Umsækjandi leggur fram umsókn
Umsókn tekin til vinnslu
Veiting og útgáfa fyrsta dvalarleyfis
Endurnýjun dvalarleyfis
Synjun og kæra ákvörðunar
Frestun réttaráhrifa
Umsækjandi leggur fram umsókn
Umsækjandi kannar hvort hann uppfyllir skilyrði dvalarleyfis.
Umsækjandi nálgast viðeigandi umsóknareyðublað og upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn umsóknar við umfjöllun um hvert dvalarleyfi á heimasíðu Útlendingastofnunar.
Umsækjandi athugar hvort hann hafi heimild til að vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu. Mismunandi reglur gilda um hvern leyfaflokk. Finna má upplýsingar um réttindi sem fylgja dvalarleyfi við umfjöllun um hvert leyfi.
Umsækjandi fyllir út umsóknareyðublaðið og aflar þeirra fylgigagna sem gerð er krafa um. Í mörgum tilvikum þarf umsækjandi að afla gagna bæði hérlendis og erlendis (í flestum tilvikum vottorð). Helstu aðilar hér á landi sem búa yfir gögnum sem umsækjandi gæti þurft að leggja fram eru Þjóðskrá Íslands, Ríkisskattstjóri, embætti sýslumanna, menntastofnanir og sveitarfélög.
Erlend vottorð þurfa að vera staðfest með apostille vottun eða tvöfaldri staðfestingu, eftir því sem við á. Þýðingar er krafist á erlend vottorð sem gefin eru út á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Þýðing skal vera í frumriti og gerð af löggiltum skjalaþýðanda.
Umsækjandi greiðir fyrir umsókn og sendir hana á pappírsformi með bréfpósti til Útlendingastofnunar eða skilar í þar til gerðan skilakassa í anddyri Útlendingastofnunar. Einnig er hægt að leggja inn umsóknir hjá embættum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.
Umsókn tekin til vinnslu
Umsókn verður ekki tekin til vinnslu fyrr en greitt hefur verið fyrir hana. Hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga frá því að umsókn var lögð fram verður litið svo á umsækjandi óski ekki lengur eftir dvalarleyfi og umsókn endursend umsækjanda.
Umsækjandi um fyrsta dvalarleyfi þarf að gera ráð fyrir að liðið geti allt að 180 dagar frá því að umsókn er lögð fram og greidd og þar til hún er tekin til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er tekin til vinnslu innan 90 daga frá því að greitt hefur verið fyrir hana. Afgreiðslutími getur verið lengri ef frekari vinnslu þarf til að meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði dvalarleyfis.
Umsækjandi er hvattur til að kynna sér öll skilyrði dvalarleyfis vel, hvaða gögn eiga að fylgja með umsókn og á hvaða formi, svo að vinnsla umsóknar gangi sem hraðast fyrir sig.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram fullnægjandi gögn. Ef í ljós kemur við yfirferð gagna að þau eru ófullnægjandi er umsækjanda sent bréf þar sem útskýrt er hvaða gögn vantar og frestur veittur til að leggja þau fram. Séu framlögð gögn enn ekki fullnægjandi mun vinnsla umsóknar tefjast. Leggi umsækjandi ekki fram umbeðin gögn er umsókn synjað þar sem ekki er hægt að sannreyna að umsækjandi uppfylli skilyrði dvalarleyfis.
Veiting og útgáfa fyrsta dvalarleyfis
Uppfylli umsækjandi öll skilyrði dvalarleyfis er leyfið veitt og umsækjanda í framhaldinu send tilkynning um veitinguna.
Þurfi umsækjandi vegabréfsáritun til að komast til landsins er áritun send til viðeigandi sendiráðs.
Dvalarleyfið verður ekki gefið út fyrr en umsækjandi hefur mætt í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, tilkynnt um dvalarstað til Útlendingastofnunar og gengist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins, ef við á.
Umsækjandi þarf að hafa vegabréf meðferðis þegar hann mætir til myndatöku til að sýna fram á hver hann.
Þegar umsækjandi hefur uppfyllt þessi skilyrði er dvalarleyfið gefið út og dvalarleyfiskort pantað fyrir umsækjanda. Framleiðsla korts tekur að jafnaði 10 daga. Dvalarleyfiskortið er sent í pósti á það heimilisfang sem umsækjandi hefur tilkynnt um.
Hafi umsækjandi ekki mætt til myndatöku, tilkynnt um dvalarstað og gengist undir læknisskoðun innan 90 daga frá tilkynningu um veitingu dvalarleyfis verður leyfi ekki útgefið. Það getur leitt til ólögmætrar dvalar, brottvísunar og endurkomubanns.
Endurnýjun dvalarleyfis
Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út.
Sé það gert er umsækjanda heimilt að dveljast á landinu á meðan umsókn er til vinnslu. Sé sótt um endurnýjun þegar minna en 4 vikur eru eftir af gildistíma dvalarleyfis gæti umsækjandi þurft að yfirgefa landið á meðan á afgreiðslu umsóknar stendur, nema umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu eða aðrar undanþágur eigi við.
Sé sótt um endurnýjun eftir að gildistími fyrra leyfis er útrunninn, verður farið með umsókn eins og um fyrsta dvalarleyfi umsækjanda sé að ræða.
Umsækjandi greiðir fyrir umsókn og sendir hana á pappírsformi með bréfpósti til Útlendingastofnunar eða skilar í þar til gerðan skilakassa í anddyri Útlendingastofnunar. Einnig er hægt að leggja inn umsóknir hjá embættum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.
Afgreiðslutími endurnýjunar er að hámarki 90 dagar frá því að fullnægjandi gögn hafa borist, nema um flóknari umsóknir sé að ræða sem þarfnast frekari vinnslu. Leggi umsækjandi fram fullnægjandi fylgigögn með umsókn tekur vinnsla umsóknar almennt styttri tíma.
Uppfylli umsækjandi áfram skilyrði dvalarleyfis er það endurnýjað. Þegar umsækjandi hefur mætt til myndatöku ýmist í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis pantar Útlendingastofnun dvalarleyfiskort og er kortið póstlagt á lögheimili umsækjanda. Umsækjandi þarf að hafa vegabréf meðferðis þegar hann mætir til myndatöku til að sýna fram á hver hann.
Synjun og kæra ákvörðunar
Séu fylgigögn umsóknar ófullnægjandi eða uppfylli umsækjandi ekki öll skilyrði dvalarleyfis er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita leyfið.
Útlendingastofnun tekur skriflega ákvörðun um synjun dvalarleyfis og er ákvörðunin kæranleg til kærunefndar útlendingamála. Umsækjandi hefur 15 daga frá móttöku ákvörðunar til að leggja fram kæru.
Umsækjanda er tilkynnt um synjun dvalarleyfis bréfleiðis með ábyrgðarpósti. Þegar dvalarleyfi hefur verið synjað hefur umsækjandi 30 daga til að yfirgefa landið áður en dvöl hans telst ólögmæt. Ólögmæt dvöl getur leitt til brottvísunar og endurkomubanns.
Telji umsækjandi sig uppfylla skilyrði annars dvalarleyfis en þess sem synjað var, getur hann lagt fram dvalarleyfisumsókn innan 30 daga frá móttöku synjunar. Umsækjandi þarf að kanna hvort hann hafi heimild til dvalar á meðan vinnslu umsóknar stendur.
Frestun réttaráhrifa
Kæra hefur ekki áhrif á framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar nema í þeim tilvikum þar sem kæra frestar réttaráhrifum. Það á við um synjanir um ótímabundið dvalarleyfi og synjanir um endurnýjanir á dvalarleyfi sem sótt var um innan frests.
Í öðrum tilvikum gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa ákvörðunar. Umsækjandi getur sótt um frestun réttaráhrifa til kærunefndar útlendingamála.
Í þeim tilvikum þar sem kæra frestar réttaráhrifum þarf umsækjandi ekki að yfirgefa landið meðan umsókn er til vinnslu hjá kærunefnd útlendingamála og er staða umsækjanda á meðan sú sama og ef dvalarleyfisumsókn hans hefði ekki verið synjað af Útlendingastofnun.
Sé réttaráhrifum ákvörðunar hins vegar ekki frestað þýðir það að umsækjandi sem hefur fengið synjun á dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun þarf að yfirgefa landið innan tilskilins frests eða þegar heimild til dvalar á grundvelli áritanafrelsis rennur út. Geri hann það ekki verður dvöl umsækjanda hér á landi ólögmæt og getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns.