Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Útlendingastofnun kynntu í dag niðurstöður og árangur sameiginlegs umbótaverkefnis stofnananna sem hófst árið 2013. Fór kynningin fram í Safnahúsinu að viðstöddum fulltrúum fjölmiðla og öðrum gestum. Um er að ræða svokallað Lean Quality Initiative en Flóttamannastofnun hefur á undanförnum árum staðið að sambærilegum verkefnum í Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum. Skýrsla um verkefnið var einnig kynnt en hún ber heitið Rising to the Challenge – Improving the Asylum Procedure in Iceland. Bráðabirgðaútgáfu af skýrslunni var dreift á kynningarfundinum en lokaútgáfan verður gerð aðgengileg á vef Útlendingastofnunar þegar Flóttamannastofnun hefur lagt á hana lokahönd.
Á fyrsta ársfjórðungi 2016 var 25 einstaklingum veitt hæli eða önnur vernd hér á landi, þar af voru Írakar fjölmennastir eða 11 talsins. 134 einstaklingar sóttu um vernd á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi en tæpur helmingur þeirra kom frá löndum Balkanskagans.