• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Stefnur Útlendingastofnunar
      • Stefna Útlendingastofnunar til ársins 2023
      • Launastefna
      • Jafnlaunastefna
      • Tungumálastefna
      • Persónuverndarstefna
    • Skipurit
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
      • Dvalarleyfi
      • Alþjóðleg vernd
      • Vegabréfsáritanir
      • Íslenskur ríkisborgararéttur
      • Túlkanir og þýðingar
      • Upplýsingar fyrir ríkisborgara Úkraínu
    • Hafa samband
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Tímabókanir
  • Hafa samband
  • Algengar spurningar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Algengar spurningar

Algengar spurningar

Almennt

Gagnakröfur

Atvinnuleyfi

Námsmenn

Fjölskyldusameining

Ótímabundið dvalarleyfi

Vistráðning/Au Pair




Almennt
 

Þarf að hafa umboðsmann?

Það þarf ekki að hafa umboðsmann á Íslandi en það er heimilt. Einungis umsækjandi sjálfur eða umboðsmaður hans getur fengið upplýsingar um stöðu umsóknar eða aðrar upplýsingar í tengslum við umsókn. Það athugist að maki er ekki sjálfkrafa umboðsmaður. Fylla þarf út eyðublað til að veita umboðsmanni umboð.

Get ég komið til landsins á meðan umsókn mín um dvalarleyfi er í vinnslu?

Meginreglan er að umsókn um fyrsta dvalarleyfi skal samþykkt áður en umsækjandi kemur til landsins. Umsækjandi sem er staddur á landinu þegar sótt er um dvalarleyfi í fyrsta sinn þarf að fara af landi brott áður en umsókn er tekin til afgreiðslu.  Frá þessu er heimilt að víkja í undantekningartilvikum t.d. vegna fjölskyldusameiningar eða ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Útlendingastofnun hefur m.a. talið að til slíkra undanþága falli atvik sem leiða til þess að umsækjanda er ómögulegt að yfirgefa landið af ástæðum sem hann fær sjálfur ekki ráðið við, s.s. vegna náttúruhamfara eða alvarlegra veikinda hans sjálfs eða nánustu aðstandenda hans. Það athugist að takmörkuð fjárráð umsækjanda, fjárhagslegir hagsmunir hans eða það að skólaár er hafið teljast ekki til ríkra sanngirnisástæðna.

Get ég keypt sjúkratryggingu í mínu heimalandi? Hvernig veit ég hvort að tryggingin mín sé gild á Íslandi?

Það er hægt að sjá á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins: http://www.fme.is/media/eftirlitsstarfssemi/Listi-yfir-erlend-vatryggingafelog.pdf

Ég þarf ekki áritun til að ferðast til Íslands, þarf ég samt að fara í sendiráð í heimalandi til að sækja D-áritun?

Nei.  Ef þú þarft ekki áritun til að ferðast til Íslands þarftu ekki að sækja D-áritun í sendiráð.  Hins vegar máttu ekki koma til landsins fyrr en leyfið hefur verið veitt. Veiting er staðfest með bréfi.

Umsækjandi hefur haft dvalarleyfi áður en er búinn að dveljast erlendis. Á hann að sækja um endurnýjun á leyfi eða nýtt leyfi?

Endurnýjun er einungis heimil þegar umsækjandi hefur leyfi sem enn er í gildi á Íslandi. Sækja þarf um endurnýjun að minnsta kosti fjórum vikum áður en leyfið fellur úr gildi.  Ef sótt er um of seint eða leyfið er fallið úr gildi þarf umsækjandi að sækja um nýtt leyfi, skila sömu gögnum og uppfylla sömu skilyrði og þegar lögð var fram fyrsta umsókn. Ef umsækjandi er staddur á landinu þarf hann að fara úr landi á meðan umsókn er afgreidd, nema undanþáguákvæði eigi við.

Gagnakröfur

Hvað þýðir að frumrit vottorðs sé staðfest og hvar get ég fengið slíka staðfestingu?

Það þýðir að skjalið hefur verið lögformlega staðfest og að það hafi gildi hér á landi. Það eru tvær viðurkenndar leiðir til að fá frumrit vottorða staðfest. Hvor leiðin er farin ræðst af því í hvaða landi vottorðið var gefið út, þ.e. hvort viðkomandi land sé aðili að Haag samningnum.

Apostille vottun er gerð í útgáfulandi skjalsins og þarf því að koma frumriti vottorðsins til stjórnvalds sem veitir slíka vottun í útgáfulandinu.  Aðeins er hægt að fá apostille vottun í þeim ríkjum sem eru aðilar að Haag samningnum um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala.

Keðjustimplun (einnig kallað tvöföld staðfesting) er notuð í löndum þar sem ekki er hægt að fá apostille vottun. Það þýðir að vottorðið þarf tvo stimpla til að geta talist lögformlega staðfest, annan frá utanríkisráðuneyti þess lands sem gaf vottorðið út og hinn frá sendiskrifstofu Íslands gagnvart útgáfulandinu. 

Til að fá slíka stimplun þarf fyrst að senda frumskjalið til utanríkisráðuneytis þess lands sem gaf út skjalið. Viðkomandi ráðuneyti staðfestir skjalið og sendir það áfram til sendiráðs Íslands gagnvart útgáfulandinu eða umsækjandi sér sjálfur um að koma skjalinu til sendiráðsins. Sendiráð Íslands gagnvart útgáfulandinu staðfestir að lokum að fyrri stimpillinn sé réttur.


Þurfa frumrit íslenskra vottorða að vera staðfest?

Nei.

Hvað er átt við með staðfestu afriti?

Með staðfestu afriti er átt við að afrit sé tekið af frumriti vottorðs og það staðfest af stjórnvaldi sem hefur heimild til að staðfesta skjöl.

Hver getur tekið staðfest afrit af gögnum?

Opinbert stjórnvald getur tekið staðfest afrit af gögnum. Athugið að frumrit vottorða þurfa að vera staðfest með ,,apostille“vottun eða tvöfaldri staðfestingu áður en staðfest afrit er tekið af gögnunum.

Af hvaða gögnum má ég leggja fram staðfest afrit?

Þú mátt leggja fram staðfest afrit fæðingarvottorða, hjúskaparvottorða, hjúskaparstöðuvottorða, sambúðarvottorða, skilnaðargagna, forsjárgagna og dánarvottorða. Frumritin þurfa að vera staðfest af opinberu stjórnvaldi („apostille“ vottun eða tvöföld staðfesting) áður en afrit er tekið og það síðan staðfest af opinberu stjórnvaldi. Að auki má leggja fram vottorð sem þýdd eru af löggiltum skjalaþýðanda í  staðfestu afriti. 

Hvar get ég nálgast upplýsingar um löggilta skjalaþýðendur á Íslandi?

Upplýsingar um löggilta skjalaþýðendur á Íslandi má finna annars vegar á heimasíðu sýslumanna.

Hvað á ég að gera ef ég finn ekki löggiltan skjalaþýðanda á Íslandi fyrir það tungumál sem ég þarf?

Ef tiltekið tungumál er ekki á lista á heimasíðu sýslumanna, þá eru löggiltir skjalaþýðendur í því tungumáli ekki til á Íslandi og þá þarft þú að leita eftir þýðingu löggilts skjalaþýðanda erlendis. Það er heimilt að leggja fram þýðingu yfir á ensku, dönsku, norsku og sænsku.

Hvað á ég að gera ef ég get ekki sýnt fram á lágmarksframfærslu með launaseðlum mínum?

Þú getur lagt fram önnur gögn sem sýna fram á fullnægjandi framfærslu. Ef þú ert í hjúskap þá getur þú lagt fram launaseðla maka þíns, þar sem hjón hafa gagnkvæma framfærsluskyldu. Einnig er hægt að leggja fram upplýsingar um bankainnistæður eða fastar reglulegar greiðslur sem sýna fram á fullnægjandi framfærslu (t.d. fæðingarorlofsgreiðslur, atvinnuleysisbætur eða námslán).

Ég á fasteign, get ég sýnt fram á framfærslu með því að leggja fram yfirlit fasteignamats?

Nei, fasteignamat er ekki fullnægjandi framfærsla. Annað hvort þarf að vera hægt að sýna fram á reglulegar greiðslur t.d. vegna leigugreiðslna eða bankainnstæður.

Hvernig get ég nálgast staðfest afrit skattframtals?

Þú getur nálgast staðfest afrit skattframtals á tvennan hátt.

Annars vegar getur þú sjálf/ur nálgast skattframtölin á heimasíðu RSK og er sú þjónusta gjaldfrjáls. Þú ferð inn á Þjónustuvefinn, og skráir þig inn með veflykli ríkisskattstjóra. Undir Yfirlit smellir þú á Staðfest afrit framtals, hakar við þau framtöl sem þú vilt nálgast og smellir á sækja afrit. Skattframtöl sendir þú svo á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu RSK. Upplýsingar og aðstoð er einnig gefin í síma þjónustuvers RSK (442 1000) alla virka daga á milli kl. 9.00 og 15.30.

Hin leiðin er að þú farir til Ríkisskattstjóra (RSK) og óskir eftir staðfestu afriti skattframtala. Þá færðu skattframtölin afhent útprentuð og stimpluð (fullnægjandi stimpill er „Rétt endurrit staðfestir“). Fyrir þá þjónustu þarf að greiða 1.000 kr. fyrir einstaklinga en 1.500 kr. fyrir þá sem eru samskattaðir.

Hvað eru forsjárgögn?

Með dvalarleyfisumsókn barns þarf að fylgja staðfesting á forsjá þess. Yfirvöld í heimaríki þurfa að upplýsa og staðfesta hver fer með forsjá umsækjanda. Gögnin þurfa að berast í staðfestu afriti ásamt þýðingu. Forsjárgögn mega ekki vera eldri en 6 mánaða þegar þau eru lögð fram hjá Útlendingastofnun.  Ef skilnaðargögn eru eldri en 6 mánaða þurfa yfirvöld í heimaríki að staðfesta að þau séu enn í gildi. Forsjárgögn geta verið yfirlýsing þar til bærs stjórnvalds á því að ákveðinn aðili fari með forsjá. Ef foreldrar barns eru skilin og fram kemur í skilnaðargögnum hver fari með forsjá barns teljast þau gögn nægileg til staðfestingar á forsjá. Leggja þarf fram staðfest afrit af skilnaðargögnum og þurfa þau að vera gefin út eða staðfest af þar til bærum yfirvöldum. Yfirlýsing foreldris sem ekki sækir um fyrir barn ( ef það á við), ásamt fæðingarvottorði umsækjanda  telst ekki fullnægjandi staðfesting á forsjá barns.

Má leggja fram sakavottorð við komu til landsins?

Nei, umsókn og öll fylgigögn þurfa að liggja fyrir áður en leyfi er veitt.

Atvinnuleyfi


Hver er aðkoma Vinnumálastofnunar að umsóknarferlinu?

Til að heimilt sé að veita dvalarleyfi á grundvelli atvinnu þarf að staðfesta að réttur til atvinnu sé til staðar. Um atvinnurétt útlendinga er kveðið í lögum nr. 97/2002 og þar kemur fram að Vinnumálastofnun ber að meta hvort starf umsækjanda uppfylli nánar tilgreindar kröfur laganna og hvort umsækjandi hafi þá menntun eða reynslu sem starfið krefjist. Þegar Útlendingastofnun hefur staðfest að grunnskilyrði dvalarleyfis eru uppfyllt er umsókn send áfram til Vinnumálastofnunar. Eftir að Vinnumálastofnun gefur út atvinnuleyfi hefur Útlendingastofnun heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli atvinnu.

Hvað tekur afgreiðsla Vinnumálastofnunar langan tíma?

Afgreiðslutími Vinnumálastofnunar er misjafn eftir eðli umsókna. Að meðaltali tekur það Vinnumálastofnun þrjár vikur að vinna umsókn. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um stöðu umsóknar hjá Vinnumálastofnun með því hringja í síma 515-4800 eða senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..


Námsmenn


Hvernig sanna ég að ég geti framfleytt mér á Íslandi á meðan námi mínu stendur?

Flestir námsmenn skila inn yfirlýsingu frá banka í heimalandi um að þeir eigi inneign til ráðstöfunar á bankareikningi. Innistæðan þarf að duga fyrir framfærslu í 6 mánuði hið minnsta. Athugið að gjaldmiðillinn þarf að vera alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og námsmaðurinn þarf sjálfur að vera skráður fyrir reikningi(um). Aðrir námsmenn eru styrkþegar og verða að skila skjölum þess efnis.

Það athugist að framlengja þarf leyfi eftir fyrstu önn (6 mán) og þá þarf að leggja fram ný gögn til staðfestingar á framfærslunni. Þessi skjöl verða að vera í frumriti og staðfest með undirskrift og stimpli útgefanda.


Má ég prenta út yfirlitið úr heimabankanum mínum og skila því inn?

Nei það er ekki nóg. Gerð er krafa um að skjalið sé gefið út af bankanum þínum og efni yfirlitsins staðfest.

Má námsmaður skila inn gögnum sem staðfesta að hann sé á framfæri einhvers annars?

Nei það er ekki leyft að námsmaður sé á framfæri annarra.

Ég á erfitt með að fá staðfestingu frá bankanum mínum í heimalandinu um inneign í banka, þar sem ég er á Íslandi, má ég skila inn afriti af gögnunum sem fylgdu með fyrstu umsókn?

Nei, það þarf alltaf að skila inn nýjum gögnum.

Foreldrar mínir ætla að framfleyta mér á meðan ég er á Íslandi, má það?

Nei. Launaseðlar foreldra eða staðfesting banka á inneign foreldra telst ekki fullnægjandi framfærsla.

Ég get ekki fundið mér húsnæði fyrr en ég kem til Íslands, er í lagi að leggja fram húsnæðisvottorð eftir að ég kem til landsins?

Námsmaður hefur tvær vikur eftir að hann kemur til landsins til að skila inn húsnæðisvottorði.

Ég get ekki skráð mig í námskeið í skólanum fyrr en kennitalan mín er orðin virk, hvenær verður hún virk?

Kennitalan verður ekki virk fyrr en búið er að gefa út dvalarleyfiskort.  Dvalarleyfiskortið er ekki gefið út fyrr en námsmaðurinn hefur fullnægt skilyrðunum um að skila inn fullnægjandi húsnæðisvottorði, læknisvottorði (sé gerð krafa um það) og koma í myndatöku hjá Útlendingastofnun eða til sýslumanns. Þess vegna er mikilvægt að ganga frá þeim málum eins fljótt og hægt er.

Hvað þarf ég að ljúka mörgum einingum á önn til þess að fá áframhaldandi dvalarleyfi?

Við fyrstu endurnýjun telst námsárangur umsækjanda viðunandi hafi hann lokið 75% af fullu námi á námsárinu (þ.e. a.m.k. 44 ECTS samanlagt á námsári). Með námsári er átt við tvær samliggjandi annir, talið frá því að umsækjandi hefur nám. Leggja skal saman námsárangur á tveimur síðustu önnum. Getur verið haustönn fram á vorönn eða vorönn fram á haustönn.

Við síðari endurnýjun þarf umsækjandi að hafa lokið viðunandi námsárangri þar sem þess er krafist. Fer það eftir reglum viðkomandi háskóla hvað telst viðunandi námsárangur.

Ef ekki er hægt að sýna fram á skráningu í fullt nám eitt ár fram í tímann vegna þess að ekki hefur verið opnað fyrir skráningu (t.d. þegar nám hefst í janúar og lýkur í desember), mun Útlendingastofnun óska eftir upplýsingum um áframhaldandi skráningu í nám þegar þær upplýsingar liggja fyrir hjá viðkomandi skóla. Umsækjandi telst skráður í nám þegar hann hefur greitt skóla- eða skráningargjöld og er skráður í nám skv. staðfestingu frá viðkomandi skóla. Ef umsækjandi er ekki skráður í áframhaldandi nám eftir að fyrri önninni er lokið verður dvalarleyfi afturkallað.


Ég er að bíða eftir einkunnum en það eru 4 vikur í að dvalarleyfi mitt renni út, hvernig sný ég mér í því?

Þú átt að skila inn umsókn um framlengingu ásamt öðrum gögnum í síðasta lagi fjórum vikum áður en leyfi rennur út. Þú skilar inn yfirliti frá skóla um leið og allar einkunnir eru komnar.


Fjölskyldusameining

Nánustu aðstandendur í skilningi útlendingalaga eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri (foreldri, afi, amma, langamma, langafi osfrv.).


Getur barn eldra en 18 ára fengið dvalarleyfi sem aðstandandi?

Nei. Barn sem fékk dvalarleyfi á Íslandi fyrir 18 ára afmælisdag sinn getur fengið áframhaldandi dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, ef barnið er að vinna og/eða er í skóla. Sækja þarf um dvalarleyfi mánuði áður en dvalarleyfi fellur úr gildi, sjá hér.
Í undantekningartilvikum getur barn eldra en 18 ára sem sækir um í fyrsta skipti fengið dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Sjónarmið fyrir veitingu slíkra leyfa er að finna hér.

Geta foreldrar mínir fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar?

Foreldrar aðila, sem dvelur hér á landi á grundvelli ákveðins leyfis, geta fengið dvalarleyfi ef  báðir foreldrar eru 67 ára eða eldri og fullnægjandi gögn fylgja umsókn, sjá hér.

Geta systkini og/eða frændfólk sótt um dvalarleyfi fyrir aðstandendur?

Nei, systkini og frændfólk eru ekki skilgreind sem nánustu aðstandendur í útlendingalögum og því ekki hægt að sækja um aðstandendaleyfi fyrir þá.

Geta börn yngri en 18 ára fengið dvalarleyfi á Íslandi hjá forsjáraðila sem ekki er foreldri, t.d. hjá systkini, ömmu, afa, frænku eða frænda?

Nei það er ekki heimilt. Samkvæmt 13. gr. útlendingalaga getur barn útlendings eða Íslendings fengið dvalarleyfi. Í því felst að forsjáraðili barnsins verður einnig að vera blóðforeldri þess. Jafnframt er gerð sú krafa að barnið sé á hans framfæri. Því er ekki nægjanlegt að hafa einungis forsjá yfir barni til að fá dvalarleyfi fyrir það. Vilji forsjáraðili sem ekki er foreldri sækja um dvalarleyfi fyrir barn þarf ættleiðing að fara fram áður. Vilji foreldri sem ekki er forsjáraðili sækja um dvalarleyfi fyrir barn þarf forsjárbreyting að fara fram.

Hvað er átt við þegar talað er um að aðstandandi hafi þurft að vera á mínu framfæri?

Útlendingastofnun óskar eftir gögnum sem staðfesta að aðstandandi (hvort sem um barn eða foreldra er að ræða) hafi verið á framfæri ættingja síns á Íslandi  að minnsta kosti síðustu 12 mánuði. Þessu til grundvallar liggja umönnunarsjónarmið. Sýna þarf fram á að ættingi á Íslandi hafi átt þátt í að sjá fyrir aðstandanda sínum erlendis, t.d með því að senda peninga með millifærslum, greiða skóla ofl. Hér þarf að leggja fram gögn sem staðfesta millifærslur á fjármunum.

Má ég vinna?

Maka íslensks ríkisborgara er heimilt að vinna hér á landi án atvinnuleyfis. Útlendingastofnun gerir ekki athugasemd við að umsækjendur sem eru giftir íslenskum ríkisborgurum, og sækja um dvalarleyfi vegna þess, vinni á meðan að umsókn þeirra um dvalarleyfi er til vinnslu. Þeir geta hins vegar ekki fengið skattkort fyrr en leyfi hefur verið gefið út og skráning í Þjóðskrá er lokið.

Sambúðarmaki íslensks ríkisborgara getur sótt um atvinnuleyfi en hefur ekki heimild til að vinna fyrr en atvinnuleyfi hefur verið veitt.

Barn undir 18 ára aldri sem er með leyfi fyrir aðstandanda hefur heimild til að vinna án sérstaks atvinnuleyfis til 18 ára aldurs. Ef ætlunin er að vinna eftir 18 ára aldur þarf það að sækja um atvinnuleyfi.

Aðstandandi  útlendings með dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar eða hefur  búsetuleyfi getur sótt um atvinnuleyfi. Þetta á við um maka, sambúðarmaka og ættmenni 67 ára og eldri. Viðkomandi  er óheimilt að starfa á Íslandi fyrr en atvinnuleyfi hefur verið veitt.


Hvenær get ég fengið staðfestingu á að ég þurfi ekki dvalarleyfi?

Maki, sambúðarmaki og barn íslensks ríkisborgara geta fengið staðfestingu á að þurfa ekki dvalarleyfi eftir löglega dvöl hér á landi í 3 ár (maki), 5 ár (sambúðarmaki og barn) eða 2 ár (barn) að nánari skilyrðum uppfylltum:

Maki:
Maki hefur verið giftur íslenskum ríkisborgara, búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar.

Sambúðarmaki:
Sambúðarmaki hefur verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara, búið með honum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í fimm ár.

Barn:
Barn  sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur haft fasta búsetu og dvalarleyfi hér á landi samfellt í tvö ár og foreldrið haft íslenskan ríkisborgararétt í a.m.k.  fimm ár. Ekki skiptir máli hversu gamall viðkomandi  er, hann getur verið jafnt lögráða sem ólögráða. Það skiptir ekki máli hvernig dvalarleyfi viðkomandi var með, bara að hann hafi verið hér í tvö ár á dvalarleyfi og foreldrið hafi haft ríkisborgararétt í fimm ár.
Eða:
Útlendingur sem er lögráða og á íslenska ríkisborgara að foreldri og hefur haft fasta búsetu og dvalarleyfi hér á landi í samfellt í fimm ár. Ekki skiptir máli hversu lengi foreldrið hefur haft ríkisborgararétt, bara að hann sé til staðar og útlendingurinn sjálfur hafi dvalist hér löglega í fimm ár.

Staðfestingin er í formi korts sem viðkomandi getur sótt um hjá Útlendingastofnun/sýslumönnum. Kort er pantað og sent heim til umsækjanda en kortin gilda í fimm ár frá útgáfudegi þó leyfið sjálft gildi ótímabundið.


Ótímabundið dvalarleyfi


Er hægt að sækja um ótímabundið dvalarleyfi þó dvalarleyfi sé í gildi?

Já, engu skiptir hvenær dvalarleyfi rennur út. Ef þú uppfyllir tímaskilyrði um ótímabundið dvalarleyfi er umsókn tekin til afgreiðslu án tillits til þess hvenær dvalarleyfi rennur út.


Vistráðning/Au Pair


Hvað gerist ef slit verða á vistráðningu  áður en vistráðningartíma lýkur?

Ef vistráðningartíma lýkur samkvæmt samningi aðila skulu bæði hinn vistráðni og vistfjölskyldan tilkynna það til þess aðila sem hafði milligöngu um ráðninguna og til Útlendingastofnunar. Hinum vistráðna er heimilt að flytjast til nýrrar vistfjölskyldu en þá þarf að leggja fram nýjan vistráðningarsamning. Samanlagður dvalartími hjá vistfjölskyldum má ekki vera lengri en eitt ár.

Getur vistráðinn/au-pair sótt um að vera lengur en eitt ár?

Nei, dvalarleyfi vegna vistráðningar er aldrei veitt til lengri tíma en eins árs. Óheimilt er að endurnýja dvalarleyfið. Jafnframt getur vistráðinn/au-pair ekki sótt um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku sem sérfræðingur, íþróttamaður eða vegna skorts á vinnuafli fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins.

Hver greiðir farmiða fyrir vistráðinn/au-pair?

Vistfjölskylda ábyrgist greiðslu á heimferð að starfstíma loknum, ef um er að ræða ráðningarslit eða ef vistráðinn verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slyss.

  • Hverjir þurfa dvalarleyfi?
  • Ferill umsókna
    • Útgáfustaðir D-áritana
  • Afgreiðslutími og umsóknir í vinnslu
  • Langtímavegabréfsáritun
  • Langtímavegabréfsáritun fyrir fólk í fjarvinnu og aðstandendur þess
  • Fjölskyldusameining
  • - Maki eða sambúðarmaki
  • - Barn
  • - Foreldri 67 ára og eldri
  • - Foreldri barns yngra en 18 ára
  • Atvinnuleyfi
    • Flýtimeðferð
  • Nám
    • Endurnýjun og námsárangur
  • Vistráðning / au-pair
  • Vinnudvöl fyrir ungt fólk
  • Sjálfboðaliðar
  • Trúboðar
  • Lögmætur tilgangur
  • Sérstök tengsl við Ísland
  • Ríkisborgarar EES/EFTA og aðstandendur þeirra
    • EES og EFTA ríkin
  • Ótímabundið dvalarleyfi
  • Réttindi
  • Grunnskilyrði
  • Gagnakröfur
    • FBI sakavottorð
  • Heimild til dvalar
  • Synjun umsóknar um dvalarleyfi
  • Afturköllun dvalarleyfis
  • Algengar spurningar
  • Brottvísun og endurkomubann

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • New in Iceland
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd
  • Persónuverndarstefna

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til föstudaga 9 - 14

Símaþjónusta:
Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

444 0900

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | 444 0900 | utl@utl.is

Kt. 670269-6399 | Rkn. 0515-26-410424 

Jafnlaunavottun adalmerki 2020 2023 f ljosan grunn hrmonitor 2021