Dvalarleyfi af mannúðarástæðum

ATH með gildistöku nýrra laga nr. 80/2016 verður ekki hægt að sækja sérstaklega um mannúðarleyfi þar sem ákvæði þessu skal ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar.

Heimilt er að veita dvalarleyfi þó ekki séu uppfyllt skilyrði 12. – 12. gr. e útlendingalaga og 11. gr. ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess.


Leyfið er einungis veitt í undantekningartilvikum og fer fram heildarmat á aðstæðum í hverju og einu tilviki. Ávallt er óskað eftir því að umsækjandi sýni fram á að hann fullnægi öllum grunnskilyrðum laganna en Útlendingastofnun er heimilt að gera undanþágu frá þeim séu ríkar mannúðarástæður til staðar. Geti umsækjandi ekki uppfyllt grunnskilyrði 11. gr. skal leggja fram greinargerð og beiðni um undanþágu.


Dvalarleyfi af mannúðarástæðum eru fyrst og fremst tekin til skoðunar þegar umsókn um hæli hefur verið synjað og að meginreglu ekki nema umsækjandi sé staddur á landinu.


Athugið að sé umsækjandi búsettur á Íslandi og hafi haft hér dvalarleyfi þarf einungis að leggja fram þau gögn sem talin eru upp í tengslum við endurnýjun dvalarleyfis.


Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum er að umsækjandi hafi þörf á vernd af:

 1. Heilbrigðisástæðum.
 2. Vegna íþyngjandi félagslegra aðstæðna í heimalandi.
 3. Vegna annarra íþyngjandi ástæðna.


Ekki er um tæmandi talningu að ræða, sjá ítarlega umfjöllun hér.


Fái umsækjandi ekki veitt leyfi má nálgast upplýsingar um kærufrest og fleira hér.


Upplýsingar um eftirfarandi er að finna hér:

Almenn umfjöllun um dvalarleyfi

Upplýsingar um feril umsóknar og afgreiðslutíma

Afgreiðslugjald, umsókn er ekki tekin til afgreiðslu fyrr en greitt hefur verið fyrir hana.

Réttindi

Algengar spurningar


Gögn sem leggja þarf fram:

 1. Gátlisti grunnskilyrða og gátlisti sérskilyrða. Prenta þarf báða listana út og hafa til hliðsjónar við öflun gagna.  Vinsamlegast látið listana fylgja með umsókn.
 2. Greiðslukvittun (ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka). Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið fæðingardag, -ár og nafn umsækjanda í tilvísun.
 3. Umsókn um dvalarleyfi, í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
 4. Passamynd (35mm x 45mm).
 5. Ljósrit vegabréfs (þarf ekki að vera staðfest). Gildistími skal vera minnst þrjá mánuði umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með  undirskrift umsækjanda.
 6. Staðfest frumrit erlends sakavottorðs. Sakavottorð má ekki vera eldra en 6 mánaða. Leggja þarf fram sakavottorð frá öllum þeim ríkjum þar sem umsækjandi hefur búið í síðustu 5 ár. Athugið að krafist er vottunar sakavottorðs, þ.e. með apostille eða tvöfaldri keðjustimplun, sjá hér.
 7. Húsnæðisvottorð eða leigusamningur. Nema umsækjandi sé eigandi húsnæðis hérlendis.
 8. Sjúkrakostnaðartrygging. Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar að lágmarki 2.000.000 kr. frá tryggingafélagi með starfsleyfi á Íslandi, sjá nánar hér.
 9. Framfærsla umsækjanda þarf að vera trygg á dvalartíma, sjá hér. Atvinnuþátttaka umsækjanda getur talist til framfærslu ef hann hefur heimild til að vinna, sjá hér.
 10. Greinargerð um mannúðarástæður. Koma þarf fram hvaða mannúðarástæður leiða til þess að umsækjandi hefur þörf á vernd.
 11. Gögn til stuðnings greinargerð. Leggja þarf fram gögn til stuðnings greinargerð, t.d. læknisvottorð.


Gögn sem er heimilt að leggja fram:

 • Beiðni um undanþágu frá grunnskilyrðum dvalarleyfis. Beiðni þarf að leggja fram skriflega, ásamt rökstuðningi og fylgigögnum séu þau til staðar.
 • Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. ATH. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun, þetta á einnig við um maka.
 • Umsókn um atvinnuleyfi og ráðningarsamningur. Ráðningarsamningur og atvinnuleyfisumsókn þurfa að vera undirrituð bæði af umsækjanda og atvinnurekanda.


Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram til Útlendingastofnunar með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.


Endurnýjun

Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis mánuði áður en fyrra dvalarleyfi rennur út. Ef ekki er sótt um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. mánuði áður en fyrra leyfi fellur úr gildi, telst umsókn ekki vera endurnýjun heldur fyrsta leyfi.


Mæta þarf í eigin persónu í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanns. Tekin er mynd af umsækjanda þegar hann sækir um endurnýjun dvalarleyfis og ber honum að hafa vegabréf sitt meðferðis.


Hafi umsækjandi haft dvalarleyfi á Íslandi á öðrum grunni er nægjanlegt að leggja fram gögn vegna endurnýjunar.


Gögn sem leggja þarf fram:

 1. Gátlisti endurnýjunar.  Prenta þarf listann út og hafa til hliðsjónar við öflun gagna.  Vinsamlegast látið listann fylgja með umsókn.
 2. Umsókn um dvalarleyfi, í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
 3. Ljósrit vegabréfs (þarf ekki að vera staðfest). Gildistími skal vera minnst þrjá mánuði umfram gildistíma dvalarleyfis. Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með  undirskrift umsækjanda.
 4. Framfærsla umsækjanda þarf að vera trygg á dvalartíma, sjá hér.
 5. Greinargerð um mannúðarástæður. Koma þarf fram hvaða mannúðarástæður leiða til þess að umsækjandi hefur þörf á vernd.
 6. Gögn til stuðnings greinargerð. Leggja þarf fram gögn til stuðnings greinargerð, t.d. læknisvottorð.


Gögn sem er heimilt að leggja fram:

 • Beiðni um undanþágu frá grunnskilyrðum dvalarleyfis. Beiðni þarf að leggja fram skriflega ásamt rökstuðningi og og fylgigögnum séu þau til staðar.
 • Umboð í frumriti vottað af tveimur vottum. ATH. Umboð þarf ekki að berast nema umsækjandi vilji að einhver annar en hann sjálfur fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun.
 • Umsókn um atvinnuleyfi og ráðningarsamningur. Ráðningarsamningur og atvinnuleyfisumsókn þurfa að vera undirrituð bæði af umsækjanda og atvinnurekanda.


Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram til Útlendingastofnunar með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.