Allir þeir sem eru með ríkisborgararétt í löndum utan EES og EFTA og ætla að vera á Íslandi lengur en í þrjá mánuði þurfa að hafa dvalarleyfi hér á landi.
Heimilt er að veita dvalarleyfi hafi umsækjandi sérstök tengsl við Ísland. Dvalarleyfi á þessum grundvelli er einungis veitt í undantekningartilvikum og þarf að meta í hvert og eitt skipti hvort umsækjandi geti fengið dvalarleyfið. Við matið vega fjölskyldutengsl og dvöl á Íslandi þyngst, en í undantekningartilvikum er heimilt að veita dvalarleyfi þó umsækjandi hafi aldrei búið á Íslandi.
Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla er veitt á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Þú gætir átt rétt á dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, ásamt fleirum
- ert eldri en 18 ára,
- fellur ekki undir aðra dvalarleyfisflokka eða fullnægir ekki skilyrðum þeirra,
- hefur sérstök tengsl við Ísland samkvæmt lögum og reglugerð um útlendinga,
- getur sýnt fram á að þú getir framfleytt þér á dvalartíma,
- ert sjúkratryggð(ur) hjá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög),
- hefur ekki afplánað refsingu erlendis á síðustu 5 árum eða verið dæmd(ur) til lengri refsingar en sem samsvarar 3 mánaða fangelsi samkvæmt íslenskum lögum, og
- átt vegabréf þar sem gildistími er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis.
Þú mátt ekki
- koma til landsins áður en dvalarleyfið hefur verið veitt, nema þú þurfir ekki vegabréfsáritun til landsins (en þá má aðeins dveljast 90 daga á 180 daga tímabili á Schengen-svæðinu),
- uppfylla skilyrði annarra dvalarleyfa,
- hafa eingöngu myndað tengsl hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir námsmann, vegna samninga við önnur ríki, fyrir sjálfboðaliða og trúboða, vegna vistráðningar, fyrir fórnarlamb mansals, bráðabirgðadvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar, og/ eða
- byggja rétt á dvalarleyfinu eingöngu á fjölskyldutengslum, því þau falla undir ákvæði laga um fjölskyldusameiningu,
- vinna án atvinnuleyfis,
- vinna fyrir annan atvinnurekanda en þann sem atvinnuleyfið var veitt til, og
- vera lengur frá landinu en 90 daga á hverju 12 mánaða tímabili á meðan leyfið er í gildi, annars getur dvalarleyfið verið fellt niður eða afturkallað.
Umsókn um dvalarleyfi (og atvinnuleyfi, ef við á) og önnur fylgigögn skulu lögð fram hjá Útlendingastofnun eða sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og þegar hún er til vinnslu, svo lengi sem samfelld dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram. Slíkri umsókn verður synjað.
Ef umsækjandi uppfyllir ekki þessi skilyrði og þau skilyrði sem fjallað er um neðar verður dvalarleyfi synjað og umsækjandi þarf að yfirgefa landið. Yfirgefi umsækjandi ekki landið getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Endurkomubann felur í sér bann við endurkomu á Schengen-svæðið um ákveðinn tíma eða að lágmarki 2 ár.
Það er á ábyrgð umsækjanda að sækja um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar.
Nánar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland
Réttindi sem fylgja dvalarleyfinu
Grunnskilyrði dvalarleyfis
Dvalarleyfi sem geta ekki verið grundvöllur sérstakra tengsla
Mat á skilyrðum
Umsækjandi hefur dvalið á Íslandi
Lengd lögmætrar dvalar
Tengsl umsækjanda við Ísland og heimaríki
Fjölskyldutengsl
Umönnunarsjónarmið, menningarleg- og félagsleg tengsl og fjölskyldutengsl
Brotaferill á Íslandi
Umsækjandi hefur ekki dvalið á Íslandi
Hvað er bersýnilega ósanngjarnt?
Umsókn um fyrsta dvalarleyfi
Endurnýjun
Réttindi sem fylgja leyfinu
Réttindi sem fylgja dvalarleyfinu eru eftirfarandi
- Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar. Umsókn sem berst frá umsækjanda sem ekki hefur ofangreindar heimildir til dvalar verður synjað.
- Dvalarleyfið má veita til allt að eins árs.
- Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið í allt að eitt ár hafi forsendur fyrir veitingu leyfis ekki breyst.
- Sækja þarf sérstaklega um atvinnuleyfi ætli viðkomandi að stunda vinnu hér á landi. Umsækjanda er ekki heimilt að byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt.
- Dvalarleyfið veitir rétt til fjölskyldusameiningar þegar leyfishafi hefur starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl í fjögur ár.
- Dvalarleyfið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
Grunnskilyrði dvalarleyfis
Umsækjandi þarf að hafa náð 18 ára aldri og uppfylla öll almenn grunnskilyrði dvalarleyfis. Það er einnig skilyrði að umsækjandi falli ekki undir aðra dvalarleyfisflokka eða uppfylli ekki skilyrði þeirra.
Útlendingastofnun getur veitt undanþágu frá skilyrði um fullnægjandi framfærslu. Framfærsla má einungis hafa verið ótrygg í stuttan tíma og rík sanngirnissjónarmið þurfa að liggja að baki veitingu undanþágu. Umsækjandi þarf að leggja fram undanþágubeiðni þar sem fram kemur hvers vegna framfærsluskilyrðið eru ekki uppfyllt og gögn sem styðja beiðnina. Dæmi um tilvik þar sem undanþága hefur verið veitt er ef umsækjandi hefur lent í slysi og verið tímabundið frá vinnu, eða ef umsækjandi hefur verið að þiggja fæðingarstyrk. Þar sem um undanþágu er að ræða er þessi heimild skýrð þröngt.
Athugið að ekki er heimilt að veita aðrar undanþágur frá grunnskilyrðum dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla en vegna framfærslu og er það breyting frá eldri lögum um útlendinga nr. 96/2002.
Dvalarleyfi sem ekki geta verið grundvöllur þessa leyfis
Til sérstakra tengsla við landið teljast ekki þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi á grundvelli eftirtalinna dvalarleyfa
- Dvalarleyfi sem námsmaður,
- á grundvelli samnings við önnur ríki,
- sem sjálfboðaliði eða trúboði,
- á grundvelli vistráðningar,
- sem fórnarlamb mansals eða
- á bráðabirgðadvalarleyfi
- á langtímavegabréfsáritun
Dæmi 1: Umsækjandi hefur dvalist á Íslandi í 3 ár sem námsmaður og eitt ár sem sérfræðingur. Einungis dvöl hans sem sérfræðingur er metin þegar litið er til sérstakra tengsla við landið.
Dæmi 2: Umsækjandi um vernd kemur til Íslands og sækir um alþjóðlega vernd. Sú dvöl getur ekki verið grundvöllur sérstakra tengsla.
Hafi fyrra dvalarleyfi umsækjanda verið afturkallað vegna rangra eða villandi upplýsinga, t.d. vegna málamyndahjúskaps, geta þau tengsl sem umsækjandi hefur myndað við landið á þeim tíma ekki talist til sérstakra tengsla. Þetta á einnig við þó að dvalarleyfi hafi ekki verið afturkallað ef rökstuddur grunur er til staðar um að hjúskapur hafi verið eða sé til málamynda.
Mat á skilyrðum
Skilyrði þessa dvalarleyfis eru að mestu háð mati sem þýðir að Útlendingastofnun þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort umsækjandi teljist hafa sérstök tengsl við Ísland. Í lögum og reglugerð um útlendinga koma fram leiðbeiningar sem Útlendingastofnun fer eftir þegar tengsl umsækjanda eru metin.
Umsækjandihefur dvalið á Íslandi
Dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland er fyrst og fremst ætlað umsækjanda sem hefur dvalist á landinu og stofnað til tengsla við landið meðan viðkomandi hafði dvalarleyfi á Íslandi. Skilyrði er að dvalarleyfi hafi ekki fengist endurnýjað eða verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Ekki er skilyrði að umsækjandi hafi dvalist á Íslandi síðstu ár áður en umsókn er lögð fram ef viðkomandi hefur einhvern tímann búið hér.
Lengd lögmætrar dvalar vegur þungt við mat á sérstökum tengslum. Að jafnaði þarf umsækjandi að hafa dvalið á Íslandi í lögmætri dvöl í a.m.k. 2 ár áður en litið er til lengd dvalar við mat á tengslum, nema önnur tengsl (s.s. fjölskyldutengsl eða félagsleg og menningarleg tengsl) séu mjög sterk.
Ef umsækjandi dvelst ekki á Íslandi þegar umsókn er lögð fram er skoðað hvenær viðkomandi dvaldist hér og hversu lengi. Ef umsækjandi hefur dvalist lengur erlendis en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verður dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla almennt ekki veitt á grundvelli fyrri dvalar nema önnur tengsl umsækjanda séu mjög sterk.
Tengsl umsækjanda við Ísland og heimaríki
Tengsl umsækjanda við Ísland skal meta í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, annað hvort heimaland eða annað ríki þar sem umsækjandi hefur dvalist. Umsækjandi getur hafa misst tengsl sín við heimaríki eða annað dvalarríki þrátt fyrir að dvöl á Íslandi hafi verið stutt. Umsækjandi getur einnig hafa haldið sterkari tengslum við önnur ríki en Ísland þrátt fyrir dvöl hér.
Fjölskyldutengsl
Fjölskyldutengsl eru þau tengsl sem vega þyngst við matið ásamt tengslum á grundvelli fyrri dvalar á Íslandi. Lagt er heildarmat á fjölskyldutengsl og fjölskyldumynstur, -stærð, -saga og -aðstæður skoðaðar. Litið er til þess hvort umsækjandi eigi fjölskyldu á Íslandi og í heimaríki og hversu náin fjölskyldutengslin eru. Tengsl við foreldra og börn eru metin sterkari en tengsl við systkini eða fjarskyldari ættingja.
Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla er ekki ætlað að koma í stað dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar. Það þýðir að ef umsækjandi á rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skal sækja um slíkt dvalarleyfi. Uppfylli umsækjandi ekki eitthvert skilyrða slíks dvalarleyfis leiðir ekki til þess að viðkomandi fái dvalarleyfi á vegna sérstakra tengsla við landið.
Umönnunarsjónarmið
Líta skal til umönnunarsjónarmiða þegar sérstök tengsl á grundvelli fjölskyldutengsla eru metin. Metið er hvort umsækjandi er háður fjölskyldu sinni hér á landi t.d. vegna framfærslu eða vegna þess að aðstandandi umsækjanda hér á landi er háður honum. Framfærsla ein og sér er ekki nægur grundvöllur fyrir veitingu sérstakra tengsla, heldur þurfa félagsleg- og menningarleg sjónarmið jafnframt að styðja umsóknina. Þar er m.a. litið til þess hvort umsækjandi hafi aðlagast samfélaginu hér á landi og stundi atvinnu eða skóla.
Brotaferill á Íslandi
Hafi umsækjandi verið dæmdur fyrir afbrot á Íslandi er það talið draga úr tengslum hans við landið. Litið er til þess hvort umsækjandi hafi framið endurtekin brot eða eigi ólokin mál í refsivörslukerfinu. Skal þá dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla að jafnaði ekki veitt.
Umsækjandi hefur ekki dvalið á Íslandi
Í undantekningartilvikum er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þrátt fyrir að umsækjandi hafi aldrei dvalist á Íslandi. Þessi tilvik eru mjög sjaldgæf og þurfa aðstæður umsækjanda að vera mjög sérstakar og tengsl hans við Ísland mjög sterk til að dvalarleyfi sé veitt.
Útlendingastofnun lítur til sömu sjónarmiða og ef umsækjandi hefur dvalist á landinu. Í reglugerð um útlendinga eru eftirfarandi skilyrði sett fram:
- Umsækjandi á uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi, og
- umsækjandi getur sýnt fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár, og
- fjölskyldu- og félagsleg tengsl umsækjanda við heimaríki eru slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi.
Auk þessa skilyrða þurfa rík umönnunarsjónarmið, önnur en framfærsla, að vera til staðar.
Hvað er bersýnilega ósanngjarnt?
Í reglugerð um útlendinga segir að tengsl umsækjanda við heimaríki þurfi að vera slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita ekki dvalarleyfi á Íslandi. Mat á þessu þarf að fara fram í hverju tilviki fyrir sig og er ekki hægt að segja til um það fyrirfram hvað telst bersýnilega ósanngjarnt. Þær aðstæður sem fjallað hefur verið um ofar eru þau sjónarmið sem litið er til við matið.
Útlendingastofnun þarf að gæta hlutlægni og jafnræðis við þetta mat. Ekki er öruggt að það sem umsækjanda þykir bersýnilega ósanngjarnt og sérstök tengsl við landið falli að þeim sjónarmiðum sem stofnunin þarf að leggja til grundvallar við mat á tengslum.
Umsókn um fyrsta dvalarleyfi
Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfið og það er til vinnslu. Slíkri umsókn verður synjað. Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og á meðan hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Fari dvöl fram yfir þann tíma stöðvast vinnsla umsóknar þar til umsækjandi hefur farið af landi brott og lagt fram brottfararspjald því til sönnunar.
Með umsókn skulu fylgja öll þau gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt.
Gögn sem þarf að leggja fram
- Greiðslukvittun (ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka). Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið nafn umsækjanda, fæðingardag og fæðingarár í tilvísun.
- Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda. Mikilvægt er að umsækjandi greini frá dvalarstað sínum hér á landi. Liggi heimilisfang ekki fyrir þegar umsókn er lögð fram skal umsækjandi leggja fram tilkynningu um dvalarstað innan 2 vikna frá því að umsækjandi kemur til landsins (t.d. við myndatöku).
- Passamynd (35mm x 45mm).
- Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
- Staðfest frumrit erlends sakavottorðs. Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða. Leggja þarf fram sakavottorð frá öllum þeim löndum þar sem umsækjandi hefur búið síðustu 5 ár. Sakavottorð skal gefið út af æðsta yfirvaldi lands sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð. Athugið að krafist er vottunar sakavottorðs, þ.e apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á sakavottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli. Athugið að krafist er vottunar á þýðinguna sé hún unnin af þýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi, þ.e apostille eða tvöfaldrar keðjustimplunar.
- Sjúkrakostnaðartrygging.Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar frá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög). Tryggingin skal gilda í 6 mánuði frá skráningu umsækjanda í þjóðskrá og vera að lágmarki 2.000.000 kr. Skráning í þjóðskrá miðast að öllu jöfnu við þá dagsetningu sem umsækjandi kemur til myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumanni vegna útgáfu dvalarskírteinis, hafi hann dvalið hér á landi samfellt frá því að myndatakan fór fram.
- Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma.
- Greinargerð um tengsl. Lýsa þarf tengslum (s.s. fjölskyldutengslum, félagslegum og menningarlegum tengslum) umsækjanda við Ísland og heimaríki.
- Gögn til stuðnings greinargerð. Gögnin þurfa að sýna fram á tengsl umsækjanda við Íslands, s.s. fæðingarvottorð, framfærslugögn eða önnur gögn sem sýna fram á þær aðstæður sem byggt er á.
Gögn sem er heimilt að leggja fram
- Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
- Umsókn um atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna. Í frumriti, undirrituð bæði af umsækjanda og atvinnurekanda og staðfest af viðeigandi stéttarfélagi.
- Ráðningarsamningur.Í frumriti og undirritaður bæði af umsækjanda og atvinnurekanda. Launakjör umsækjanda þurfa að koma fram og ná viðmiði um lágmarksframfærslu.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Uppfylli umsækjandi öll skilyrði dvalarleyfis verður dvalarleyfið veitt og umsækjanda í framhaldinu send tilkynning um veitinguna. Dvalarleyfið verður þó ekki útgefið fyrr en umsækjandi hefur mætt í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, tilkynnt um dvalarstað til Útlendingastofnunar og gengist undir læknisskoðun. Miðað er við að umsækjandi mæti til myndatöku innan við viku frá komu til landsins, og leggi fram tilkynningu um dvalarstað (t.d. við myndatöku) og gangist undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins. Útlendingastofnun synjar um útgáfu dvalarleyfis uppfylli umsækjandi ekki ofantalin skilyrði. Það getur leitt til ólögmætrar dvalar og brottvísunar.
Endurnýjun
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla ef skilyrði þess eru enn uppfyllt.
Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar á landinu á meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og endurnýjun dvalarleyfis.
Umsækjandi þarf að mæta í eigin persónu við endurnýjun dvalarleyfis, annað hvort í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Tekin er mynd af umsækjanda og þarf hann að veita rithandarsýnishorn. Umsækjanda ber að hafa vegabréf sitt meðferð.
Gögn sem þarf að leggja fram
- Umsókn um dvalarleyfi. (Vinsamlegast hlaðið niður og vistið á tölvu áður en fyllt er út). Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
- Ljósrit vegabréfs. Gildistími skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
- Greinargerð og gögn til staðfestingar á að tilgangur dvalar sé óbreyttur.
- Framfærslugögn sem staðfesta trygga framfærslu á dvalartíma.
Gögn sem er heimilt að leggja fram
- Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
- Umsókn um atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna.Í frumriti, undirrituð bæði af umsækjanda og atvinnurekanda og staðfest af viðeigandi stéttarfélagi.
- Ráðningarsamningur. Í frumriti og undirritaður bæði af umsækjanda og atvinnurekanda. Launakjör umsækjanda þurfa að koma fram og ná viðmiði um lágmarksframfærslu.
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.