Útlendingastofnun leggur mikla áherslu á að afgreiða umsóknir um dvalarleyfi eins hratt og unnt er í þágu umsækjenda og er markmið stofnunarinnar að afgreiðsla umsóknar taki ekki lengri tíma en 90 daga frá því að fullnægjandi gögn hafa borist.
Miklar annir eru nú hjá aðstandendateymi leyfasviðs en um 200 umsóknir um fyrsta dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og um 190 umsóknir um endurnýjun fjölskyldusameiningarleyfa bíða afgreiðslu. Elstu óafgreiddu umsóknirnar eru frá síðari hluta desembermánaðar.
Næstu tvær vikurnar verður allt kapp lagt á afgreiðslu þessara umsókna með það að leiðarljósi að stytta biðtíma umsækjenda. Óhjákvæmilegt er hins vegar að slíkt átak verði á kostnað persónulegrar þjónustu við umsækjendur um fjölskyldusameiningarleyfi á tímabilinu frá 16. til 26. apríl. Leyfafulltrúar teymisins munu ekki hafa viðveru á símatíma og tölvupóstum verður ekki svarað daglega.
Umsóknirnar verða unnar eins hratt og mögulegt er og mun fyrirspurn í síma, tölvupósti eða afgreiðslu ekki flýta fyrir vinnslu umsóknar. Ef stofnunina vantar frekari gögn eða upplýsingar vegna umsóknar verður haft samband við umsækjanda eða umboðsmann.
Minnt er á að almennum fyrirspurnum er svarað alla virka daga á opnunartíma skiptiborðs.
Upplýsingar um hvaða umsóknir hafa verið teknar til vinnslu má finna hér.