Dvalarleyfið er veitt á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Dvalarleyfið er veitt einstaklingi 67 ára eða eldri, eigi viðkomandi uppkomið barn hér á landi og sé ætlunin að flytjast til landsins. Skilyrði er að barn viðkomandi sé íslenskur eða norrænn ríkisborgari, eða erlendur ríkisborgari með ótímabundið dvalarleyfi eða með tímabundið dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, fyrir íþróttafólk, á grundvelli hjúskapar eða sambúðar, alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið.
Þú gætir átt rétt á dvalarleyfi sem foreldri ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, ásamt fleirum
- þú ert 67 ára eða eldri og átt uppkomið barn hér á landi,
- barnið sem er búsett hér á landi er íslenskur eða norrænn ríkisborgari, eða erlendur ríkisborgari með ótímabundið dvalarleyfi eða erlendur ríkisborgari sem dvelst hér á grundvelli dvalarleyfis sem talið er upp hér að ofan,
- getur sýnt fram á að þú getir framfleytt þér á dvalartíma,
- ert sjúkratryggð(ur) hjá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög),
- hefur ekki afplánað refsingu erlendis á síðustu 5 árum eða verið dæmd(ur) til lengri refsingar en sem samsvarar 3 mánaða fangelsi samkvæmt íslenskum lögum,
- fjölskyldumeðlimur þinn hér á landi hefur ekki á síðustu 5 árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum (nema undanþága eigi við),
- átt vegabréf þar sem gildistími er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis, og
- samþykki fjölskyldumeðlims hér á landi fyrir útgáfu leyfis liggur fyrir.
Þú mátt ekki
- byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt,
- vinna fyrir annan atvinnurekanda en þann sem atvinnuleyfið var veitt til,
- vera lengur frá landinu en 90 daga á hverju 12 mánaða tímabili á meðan leyfið er í gildi, annars getur dvalarleyfið verið fellt niður eða afturkallað.
Umsókn um dvalarleyfi og atvinnuleyfi (ef við á) og önnur fylgigögn skulu lögð fram hjá Útlendingastofnun eða sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og þegar hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram. Slíkri umsókn verður synjað.
Ef umsækjandi uppfyllir ekki þessi skilyrði og þau skilyrði sem fjallað er um neðar verður dvalarleyfi synjað og umsækjandi þarf að yfirgefa landið. Yfirgefi umsækjandi ekki landið getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Endurkomubann felur í sér bann við endurkomu á Schengen-svæðið um ákveðinn tíma eða að lágmarki 2 ár.
Það er á ábyrgð umsækjanda að sækja um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar.
Nánar um dvalarleyfi fyrir foreldra 67 ára og eldri
Umsækjandi um dvalarleyfi fyrir foreldri sem á uppkomið barn hér á landi þarf að uppfylla öll grunnskilyrði dvalarleyfis skv. 1. mgr. 55. gr. útlendingalaga og grunnskilyrði fjölskyldusameiningar skv. 69. gr. laganna.
Réttindi sem fylgja leyfinu
Umsókn um fyrsta leyfi
Endurnýjun
Réttindi sem fylgja dvalarleyfinu eru eftirfarandi
- Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og á meðan það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu, svo lengi sem samfelld dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar. Umsókn sem berst frá umsækjanda sem ekki hefur ofangreindar heimildir til dvalar verður synjað.
- Umsækjandi þarf að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi ætli viðkomandi að stunda vinnu hér á landi. Umsækjanda er ekki heimilt að byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt.
- Dvalarleyfið er að jafnaði veitt til eins árs í senn, en að hámarki í tvö ár. Það getur þó aldrei gilt lengur en leyfi þess sem umsækjandi leiðir rétt sinn af.
- Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið að hámarki í tvö ár, séu skilyrði leyfis enn uppfyllt, en þó getur leyfið aldrei gilt lengur en leyfi þess sem umsækjandi leiðir rétt sinn af.
- Dvalarleyfið veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar.
- Dvalarleyfið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
- Einstaklingur sem hefur haft hér samfellda og löglega búsetu síðustu sjö ár fyrir framlagningu umsóknar, getur átt rétt á íslenskum ríkisborgararétti að uppfylltum öðrum skilyrðum.
Umsókn um fyrsta leyfi
Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu, svo lengi sem samfelld dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar.
Með umsókn skulu fylgja öll þau gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt.
Gögn sem umsækjandi þarf að leggja fram
- Greiðslukvittun (ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka). Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið nafn umsækjanda, fæðingardag og fæðingarár í tilvísun.
- Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út).
Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda. Mikilvægt er að umsækjandi greini frá dvalarstað sínum hér á landi. Liggi heimilisfang ekki fyrir skal umsækjandi leggja fram tilkynningu um dvalarstað eftir að umsækjandi kemur til landsins (t.d. við myndatöku). - Passamynd (35mm x 45mm).
- Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
- Staðfest frumrit erlends sakavottorðs. Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða. Leggja þarf fram sakavottorð frá öllum þeim löndum þar sem umsækjandi hefur búið síðustu 5 ár. Sakavottorð skulu gefin út af æðsta yfirvaldi lands sem heimilt er að gefa út slík vottorð. Athugið að krafist er vottunar sakavottorðs, þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á sakavottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille vottunar eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
- Sjúkrakostnaðartrygging. Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar frá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög). Tryggingin skal gilda í 6 mánuði frá skráningu umsækjanda í þjóðskrá og vera að lágmarki 2.000.000 kr. Skráning í þjóðskrá miðast að öllu jöfnu við þá dagsetningu sem umsækjandi kemur til myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumanni vegna útgáfu dvalarskírteinis, hafi hann dvalið hér á landi samfellt frá því að myndatakan fór fram.
- Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma. Geti umsækjandi ekki sýnt fram á sjálfstæða framfærslu, er barni umsækjanda heimilt að leggja fram gögn sem sýna fram á trygga framfærslu umsækjanda.
- Staðfest afrit af fæðingarvottorði barns á Íslandi. Athugið að krafist er vottunar á frumrit fæðingarvottorðs (ef það er útgefið erlendis), þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun. Afritið þarf að vera stimplað af opinberu yfirvaldi sem hefur til þess heimild.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e. apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
Gögn sem er heimilt að leggja fram
- Umsókn um atvinnuleyfi vegna fjölskyldusameiningar og ráðningarsamningur, ef við á. Atvinnuleyfisumsókn og ráðningarsamningur þurfa að berast í frumriti og vera undirrituð af bæði umsækjanda og atvinnurekanda.
- Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Uppfylli umsækjandi öll skilyrði dvalarleyfis verður dvalarleyfið veitt og umsækjanda í framhaldinu send tilkynning um veitinguna. Dvalarleyfið verður þó ekki útgefið fyrr en umsækjandi hefur mætt í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, tilkynnt um dvalarstað til Útlendingastofnunar og gengist undir læknisskoðun. Miðað er við að umsækjandi mæti til myndatöku innan við viku frá komu til landsins, og leggi fram tilkynningu um dvalarstað (t.d. við myndatöku) og gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Útlendingastofnun synjar um útgáfu dvalarleyfis uppfylli umsækjandi ekki ofantalin skilyrði. Það getur leitt til ólögmætrar dvalar og brottvísunar.
-
Endurnýjun
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar ef skilyrði þess eru enn uppfyllt. Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. fjórum vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að eldra leyfi er útrunnið verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar.
Umsækjandi þarf að mæta í eigin persónu í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Tekin er mynd af umsækjanda og þarf hann að veita rithandarsýnishorn. Umsækjanda ber að hafa vegabréf sitt meðferðis.
Gögn sem þarf að leggja fram
- Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
- Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
- Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma. Geti umsækjandi ekki sýnt fram á sjálfstæða framfærslu, er barni umsækjanda heimilt að leggja fram gögn sem sýna fram á trygga framfærslu umsækjanda.
Gögn sem heimilt er að leggja fram
- Umsókn um atvinnuleyfi vegna fjölskyldusameiningar og ráðningarsamningur, ef við á. Atvinnuleyfisumsókn og ráðningarsamningur þurfa að berast í frumriti og vera undirrituð af bæði umsækjanda og atvinnurekanda.
- Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.