Ferðalög erlendis við endurnýjun dvalarleyfis
Útlendingastofnun fær fjölmargar fyrirspurnir frá umsækjendum og umboðsmönnum þeirra í tengslum við endurnýjun dvalarleyfis og hvort umsækjanda sé óhætt að ferðast á meðan beðið er endurnýjunar dvalarleyfis.
Þeir sem ferðast erlendis án gilds dvalarleyfiskorts geta lent í erfiðleikum við landamæraeftirlit. Dvalarleyfiskort er eina gilda skírteinið sem sannar að viðkomandi hafi dvalarleyfi á Íslandi. Útlendingastofnun getur ekki gefið út annars konar skjal sem tryggir að viðkomandi geti ferðast án hindrana á meðan umsókn um endurnýjun dvalarleyfis er til vinnslu hjá stofnuninni.
Svokallað "to whom it may concern" bréf, sem staðfestir að lögð hafi verið fram umsókn hjá stofnuninni, tryggir ekki að umsækjandi geti ferðast erlendis án vandkvæða. Útlendingastofnun mælir því með að umsókn um endurnýjun sé lögð fram með góðum fyrirvara. Einnig er mælt með að beðið sé með ferðalög þar til endurnýjun dvalarleyfis hefur verið veitt og umsækjandi hefur fengið nýtt dvalarleyfiskort í hendurnar. Gildistíma dvalarleyfis er að finna á dvalarleyfiskorti.
Ferðalög erlendis og flýtimeðferð
Stofnunin fær jafnframt fjölmargar fyrirspurnir frá þeim sem vilja kanna hvort stofnunin geti flýtt afgreiðslu umsókna vegna ferðalaga erlendis. Útlendingastofnun afgreiðir umsóknir í þeirri röð sem þær berast og eru því elstu umsóknirnar afgreiddar fyrst. Flýtimeðferð er aðeins veitt í undantekningartilfellum. Til að umsókn sé tekin til afgreiðslu á undan öðrum sem hafa beðið lengur þurfa óviðráðanlegar ytri aðstæður að vera fyrir hendi. Ferðalög erlendis geta ekki verið grundvöllur flýtimeðferðar umsóknar.