Dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar er veitt nánasta aðstandanda einstaklings sem búsettur er hér á landi og hefur rétt til fjölskyldusameiningar.
Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar er að grunnskilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt. Skilyrði og réttindi dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar geta verið ólík eftir því hvers konar leyfi er sótt um.
Hverjir hafa rétt til fjölskyldusameiningar?
- íslenskir ríkisborgarar,
- norrænir ríkisborgarar,
- erlendir ríkisborgarar sem hafa ótímabundið dvalarleyfi,
- erlendir ríkisborgarar sem hafa tímabundið dvalarleyfi:
- sem sérfræðingar,
- sem íþróttamenn,
- sem makar eða sambúðarmakar,
- sem nemar í framhaldsnámi (bara fyrir maka, sambúðarmaka og börn)
- á grundvelli alþjóðlegrar verndar,
- á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða
- vegna sérstakra tengsla við landið.
Aðstandendur ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis hafa heimild til að dvelja á Íslandi ef dvöl þeirra byggir á rétti ríkisborgara EES eða EFTA ríkis sem er búsettur hér. Þeir þurfa að sækja um dvalarskírteini hjá Útlendingastofnun en ekki dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.
Hverjir eru nánustu aðstandendur í skilningi útlendingalaga?
- makar,
- sambúðarmakar,
- börn yngri en 18 ára í forsjá og á framfæri viðkomandi,
- foreldrar 67 ára eða eldri, og
- foreldrar barn yngri en 18 ára.
Aðrir en þeir sem skilgreindir eru sem nánustu aðstandendur í lögum um útlendinga geta ekki fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.