Það eru tvær leiðir til að nálgast FBI sakavottorð. Annars vegar með því að póstleggja beiðni til FBI og fá útgefið sakavottorð sent til umsækjanda í bréfpósti. Hins vegar með því að sækja um sakavottorð með rafrænum hætti hjá sérstökum veitum sem samþykktar hafa verið af FBI. Það tekur styttri tíma að fá sakavottorð útgefið rafrænt með aðstoð slíkra veitna. Á heimasíðu FBI hefur verið tekinn saman listi yfir þær veitur sem samþykktar hafa verið af FBI.
Í báðum tilfellum þarf umsækjandi að láta taka af sér fingraför og senda þau með beiðni um sakavottorð. Hér á landi eru fingraför tekin af umsækjanda hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Það athugist að ef sótt er um FBI sakavottorð rafrænt er mikilvægt að rafræna skjalið sé ekki opnað áður en það er áframsent í tölvupósti til Útlendingastofnunar, þ.e. að ekki sé smellt á tengil í tölvupóstinum og kóði sleginn inn. Aðeins er hægt að sækja niðurstöðurnar og staðfesta þær með kóðanum í eitt skipti. Sé rafræna skjalið opnað getur Útlendingastofnun ekki staðfest skjalið og þarf því að kalla eftir nýju sakavottorði.