriti. Sakavottorð skal alltaf leggja fram í frumriti, en önnur vottorð (s.s. fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, forsjárgögn, o.s.frv.) er heimilt að leggja fram í staðfestu afriti.
Með staðfestu afriti vottar opinbert stjórnvald sem til þess hefur heimild (ýmist útgáfuaðili vottorðins eða annar opinber aðili) að tekið hafi verið afrit af frumgagninu. Staðfestingin felur ekki í sér efnislega staðfestingu á innihaldi vottorðsins. Mikilvægt er að vottorð hafi fengið lögformlega staðfestingu (sjá hér að neðan) áður en tekið er af þeim staðfest afrit.
Fylgigögn sem eru skönnuð og send í tölvupósti teljast ekki vera gild, né heldur óstaðfest afrit frumgagna.
- Lögformleg staðfesting vottorða. Gerð er krafa um að frumrit erlendra vottorða sem lögð eru fram með umsókn séu lögformlega staðfest, þ.e. að staðfest hafi verið að þar til bært stjórnvald í útgáfulandi hafi gefið skjalið út eða staðfest það. Lögformleg staðfesting felur ekki í sér efnislega staðfestingu á innihaldi vottorðsins. Tvær viðurkenndar leiðir eru til þess að staðfesta vottorð og önnur skjöl lögformlega, apostille vottun og tvöföld staðfesting. Hvor leiðin er farin ræðst af útgáfulandi vottorðsins.
- Apostille vottun er gerð í útgáfulandi skjalsins, og þarf því að koma frumriti vottorðsins til stjórnvalds sem veitir slíka vottun í útgáfulandinu. Aðeins er hægt að fá apostille vottun í þeim ríkjum sem eru aðilar að Haag samningnum um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala.
- Tvöföld staðfesting (einnig kallað keðjustimplun). Í þeim löndum þar sem ekki er hægt að fá apostille vottun, þarf að útvega tvöfalda staðfestingu á vottorðið. Það þýðir að vottorðið þarf tvo stimpla til að geta talist lögformlega staðfest. Annan frá utanríkisráðuneyti þess lands sem gaf vottorðið út og hinn frá sendiráði útgáfulandsins sem hefur fyrirsvar gagnvart Íslandi. Umsækjandi þarf þá að koma frumriti vottorðsins til utanríkisráðuneytis í útgáfulandinu til að fá fyrri staðfestinguna, og því næst til viðeigandi sendiráðs til að fá seinni staðfestinguna.
- Aðrar vottanir geta einnig átt við.
- Dæmi um vottorð sem þurfa að vera staðfest með apostille vottun eða tvöfaldri staðfestingu, eftir því sem við á:
- Sakavottorð
- Hjúskaparvottorð
- Hjúskaparstöðuvottorð
- Sambúðarvottorð
- Fæðingarvottorð
- Forsjárgögn
- Skilnaðargögn
- Dánarvottorð
- Apostille vottun er gerð í útgáfulandi skjalsins, og þarf því að koma frumriti vottorðsins til stjórnvalds sem veitir slíka vottun í útgáfulandinu. Aðeins er hægt að fá apostille vottun í þeim ríkjum sem eru aðilar að Haag samningnum um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala.
- Skjalaþýðingar. Sé vottorð gefið út á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli, þarf að leggja fram frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda. Erlend vottorð má þýða yfir á íslensku, ensku eða Norðurlandatungumál, og leita má til löggilts skjalaþýðanda bæði hér á landi og erlendis. Sé leitað til skjalaþýðanda erlendis þarf lögformlega staðfestingu á frumrit skjalaþýðingar.
- Vottaðar yfirlýsingar. Í sumum tilvikum þarf umsækjandi að leggja fram vottaða yfirlýsingu. Dæmi um slíkt er þegar leggja þarf fram samþykkisyfirlýsingu þess forsjárforeldris sem ekki hyggst sækja um dvalarleyfi á Íslandi ásamt hinu forsjárforeldri og barni þeirra. Gerð er krafa um að yfirlýsingar séu lagðar fram í frumriti og séu dagsettar og undirritaðar af þeim aðila sem gefur yfirlýsinguna. Þá þarf yfirlýsingin að vera vottuð af opinberum aðila, t.d. af lögbókanda (þ.e. notarius publicus).
- Sérstök skilyrði fyrir ákveðin fylgigögn.
- Forsjárgögn
- Skilyrði er að forsjárgögn séu ekki eldri en 6 mánaða þegar þau eru lögð fram hjá Útlendingastofnun. Séu gögnin eldri þarf staðfestingu útgáfuaðila forsjárgagnanna á því að þau séu enn í gildi.
- Skilyrði er að forsjárgögn séu ekki eldri en 6 mánaða þegar þau eru lögð fram hjá Útlendingastofnun. Séu gögnin eldri þarf staðfestingu útgáfuaðila forsjárgagnanna á því að þau séu enn í gildi.
- Sakavottorð
- Leggja þarf fram sakavottorð sem nær yfir síðustu fimm ár. Hafi umsækjandi búið í fleiri en einu landi á síðustu fimm árum, þarf að leggja sakavottorð frá hverju og einu landi þar sem umsækjandi hefur verið búsettur.
- Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða þegar það er lagt fram hjá Útlendingastofnun.
- Mismunandi reglur geta gilt um útgáfu sakavottorða eftir löndum. Sakavottorð þarf að vera gefið út af æðsta yfirvaldi lands sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð, eða öðru yfirvaldi í því landi sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð. Vottorðið þarf að sýna að leitað hafi verið í gagnagrunnum alls landsins en ekki einungis á ákveðnum svæðum (t.d. ríkjum eða fylkjum).
- Dæmi um réttmætan útgefanda:
- Bandaríkin – FBI sakavottorð (nánari upplýsingar um öflun FBI sakavottorðs)
- Kanada – RCMP sakavottorð
- Filippseyjar – NBI sakavottorð
- Taíland – Royal Thai Police
- Brasilía – Ministério da Justica – Polícia Federal
- Mexíkó – CNS sakavottorð
- Komi fram dómur á sakavottorði umsækjanda, þarf umsækjandi einnig að leggja fram staðfest gögn frá yfirvöldum um hvort og hvenær umsækjandi hafi lokið afplánun.
- Athugið að oft tekur nokkurn tíma að fá útgefið sakavottorð og viðeigandi staðfestingu.
- Framfærslugögn.
- Mögulegt er að sýna fram á fullnægjandi framfærslu með fleiri en einum hætti. Gerð er sú krafa að framfærslugögn séu lögð fram í frumriti og staðfest af atvinnurekanda eða þeirri stofnun sem er útgefandi þeirra.
- Leggja má fram útprentun á launaseðlum úr heimabanka, annars þurfa launaseðlar að vera staðfestir af atvinnurekanda.
- Yfirlit banka um fjárhæð inneignar þarf að vera í frumriti, staðfest af viðeigandi banka, og í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting.
- Yfirlit yfir námsstyrk eða námslán þarf að vera í frumriti, staðfest af viðeigandi lán- eða styrkveitanda, og í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands.
- Forsjárgögn