Umsækjendur um alþjóðlega vernd voru 1033 á fyrstu ellefu mánuðum ársins, flestir frá Georgíu og Albaníu. Umsóknir í nóvember voru 67 og það sem af er desembermánuði hafa 44 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd. Heildarfjöldi umsókna það sem af er ári er því 1077.
Umsækjendur í nóvember voru af 17 þjóðernum, flestir komu frá Albaníu (15) og Georgíu (14). 54% umsækjenda komu frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki. 78% umsækjenda voru karlkyns og 22% kvenkyns. 82% umsækjenda voru fullorðnir og 18% yngri en 18 ára. Þrír umsækjendur kváðust vera fylgdarlaus ungmenni. Frekari upplýsingar um skiptingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir þjóðerni og kyni er að finna á tölfræðisíðu vefsins.
Lyktir mála
Niðurstaða fékkst í 133 mál í nóvembermánuði en það sem af er ári hafa 1198 umsóknir um alþjóðlega vernd verið afgreiddar hjá Útlendingastofnun. 60 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar í nóvember en af þeim voru 45 afgreiddar með ákvörðun í forgangsmeðferð. 20 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, fimm mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 48 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.
52 þeirra 60 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og átta með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestir þeirra sem var synjað um vernd komu frá Albaníu (19) og Georgíu (16) en flestir þeirra sem var veitt vernd komu frá Írak (2), Marokkó (2) og Palestínu (2).
520 einstaklingar í þjónustu
Um 520 einstaklingar njóta þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um þessar mundir, þar af eru um 260 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veita um 260 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.
Flutningar úr landi
Stoðdeild Ríkislögreglustjóra flutti 31 einstakling úr landi í nóvember. Tveir einstaklingar yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM).